Ég er enskukennari og félagsmálafulltrúi við FB og hef verið þar síðan 2016. Ég var áður að vinna sem forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Hólmaseli í Breiðholti. Ég hef mikinn áhuga á að vinna með ungu fólki og finnst það bæði skemmtilegt og gefandi.“

Bandaríska tálsýnin

Kristín er er með BA í ensku frá Háskóla Íslands, MS í íþróttastjórnun (Sport management) frá ODU (Old Dominion University) og M.ed í kennslufræði.

Hún hefur tvisvar búið um skeið í Bandaríkjunum, í Norfolk í Virginíu, annars vegar þegar hún nam við ODU og hins vegar árið 1997. Hún segir þá upplifun hafa verið afar frábrugðna því sem hún þekkti á Íslandi.

„Ég flutti þangað í eitt ár, var í 12. bekk í „High school“ og bjó hjá frænku minni. Glamúrmyndin sem er dregin upp í bíómyndum og sjónvarpsþáttum er alls ekki rétt. Skólinn byrjaði alltaf klukkan 7.20, maður geymdi allt dótið í skáp og í hádegishléinu var salnum lokað. Þú þurftir þá að biðja um sérstakan passa til að fá að fara í skápinn eða á salernið og það voru öryggisverðir á ganginum. Þetta var töluvert strangara en ég bjóst við."

Mismikið álag milli daga

Kristín er gift, á einn strák sem er í fyrsta bekk og smáhund sem er að verða þrettán í febrúar. Hún segir vinnuna í félagsmiðstöðinni ekki hafa passað vel við foreldrahlutvekið. „Ég var mikið að vinna um kvöld og helgar og fór oft í ferðir, og svo var maðurinn minn að vinna hjá WOW í vaktavinnu þannig að þetta var oft frekar mikið púsluspil. Það hafði lengi blundað í mér að fara í kennarann svo að ég endaði á því að nýta fæðingarorlofið í kennaranám.“

Kristín segir venjulegan dag hefjast á því að koma drengnum út. „Fyrir COVID mætti ég svo beint í skólann. Ég byrja alltaf að kenna klukkan 9.50, sem er frábært þegar maður er með barn, og er búin á milli 15-16. Þegar kennslu er lokið bíða mín mismunandi verkefni, stundum er ég lengi fram á kvöld að fara yfir nemendaverkefni og svo koma rólegar stundir inn á milli. Síðan taka félagsmálin við á kvöldin, ég er oft í sambandi við nemendaráðið seinni hluta dags og jafnvel fram á kvöld. Dagurinn er stundum langur og þessu getur fylgt dálítið áreiti.“

Getur verið ruglingslegt

Kristín segir undanfarna mánuði hafa verið sérkennilega. „Maður er náttúrulega bara búinn að vera einn heima hjá sér síðan í mars. Eftir að öllu var lokað þá varð allt rafrænt. Ég hef lítið farið inn í skólann, fór aðeins í upphafi haustannar þegar ég var með próf í skólanum.“

Hún segir fjarkennslunni fylgja bæði kostir og gallar. „Það er þægilegt að kenna í gegnum netið en ókosturinn er sá að maður missir dálítið tengslin við nemendur og kemur ekki endilega saman nafni við andlit. Þú verður stundum hálfruglaður þegar þau senda póst og áttar þig ekki alveg strax á því í hvaða hópi viðkomandi er. Þau finna þetta líka og treysta manni þar af leiðandi kannski ekki jafn vel.“

Að sögn Kristínar er misjafnt hvernig þetta fyrirkomulag leggst í nemendur. „Mörgum finnst þetta mjög þægilegt, að geta bara rúllað sér yfir á hina hliðina og kveikt á tölvunni. Þetta á ekki síst við um þá nemendur sem eiga erfitt félagslega, þeim finnst gjarnan gott að geta bara verið á spjallinu.“

Reyni að halda mig í rútínu

Kristín reynir eftir fremsta megni að halda sig í rútínu. „Ég reyni að temja mér að vera sest fyrir framan tölvuna tæplega níu og hef þá smá undirbúningstíma fyrir kennsluna. Ég er oftast bara í ullarsokkum og flíspeysu, maður er ekkert að stríla sig upp í fjarkennslunni.“

Þá hefur hún einnig þurft að finna nýjar leiðir til að stunda hreyfingu. „Ég fer vanalega mikið í ræktina en hún er auðvitað búin að vera lokuð svo ég hef þurft að finna mér eitthvað annað eins og að fara út að ganga, hvort sem það er að sækja og taka þá kannski auka hring eða hlaupa þegar veður leyfir. Síðan er ég með æfingahjól heima og tek stundum túr á því á meðan ég horfi á sjónvarpið.“

Þetta getur þó tekið á til lengdar. „Maður finnur það alveg eftir langa daga að maður er farinn að þrá að komast út og hitta fólk. Maður saknar þess að sjá nemendur og eiga í samskiptum við þá og kollegana.“