„Það að sjá hversu mataræðið skiptir miklu máli varð til þess að ég dreif mig í nám í Heilsumarkþjálfun og útskrifaðist vorið 2013 frá Institute for Intergrative nutrition, NY. Síðan þá hef ég haldið fjöldann allan af matreiðslunámskeiðum. Ég nýt þess að hjálpa fleirum að bæta mataræði sitt og fjölskyldunnar og held úti heimasíðunni heilsumamman þar sem ég deili með lesendum mínum uppáhalds uppskriftum og fróðleik um mataræði og námskeið sem ég held reglulega.“

Oddrún spáir mikið samsetningu matar og reynir eftir bestu getu að næringuna sem hreinasta og næringarríkasta.

„Þessa dagana er ég á fullu að undirbúa næsta námskeið sem heitir „Gott start“. Þátttakendur fá fullt af næringarríkum uppskriftum, daglega hvatningu og fræðslu og svo eldum við saman í gegnum í beinar útsendingar í facebook hóp. Markmiðið er að auka fjölbreytni, borða næringarríkan mat og bæta við góðum venjum.“

Dóttirin grænmetisæta og ég með glútenóþol

„Yfirleitt elda ég kvöldmat á hverju kvöldi og fjölskyldan borðar saman. Þó að það takist ekki alltaf út af vinnu, verkefnum og íþróttaæfingum barnanna. Þetta er besti tími dagsins finnst mér. Það tekur auðvitað tíma að elda og ganga frá en að hafa hljóðbók í eyranu gerir það mun skemmtilegra. Þar sem ein dóttir mín er grænmetisæta og ég er sjálf með glútenóþol elda ég mikið mat sem hægt er að setja saman sjálfur. Oftast er grunnurinn á matnum grænmeti en þeir sem vilja kjöt, fisk eða kjúkling bæta því þá saman við sjálfir. Einnig eru svona skálar vinsælar, þar sem hver og einn velur í sína skál eftir smekk,“ segir Oddrún.

„Yfirleitt reyni ég að gera matseðil fyrir vikuna og reyni að halda mig við hann 70 til 80 prósent - Það er ekki raunhæft að það takist 100 prósent því það er alltaf eitthvað sem kemur upp á,“ segir Oddrún og bætir við að samt sé mjög gott að hafa eitthvað viðmið til fara eftir og það geri hlutina auðveldari.

Blómkáls- og kjúklingabaunaréttur.

Hér kemur vikumatseðillinn hennar Oddrúnar sem hún býður lesendum Fréttablaðsins upp á.

MánudagurLéttur blómkáls- og kjúklingabaunaréttur

„Frábær léttur og bragðgóður réttur með blómkáli og kjúklingabaunum. Gott að fá sér eitthvað létt eftir helgina.“

Uppskriftin er hér.

Blálanga.

Þriðjudagur – Blálanga með lime og kóríander

„Það er engin á heimilinu sérstaklega spenntur fyrir fiski en hann er samt reglulega á borðum. Þessi uppskrift lofar mjög góðu.“

Uppskriftin er hér.

Kjúklingur tikka masala.

Miðvikudagur – Ekta indverskur Tikka masala

„Tikka masala á köldu vetrarkvöldi hljómar aldeilis vel.“

Uppskriftin er hér.

Súpa með kókos og karrí.

Fimmtudagur Bragðmikil og góð karrí kókos súpa

„Á fimmtudögum finnst mér snilld að hafa súpu í matinn og þá hreinsa ég út úr ísskápnum í leiðinni áður en ég versla fyrir helgina. Þetta er mín uppáhalds súpa. Það má hafa þessa súpu sem grænmetissúpu en einnig er mjög gott að bæta við risarækjum eða kjúkling.“

Karrí kókos grænmetissúpa

1 msk. avókadóolía eða kókosolía

2 hvítlauksrif

1-2 msk. Tælenskt karrí frá Kryddhúsinu

8 dl kókosmjólk

2 tsk. kókospálmasykur (má sleppa en dregur fram kryddin)

600 ml vatn og 2x grænmetisteningur

1 msk. tamarisósa

3-4 meðalstórar gulrætur og 1 rauð paprika skornar í strimla

2 stilkar sellerí smátt skorið

1 lítið kínakál eða 1/3 haus af hvítkáli skorið í strimla

Það má bæta við meira grænmeti t.d. brokkolí

safi af 1 lime (byrjið á helmingnum og smakkið áður en þið bætið seinni helmingnum saman við)

Ef þið eruð með fersk krydd við hendina er mjög gott að setja væna lúku af steinselju, basilíku eða kóríander með.

