Ég hef mjög gaman af því að skoða uppskriftir og rakst á þessa dásamlegu vegan súkkulaðiuppskrift á netinu. Mér fannst hún svo girnileg að ég ákvað að prófa að búa til mitt eigið súkkulaði, sem er frábært fyrir nammigrísi eins og mig sem vilja draga úr sykuráti. Ég er ekki vegan en er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt,“ segir Sigríður sem er sérfræðingur hjá Byggðastofnun. 

Undanfarið hefur hún haft í mörg horn að líta en nýlega stóð Sigríður ásamt fleirum að Jakobínuvöku 2018 í Iðnó, dagskrá til heiðurs Jakobínu Sigurðardóttur sem var vel sótt. Hún er dóttir skáldkonunnar og er með bók um móður sína í smíðum.

Auðvelt að sniðganga nammihillurnar

„Fyrir nokkrum vikum ákváðum við hjónin að hætta meðvitað að kaupa sætindi inn á heimilið en við erum miklir súkkulaðifíklar. Ég er hissa á hvað það hefur reynst auðvelt og nammihillurnar í búðunum freista mín ekki hið minnsta. Stöku sinnum langar okkur þó í eitthvað sætt og þá er fínt að geta gripið í eigið súkkulaði,“ segir hún brosandi.

Uppskriftina fékk Sigríður á vefsíðunni Heilsa og vellíðan og höfundurinn heitir Anna Guðný Torfadóttir. „Ég fór alveg eftir uppskriftinni í fyrsta sinn sem ég bjó til súkkulaðið. Ég horfi oft á matreiðsluþætti mér til skemmtunar og einnig til að fá nýjar hugmyndir, ég var lengi áskrifandi að Gestgjafanum en þar eru pottþéttar uppskriftir. Svo á ég mikið af matreiðslubókum og þar leynast margar góðar uppskriftir sem ég nýti mér,“ segir Sigríður.

Lítið fyrir boð og bönn

Þótt Sigríður vilji almennt borða hollan og góðan mat segir hún stranga matarkúra ekki að sínu skapi og þeir höfði ekki til sín. „Ég er lítið fyrir boð og bönn í þeim efnum. Ef mér er bannað eitthvað liggur við að ég streitist á móti því. Þess vegna er ég ekki alveg stíf á því að borða alls ekkert óhollt. Við hjónin höfum að vísu að mestu leyti tekið út sykur en ég leyfi mér alveg að fá mér kökusneið og annað góðgæti í veislum og matarboðum,“ segir hún.

Sigríður hefur fylgst vel með umræðu um matarsóun og segist alin upp í þeim anda að henda helst aldrei mat. „Alla mína búskapartíð hef ég nýtt afganga af mat, hitað þá upp eða búið til eitthvað nýtt úr þeim. Ég hef alltaf haft röð og reglu á matartímum, enda vandist ég því sem barn, og ég held að það hafi mikið að segja. Ég tel að óhollustu nútímans megi rekja til þessara eilífu skyndilausna á öllu mögulegu, líka hvað varðar mat. Ég man eftir að hafa verið í matvörubúð í Bretlandi fyrir meira en áratug og það var varla hægt að kaupa hráefni til að matbúa frá grunni en hins vegar var nóg úrval af skyndiréttum. Ég óttast að við stefnum í þá átt hér á landi,“ segir hún.

Vegan súkkulaði

2 msk. kókosolía

1 msk. kakósmjör

2 msk. möndlusmjör

3 msk. kakó

3 msk. hlynsíróp

¼ tsk. vanilluduft

Gróft salt

Bræðið kókosolíuna og kakósmjörið. Setjið síðan allt hráefni í matvinnsluvél og látið hana blanda öllu vel saman þar til blandan er orðin mjúk. Setjið bökunarpappír í form og hellið blöndunni í formið. Mótið og setjið síðan í frysti. Látið harðna vel og takið út. Skerið í teninga og berið fram.