Ljós­mynda­sýningin Heima verður opnuð í Nor­ræna húsinu á morgun. Þar verður að finna myndir teknar af sex úkraínskum ljós­myndurum áður en stríðið hófst. Sýningar­stjórar eru Ye­vgeny Dyer og Iryna Kamieni­eva, sem búa bæði á Ís­landi.

„Ég kom til Ís­lands í byrjun mars á þessu ári til að sækja um al­þjóð­lega vernd,“ segir Iryna. „Mér fannst ég frekar týnd fyrst um sinn og vildi endi­lega taka þátt í stuðningi við Úkraínu svo ég skipu­lagði úkraínska ljós­mynda­sýningu í Núllinu Gallerý. Þar kynntist ég Ye­vgeny sem kom að sjá sýninguna.“

Ye­vgeny hefur búið á Ís­landi síðast­liðin 11 ár og segir ljós­myndun hafa verið helstu ást­ríðu sína á þeim tíma.

„Fyrsta verk­efnið mitt var til­einkað inn­flytj­enda­málum, nánar til­tekið hvernig það er að vera fjarri heimili sínu og missa það síðan án þess að finna nýtt,“ segir hann.

Þau Irina og Yevgeny sáu listina sem kjörið verk­færi til að fá fólk til að missa ekki á­hugann á Úkraínu og spratt sýningin út frá því.

„Við vildum sýna Úkraínu á já­kvæðari hátt en fólk hefur vanist á síðustu mánuðum,“ segir Yevgeny. „Við viljum að fólk upp­lifi hlýju, nota­leg­heit og fjöl­breyti­leika landsins, upp­lifi þær til­finningar sem við ó­lumst upp við.“

Myndin af þessum appelsínugula bíl er Yevgeny sérstaklega kær. Afi hans átti bílinn í meira en tuttugu ár og tréð þar á bak við var gróðursett daginn sem Yevgeny fæddist.
Mynd/Yegveny Dyer

Að fanga hlýjuna

Á myndum sínum á sýningunni reynir Ye­vgeny að sýna Úkraínu eins og hann upp­lifði landið fyrir stríð – lit­ríkt og and­rúms­loftið létt.

„Að vera inn­flytjandi að­skildi mig frá Úkraínu á vissan hátt og sem ljós­myndari vildi ég að ég hefði fangað meira af hlýju lands míns. Þrátt fyrir það þykir mér enn vænt um hverja stund og hverja mynd sem ég hef tekið þar,“ segir hann.

Iryna tekur undir með Ye­vgeny.

„Við sjáum margar úkraínskar sýningar í ó­líkum löndum, allar um stríðið. Okkar snýst líka um stríðið en í fyrsta lagi erum við að leggja á­herslu á að þetta stríð sé að gerast á fal­legum stað sem við köllum heimili okkar,“ út­skýrir hún. „Margir út­lendingar höfðu ekki heyrt um Úkraínu fyrir stríðið og það gæti verið erfitt fyrir þá að í­mynda sér hvernig landið var áður. Við viljum gefa þeim tæki­færi til þess.“

Sýningin verður opnuð klukkan 17 á morgun og stendur yfir til 20. ágúst.

Alls koma sex ljósmyndarar að sýningunni.
Mynd/Aðsend
Þessa mynd tók Iryna á eyjunni Dzharylhach árið 2020. Vinahópurinn hennar var samankominn til að fagna afmæli eins vinarins og á myndinni má sjá sólarupprisuna morguninn eftir veisluna.
Mynd/Iryna Kamienieva