Borgar­leik­húsið stendur fyrir sér­stöku Um­búða­lausu festi­vali næsta laugar­dag þar sem á­horf­endum gefst tæki­færi að sjá allar þrjár sýningarnar sem voru fram­leiddar í til­rauna­verk­efninu Um­búða­laust á síðasta leik­ári á einu kvöldi.

Um er að ræða þrjár sýningar; How to make love to a man eftir Toxic Kings, Á vísum stað eftir Slembi­lukku og FemCon. Um­búða­laust hlaut verð­laun sem Sproti ársins á Grímunni 2022. Sýningarnar hafa allar verið sýndar áður en að sögn Bryn­dísar Óskar Þ. Ingvars­dóttur, eins með­lima Slembi­lukku, koma þær til baka ferskari en nokkru sinni.

„Þegar maður nær að geyma sýningu í svo­lítinn tíma þá kemur hún ferskari til baka. Það er eitt­hvað sem ég hef séð í gegnum Co­vid að þegar maður fær að geyma verkin sín og láta þau malla, þá hefur maður betri yfir­sýn þegar maður fer í þau aftur,“ segir hún.

Að sögn Bryn­dísar er ekki um miklar breytingar á verkunum að ræða, þau fá þó betra pláss á Nýja sviði Borgar­leik­hússins en verkin voru áður sýnd í stúdíói leik­hússins á þriðju hæð.

„Ég held að sýningarnar eigi það allar sam­eigin­legt að það er dá­lítið mikið rými í þeim fyrir per­sónu­leika okkar að skína. Við getum alveg breytt setningum og svona eftir stemningunni í salnum.“

Bryn­dís Ósk Þ. Ingvars­dóttur, einn meðlima Slembilukku.
Mynd/Borgarleikhúsið

Sýningarnar eru allar um það bil klukku­tími að lengd en há­tíðin hefst klukkan 6 á laugar­dags­kvöldið og stendur til sirka 11. Hlé verður gert á milli sýninga þar sem fólki gefst kostur á að kaupa sér veitingar.

Sviðs­lista­hópurinn Slembi­lukka mun sýna nýtt verk sem ber heitið Hvíta tígris­dýrið í byrjun næsta árs í sam­starfi við Borgar­leik­húsið og kveðst Bryn­dís vera gífur­lega spennt fyrir því.

„Við fengum styrk frá Rann­ís til þess að setja upp ævin­týra­sýningu og fengum inni í Borgar­leik­húsinu. Þannig að Um­búða­laust er að sýna það að verk­efninu er að takast að hlúa að yngsta fólkinu okkar,“ segir hún.

Er verk­efni eins og Um­búða­laust mikil­vægt fyrir sviðs­lista­fólk sem er að stíga sín fyrstu skref?

„Já, mér finnst það. Það er líka bara svo ó­trú­lega hollt að fá inni í leik­húsinu þar sem eru til dæmis dramat­úrgar sem geta komið og gefið góð ráð. Þannig að maður er ekki al­einn í ein­hverju litlu rými ein­hvers staðar úti í bæ að vesenast heldur er maður með smá stuðnings­net sem er rosa­lega gott.“