Pólski ljósmyndarinn Michal Iwanowski hefur verið búsettur í Cardiff í Wales í 22 ár og er með tvöfaldan ríkisborgararétt. Þegar hann sá veggjakrot nálægt heimili sínu árið 2008 þar sem sagði „Go Home Polish“ eða „Farið heim Pólverjar“ tók hann það því nokkuð nærri sér en þessi fordómafulla yfirlýsing átti þó eftir að verða innblástur fyrir eitt umfangsmesta verkefni hans.

„Ég er fæddur í Póllandi en hef búið í Wales lengi og finnst ég eiga heima þar. Þannig að þegar ég sá þetta í hverfinu mínu þá truflaði það mig nokkuð og hugmynd mína um hvað heima er. Er ég heima eða er ég ekki heima? Af því mér leið eins og ég væri það,“ segir Michal.

Það var þó ekki fyrr en tæpum áratug síðar sem Michal ákvað að gera eitthvað með þetta og snúa merkingu skilaboðanna við. Með bresku og pólsku vegabréfin sín í hendi, klæddur í stuttermabol sem á stóð Polska lagði Michal af stað fótgangandi frá heimili sínu í Cardiff með stefnuna að heimabæ sínum Mokrzeszów í Suðvestur-Póllandi. Ferðalagið var tæpir 2.000 kílómetrar í gegnum átta lönd: Wales, England, Frakkland, Belgíu, Holland, Þýskaland, Tékkland og Pólland.

„Ég vissi ekki alveg hvað ég var að gera í upphafi en þegar ég var hálfnaður með verkefnið myndi ég segja að ég hafi áttað mig á því að heima er miklu stærra hugtak en að vera pólskur, velskur eða hvað eina. Ég var bara innan um náttúruöflin og áttaði mig á því að við erum öll með nákvæmlega sama stóra kjarnakljúfinn sem skín á okkur,“ segir hann.

Michal sá veggjakrotið nálægt heimili sínu í Cardiff árið 2008 en notaði það svo sem innblástur fyrir verkefnið tíu árum síðar.
Mynd/Michal Iwanowski

Dásamlega leiðinlegt

Þetta hlýtur að hafa verið mikil upplifun?

„Þetta var eiginlega alveg dásamlegt. Mér fannst þetta mjög leiðinlegt fyrst en um leið og ég kláraði þá elskaði ég það. Ég tók upp fullt af myndbandsskilaboðum þar sem ég grátbað sjálfan mig um að gera þetta aldrei aftur. En núna hugsa ég ekki um annað en hvað mig langar mikið til að gera þetta aftur.“

Á ferðalaginu gisti Michal til skiptis í tjaldi og á gistiheimilum. Mestur tíminn fór auðvitað í að ganga og Michal kveðst hafa gengið að meðaltali 18 kílómetra á dag og stundum allt upp í 35. Spurður um hvort hann hafi einhvern tímann verið óttasleginn eða fundist sér ógnað á ferðalaginu segir Michal svo ekki vera. Almennt hafi honum liðið mjög öruggum jafnvel þótt hann væri einn úti á víðavangi.

„Það komu stundir þar sem ég var mjög þreyttur og svo líkamlega uppgefinn að ég hélt að ég þyrfti að hætta á miðri leið. En svo rakst ég á fólk sem gaf mér góð ráð, elektrólýtur og hjálpaði mér aftur á lappir,“ segir hann.

Um er að ræða bæði landslagsmyndir og listrænar myndir þar sem Michal notar sjálfan sig sem viðfangsefni.
Mynd/Michal Iwanowski

Notaði sjálfan sig sem viðfang

Michal skrásetti ferðalagið með myndavélinni sinni og afraksturinn varð 103 mynda ljósmyndasería, ein mynd fyrir hvern dag ferðalagsins, sem ber titilinn Go Home Polish. Um er að ræða bæði landslagsmyndir og listrænar myndir þar sem Michal notar sjálfan sig sem viðfangsefni.

„Verkefnið fjallar í grunninn um fólksflutninga og útlendingaandúð þannig að mér fannst ég þurfa innflytjanda sem viðfangsefni og þar sem ég hafði einn slíkan við höndina notaði ég sjálfan mig. Ég hata það þegar fólk segir að Pólverjar séu svona eða svona, skipar okkar að fara heim, alhæfir og notar regnhlífarhugtök. Mig langaði að nota manneskju með andlit og nafn sem er innflytjandi af því það er sjónarhornið sem mér finnst að við ættum að nota. Við vitum hvað gerðist í Evrópu á fjórða áratug síðustu aldar þegar litið var á Gyðinga sem kakkalakka og þeim síðan útrýmt.“

Það hlýtur samt að vera nokkuð ólík upp­lifun fyrir mann sem er með evrópskt vega­bréf að ganga þvert yfir Evrópu heldur en inn­flytj­enda og flótta­manna utan álfunnar?
„Al­gjör­lega, það eru hvít for­réttindi. Ég var mjög með­vitaður um það að ég gat gengið um með kredit­kortið mitt án þess að stoppaður. Það var eitt at­vik í Dun­kirk í Frakk­landi þar sem ég sá lög­reglu­menn stoppa hóp fólks sem litu út eins og túr­istar en voru dekkri á hörund en ég. Það var verið að yfir­heyra þau af því þau litu út fyrir að geta verið sýr­lenskir inn­flytj­endur. Ég gekk fram hjá og enginn stoppaði mig, lög­reglunni var alveg sama. Ég leit samt ekkert vel út, var ó­snyrti­legur og illa til fara en ég var hvítur karl­maður og gat því gengið í gegnum Evrópu ó­séður.“

Við erum öll á þessum sama steini að snúast um geiminn á ógnar­hraða, við erum öll saman í þessu og erum öll að fara í sömu átt. Þannig fyrir mig varð heima að ein­hverju mun víð­tækara og ég stend al­gjör­lega við það núna.

Öll á sama steininum

Michal segir verk­efnið hafa fengið hann til að líta hug­takið heima allt öðrum augum. Hann var undir miskunn náttúru­aflanna kominn og segist hafa liðið eins og hann hafi verið ofar lögum manna og ríkis­stjórna.

„Við erum öll á þessum sama steini að snúast um geiminn á ógnar­hraða, við erum öll saman í þessu og erum öll að fara í sömu átt. Þannig fyrir mig varð heima að ein­hverju mun víð­tækara og ég stend al­gjör­lega við það núna,“ segir hann.

Michal hefur sýnt Go Home Polish á ýmsum stöðum en sýningin stendur nú yfir á al­þjóð­legu leik­listar­há­tíðinni í Ki­elce í Pól­landi. Þá stefnir hann á að gefa út ljós­mynda­bók á næsta ári.