Veljið prótein til að setja í súpuna t.d. soðinn fisk, rækjur, kjúkling eða linsubaunir (það er miðað við að þessir hlutir séu eldaðir svo það er mjög sniðugt að nota afganga.)

Byrjið á því að hita olíu í potti og bætið hvítlauknum og kryddinu út í. Leyfið þessu að hitna vel og njótið þess að finna góðu krydd lyktina upp úr pottinum. Bætið síðan restinni af hráefnunum saman við og leyfið súpunni að malla létt í u.þ.b. 5 -10 mínútur og bætið þá við prótein að eigin vali (má líka bæta því út í hverja skál eftir á). Þessi súpa verður enn betri ef hún fær að malla lengi. Það er góð hugmynd að búa til súpuna, slökkva undir og leyfa súpunni að standa á hellunni í 1-2 klukkustundir og þá verður hún virkilega bragðgóð.

Holl pitsa.

Föstudagur - Pitsakvöld

„Það er föst hefð hjá okkur að hafa pitsu á föstudagskvöldum og hefur verið í mörg ár. Yfirleitt bý ég til deig úr pressugeri og lífrænu hveiti fyrir fjölskylduna en þar sem ég má ekki fá hveiti er ég með nokkra glútenlausa botna sem ég skiptist á að gera og kaupi líka stundum tilbúna. Hér er einn léttur og góður hveitilaus botn sem er líka vinsæll hjá þeim sem eru á ketó.

Skýjabotn – vinsæll lágkolvetna botn

2 dl eggjahvítur (eða 5-6 stk)

2 msk. husk

2 msk. möndlumjöl

1 tsk. oreganó eða ítölsk kryddblanda

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C gráður. Þeytið eggjahvítur í hrærivél eða með handþeytara. Þær eiga að verða stífþeyttar. Blandið möndlumjöli og huski rólega saman við ásamt kryddinu. Hellið blöndunni á bökunarpappír (á ofnplötu). Bakið í 10 mínútur. Snúið botninum við og setjið álegg að eigin vali og bakið svo í ofni í 10 mínútur.

Pitsusósa - heimagerð

200 ml passata eða maukaðir tómatar

1 msk. tómatpúrra

1 tsk. hlynsíróp eða kókospálmasykur

2-3 tsk. ítölsk kryddblanda - meira ef ykkur finnst þurfa

Setjið allt í skál. Þynnið með vatni ef þarf og kryddið meira eftir smekk.

Mexíkómatur er alltaf vinsæll.

Laugardagur – Quesidillas á mexíkóska vísu

„Á laugardögum er vinsælt að hafa mexíkómat. Það er hægt að útfæra það á marga mismunandi vegu og því verðum við aldrei leið á því. Hér er til að mynda uppskrift af quesidillas frá Önnu Eiriks sem lítur vel út. Sem betur fer hefur úrval fyrir þá sem ekki þola hveiti aukist mikið og því ekkert mál að fá glútenlausar vefjur.

Uppskriftin er hér.

Ketó-lasagna.

Sunnudagur – Girnilegt Ketólasagna

„Það er eitthvað notalegt að búa til lasagna á sunnudögum. Það er líka alltaf afgangur og getur því sparað eldamennsku í byrjun næstu viku. Þetta ketó lasagna frá Hönnu Þóru er með heimagerðum lasagna blöðum sem er mjög spennandi. Ég mæli líka með því að bæta við fullt af smáskornu grænmeti í hakksósuna, til dæmis gulrótum, lauk, sellerí og steinselju.

Ketó lasagna

500 g nautahakk

2 dósir tómatar í dós

1 dós tómatpúrra

Ítalskt krydd

Basil

Twarog ostur

Rifinn ostur

Heimagerðar lasagna Plötur

4 egg

1 poki rifinn mozzarella

Setjið egg og rifinn mozzarella í blandara og blandið þar til blandan er silkimjúk. Smyrjið blöndunni á bökunarpappír og bakið við 180°C gráðu hita eða þar til platan er fallega gyllt ofan á.

Steikið nautahakk og kryddið með ítölsku kryddi og ferskri basilíku. Bætið tómötum í dós og tómatpúrru við hakkið og leyfið því að malla. Setjið lasagnað saman og setjið heimagerðu plöturnar á milli laga. Toppið með Twarog osti eða kotasælu og rifnum osti og bakið þar til osturinn er fallega gylltur og lasagna heitt í gegn. Plöturnar eru tilbúnar þegar lasagna er sett saman því þarf ekki að elda það jafn lengi og hefðbundið lasagna. Síðan er bara bera réttinn fram og njóta.