„Ég hef alltaf elskað að baka og þá sérstaklega að smakka deigið,“ segir kökuskreytingameistarinn Brynja Bjarnadóttir glettin.

Hún byrjaði mjög snemma að baka alls konar Betty Crocker-kökur og múffur í allskyns litadýrð.

„Í raun er það dúlleríið við að skreyta kökuna sem gefur mér langmest. Ég elska að dunda mér við að föndra og búa til hluti, og kökuskreytingar eru fullkomnar í það. Ég baka oftar en ekki fyrir skemmtileg tilefni, eins og afmæli, fermingar og brúðkaup, og þegar ég er búin að eyða löngum tíma í að vanda mig við að skreyta er komin kaka sem hægt er að njóta og borða í mómentinu. Ég sit þá ekki uppi með eitthvert drasl sem ég hef föndrað en tími ekki að henda,“ segir Brynja og hlær.

Tveggja hæða terta með rósum.

Æfingin skapar meistarann

Gulrótarkaka er í dálæti hjá Brynju en þannig var það ekki á fermingardaginn.

„Eina óskin sem ég hafði fyrir fermingarveisluna mína var Rice Krispies-turn og hún er það eina sem ég man af veitingunum í veislunni. Óskin mín rættist og ég fékk minn Rice Krispies-turn og bað þar af leiðandi ekki um hefðbundna fermingartertu. Ég myndi því hiklaust mæla með Rice Krispies-köku í fermingarveislur, fyrir börn í gestahópnum og sjálft fermingarbarnið. Hún slær alltaf í gegn,“ segir Brynja sem bakar meira fyrir aðra en til heimilisins í dag.

Glæsileg og blómum skreytt terta sem er prýði á fermingarborðið.

„Galdurinn við góða köku er heimabakstur, ást og umhyggja. Svo lengi sem maður man eftir öllum hráefnunum og gleymir ekki kökunni í ofninum er svo voðalega erfitt að klúðra bakstrinum,“ segir Brynja sem ráðleggur að baka kökubotnana tveimur til fjórum dögum fyrr til að spara stress og tíma, og skreyta svo kökuna daginn áður en hún er borin á borð.

„Allir geta skreytt köku svo fallegt sé, og sérstaklega með réttu áhöldunum. Þau auðvelda vinnuna töluvert. Góð spatúla, gel-matarlitir, réttu sprautustútarnir og nægur tími er allt sem þarf; svo er bara að prufa sig áfram og leyfa hugmyndafluginu að njóta sín. Eins og í öllu öðru, þá skapar æfingin meistarann,“ segir Brynja og gefur lesendum uppskrift að einfaldri en gómsætri tertu sem hittir í mark í fermingarveislunni.

Fylgist með Brynju á Instagram @brynjabjarna.

Brynja segir æfingu skapa meistara í kökugerð eins og öðru.

Kakóterta

Mjög einföld og þægileg kaka til að skreyta og sem ekki er hægt að klúðra.

Royal-búðingur (hvaða bragð sem er)

250 g hveiti

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. natron (matarsódi)

1 tsk. salt

300 g sykur

4 msk. kakó

125 g smjör

2 ½ dl mjólk

2 egg

Blandið þurrefnum saman. Látið smjörið linast og myljið út í þurrefnin. Bætið við mjólk og eggi. Skiptið deiginu í tvö hringlaga form. Bakið í ofni við 180 °C, í annarri hillu að neðan, í sirka 15 mínútur. (Án blásturs í 200 °C í sirka 18 mínútur.)

Smjörkrem

250 g smjör

250 g flórsykur

3 tsk. vanillusykur

Gel-matarlitur að eigin vali

Þeytið smjörið vel og lengi þar til það verður ljóst og „flöffí“. Bætið sykrinum varlega við og hrærið saman við smjörið. Bætið að lokum gel-matarlit út í kremið, að vild.

Þvílík fegurð á einni bleikri köku.