Borgarleikhúsið stendur fyrir sérstöku Umbúðalausu festivali næsta laugardag þar sem áhorfendum gefst tækifæri að sjá allar þrjár sýningarnar sem voru framleiddar í tilraunaverkefninu Umbúðalaust á síðasta leikári á einu kvöldi.
Um er að ræða þrjár sýningar; How to make love to a man eftir Toxic Kings, Á vísum stað eftir Slembilukku og FemCon. Umbúðalaust hlaut verðlaun sem Sproti ársins á Grímunni 2022. Sýningarnar hafa allar verið sýndar áður en að sögn Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur, eins meðlima Slembilukku, koma þær til baka ferskari en nokkru sinni.
„Þegar maður nær að geyma sýningu í svolítinn tíma þá kemur hún ferskari til baka. Það er eitthvað sem ég hef séð í gegnum Covid að þegar maður fær að geyma verkin sín og láta þau malla, þá hefur maður betri yfirsýn þegar maður fer í þau aftur,“ segir hún.
Að sögn Bryndísar er ekki um miklar breytingar á verkunum að ræða, þau fá þó betra pláss á Nýja sviði Borgarleikhússins en verkin voru áður sýnd í stúdíói leikhússins á þriðju hæð.
„Ég held að sýningarnar eigi það allar sameiginlegt að það er dálítið mikið rými í þeim fyrir persónuleika okkar að skína. Við getum alveg breytt setningum og svona eftir stemningunni í salnum.“

Sýningarnar eru allar um það bil klukkutími að lengd en hátíðin hefst klukkan 6 á laugardagskvöldið og stendur til sirka 11. Hlé verður gert á milli sýninga þar sem fólki gefst kostur á að kaupa sér veitingar.
Sviðslistahópurinn Slembilukka mun sýna nýtt verk sem ber heitið Hvíta tígrisdýrið í byrjun næsta árs í samstarfi við Borgarleikhúsið og kveðst Bryndís vera gífurlega spennt fyrir því.
„Við fengum styrk frá Rannís til þess að setja upp ævintýrasýningu og fengum inni í Borgarleikhúsinu. Þannig að Umbúðalaust er að sýna það að verkefninu er að takast að hlúa að yngsta fólkinu okkar,“ segir hún.
Er verkefni eins og Umbúðalaust mikilvægt fyrir sviðslistafólk sem er að stíga sín fyrstu skref?
„Já, mér finnst það. Það er líka bara svo ótrúlega hollt að fá inni í leikhúsinu þar sem eru til dæmis dramatúrgar sem geta komið og gefið góð ráð. Þannig að maður er ekki aleinn í einhverju litlu rými einhvers staðar úti í bæ að vesenast heldur er maður með smá stuðningsnet sem er rosalega gott.“