Erna Berg­mann og Saga Sig gefa út í þriðja sinn veg­lega bók­verkið Blæti um listir, hönnun og tísku. Bókin er 400 blað­síður, í henni er að finna fjölda mynda­þátta, hug­leiðingar, ljóð eftir Bubba Morthens og smá­sögur, um­fjöllun um arki­tektúr, jóga, við­tal við frú Vig­dísi Finn­boga­dóttur og farið yfir 20 ára sögu ís­lenska fata­merkisins Aftur. Þema Blætis í ár er fram­tíðin.

Rit- og list­stjórn­endur tíma­ritsins, Erna og Saga, hitta blaða­mann á Prima­vera í Mars­hall-húsinu þegar undir­búningur undir út­gáfu­hófið stendur sem hæst. Leifur Kol­beins­son mat­reiðslu­maður og eig­andi Prima­vera er á vappi að kanna um­gjörðina og fjöl­skyldu­með­limir Ernu og Sögu hjálpa til við undir­búninginn.

Mikið hefur verið lagt í út­lit og hönnun bókarinnar af tví­eykinu hjá Stu­dio Stu­dio, þeim Arnari Frey Guð­munds­syni og Birnu Geir­finns­dóttur á­samt Chris Pet­ter Spild­e.

Hvers vegna þetta þema, fram­tíðin?

Saga: Við erum alltaf með þema sem er gegnum­gangandi en það er mjög opið. Okkur fannst þetta mjög við­eig­andi, hvað kemur næst?
Vig­dís Finn­boga­dóttir segir um þetta að við ættum að rækta þann heim sem fram­tíðin getur sætt sig við.

Erna: Við erum öll að huga að um­hverfinu og taka upp breyttar neyslu­venjur. Þetta skiptir ó­trú­lega miklu máli. Við leyfðum lista­fólkinu að túlka þemað á sinn hátt.

Hversu mikil vinna hefur farið í að vinna verkið? Þið eruð bara tvær sem standið að þessu?

Erna: Þetta er rosa­leg vinna, við tölum alltaf um Blæti sem skrímsla­barnið okkar og höfum gert frá upp­hafi. Fyrsta ein­takið kom út árið 2016 og þetta er alltaf jafn mikil og krefjandi vinna. Sem er þó alltaf þess virði þegar að við fáum bókina í hendur.

Saga: Þetta er mjög mikil vinna, í sam­bæri­legum verkum er­lendis eru kannski 20-30 manns að vinna að svona verk­efni og þá jafn­vel í lengri tíma. Við byrjuðum af al­vöru að vinna að út­gáfunni í septem­ber á síðasta ári. Við sjáum um alla þætti út­gáfunnar, sam­skipti við lista­menn og hönnuði, allt sem við­kemur aug­lýsingum, fram­leiðslu, prentun og list­rænni stjórnun.“

Erna: Þetta hefur verið ó­trú­lega krefjandi tími.

Erna, þú ert að fara að eiga barn, og ekki langt þangað til. Hvernig kemst þú í gegnum þetta?

Erna: Ég skrifa hug­leiðingu um kundalini jóga í Blæti. Ég er jóga­kennari og er búin að læra bæði kundalini og jóga nidra. Þetta er mitt hugðar­efni í lífinu og jógað gagnast mér mikið í öllum að­stæðum í lífinu. Kundalini jóga er svo gott og um­breytandi verk­færi, þegar ég byrjaði að stunda þetta varð ég eigin­lega fyrir upp­ljómun. Mér líður betur, er í betra jafn­vægi og gengur betur að takast á við álag. Það á við um þetta verk­efni og fleiri verk­efni sem ég sinni, því ég á auð­vitað von á barni. Á þrjú börn fyrir og hef sinnt öðrum verk­efnum, til dæmis því að vera með sjálf bæra sund­fata­merkið Swims­low sem notar endur­unnin efni.

