Hvort sem er fyrir jólin eða bara núna er gaman að útbúa persónulegar gjafir og gauka að vinnufélögunum. Það þarf ekki mikið til að gleðja aðra og það hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en einmitt nú.

Í dag er hægt að fá alls konar fallegar umbúðir, svo sem kassa, gjafapoka, krukkur og krúsir, slaufur og borða og því er ekkert mál að búa til fallega og persónulega gjöf. Eitt af því sem skemmtilegt er að gefa eru flórentínur, en þær eru sérlega ljúffengar og fallegar smákökur sem kitla bragðlaukana. Þær eru til í ýmsum útgáfum og hægt er að leika sér með því að prófa mismunandi uppskriftir. Hér er ein góð sem ekki á að klikka.

Flórentínur með möndlum

175 g mjúkt smjör

85 g sykur

½ tsk. vanilludropar

225 g hveiti

¼ tsk. kanill

225 g dökkt súkkulaði

Setjið smjör, sykur og vanilludropa í skál og hrærið vel saman, helst í hrærivél, þar til blandan verður létt og ljós, Bætið þá hveiti og kanil saman við. Hnoðið deigið vel saman og mótið kúlu úr því. Pakkið inn í plastfilmu og látið kólna í ísskáp í um klukkustund.

Hitið ofninn í 180°C. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír. Takið deigið úr kæli og fletjið þunnt út. Deigið á að vera álíka þykkt og hundraðkrónupeningur. Notið glas til að skera út kökur og raðið þeim á bökunarplötuna. Setjið skraut ofan á hverja köku fyrir sig. Bakið í ofni í 12-15 mínútur eða þar til kökurnar hafa tekið á sig gylltan lit og skrautið hefur bráðnað yfir þær. Látið kólna í um 15 mínútur.

Takið því næst súkkulaðið og látið það bráðna varlega yfir vatnsbaði. Það er líka hægt að bræða það í örbylgjuofni. Dýfið botninum í súkkulaði eða penslið hann með súkkulaði og skreytið með blönduðum kokteilberjum. Núna eru þessar dásamlegu flórentínur tilbúnar. Njótið vel!

Skraut með möndluflögum

75 g smjör

75 g ljós púðursykur

75 g síróp

½ tsk. salt

75 g hveiti

75 g kokkteilber, smátt skorin

115 g möndluflögur án hýðis

Setjið smjör, sykur, síróp og salt í pott og bræðið saman við lágan hita. Takið pottinn af hitanum og bætið hveiti út í. Blandið því næst kokteilberjum og möndluflögum saman við. Þetta er látið kólna svo blandan stífni örlítið.