Saga: Erna er mögnuð, það má segja að það fylgi alltaf á­kveðinn fæðingar­sárs­auki út­gáfunni á hverju ári. Og í raun og veru á þetta við um öll góð verk sem maður sinnir. Á þessu tíma­bili hef ég sjaldan haft jafn mikið að gera, ég gerði til að mynda verk­efni fyrir App­le, her­ferðir fyrir Icelandair og Smára­lind og var einnig í löngu verk­efni með Saga Film, 20/20.

Hvers vegna á­kváðuð þið að gefa út þessi veg­legu verk, hvaða þörf eruð þið að upp­fylla?

Saga: Þetta er svo gaman, við höfum báðar unnið lengi í aug­lýsinga­bransanum og þar er ekki þetta frelsi sem við njótum þegar við erum að vinna að Blæti. Það er svo gaman að gera það sem okkur langar að gera og hafa alla stjórn, geta á­kveðið hvaða pappír er notaður og gefa engan af­slátt af gæðum. Þrykkja og sauma prent­verkið.

Erna: Verkið endur­speglar bæði sam­tímann og það sem okkur langar að sjá og fjalla um. Undir­liggjandi er að við ættum að fagna því hver við erum og gera það sem okkur langar. Hika ekki við það.

Saga: Við megum vera alls konar, það er í lagi. Fyrir 10 árum þurftir þú að velja starfs­fra­mann. Nú þarftu þess ekki, þarft ekki að tikk­a í eitt box.

Hvernig teymi eruð þið?

Erna: Ég er ó­trú­lega þakk­lát fyrir okkar sam­starf og það að hafa ein­hvern mér við hlið sem er til í allt vesenið og flóknu smá­at­riðin. Ein­hvern sem skilur það og vinnur af ást­ríðu, metnaði og hugjón. Saga er hugsuður og ein­stak­lega góður og mikill pælari. Það er dýr­mætt og þykir mér ein­stak­lega vænt um okkar vin­áttu og sam­starf.

Saga: Við bætum hvor aðra upp. Allt sem Erna gerir, gerir hún vel. Sama hvað það er. Það er á­kveðinn klassi yfir því. Hún er mjög list­ræn og góður leið­togi, hún gæti leitt hvaða fyrir­tæki sem er. Hún er drífandi og ég held að það hafi sitt að segja hvað hún er með stórt heimili. Hún sóar ekki tíma sínum.

Þemað hefur mikla þýðingu fyrir ykkur og það má greina á­kveðna um­hyggju fyrir um­hverfinu í bókum ykkar.

Saga: Ég bjó á Þing­völlum sem barn og ung­lingur og upp­lifði sterk tengsl við náttúruna. Ég heyrði jörðina anda, heyrði í frostinu og jörðinni dragast sundur og saman eftir árs­tíðum. Ég ætla að vona að við getum tekið höndum saman um allan heim, annars sést í enda­lokin. Það skiptir mig miklu máli að vera bjart­sýn og að við höfum trú á því að við getum leyst þau vanda­mál sem eru til staðar. Nei­kvæðni á ekki við á svona tímum en því miður er hún á­berandi í sam­fé­laginu. Það eru allir svo mikið á hnefanum og ég vona inni­lega að það breytist.

Nú er vin­sælt að boða dauða bókarinnar og prent­verksins, hvað segið þið um það?

Erna: Ég held að það sé ó­tíma­bært að spá því. Fólk kaupir minna en vandaðri verk og safnar svona bókum og heldur upp á þær. Vandað prent­verk býður upp á reynslu sem kemst ekki ná­lægt því að skoða eitt­hvað á Insta­gram eða skrolla í símanum. Blæti snýst líka um upp­lifunina, lyktina, snertinguna og á­kveðin hug­hrif og er á­kveðið stofu­stáss í sjálfu sér.

Saga: Auð­vitað hefur prent­verkið minnkað en krafan um gæði er meiri. Bækur verða alltaf til, því það eru þessi til­finninga­legu tengsl sem má ekki van­meta. Mér finnst ég til dæmis vera heima þar sem bækurnar mínar eru.