Það má segja að mjög mikil umræða hafi átt sér stað síðastliðin ár um sykur og sykurneyslu, sumpart svo að jaðra má við ofstæki. Það getur reynst erfitt fyrir almenning að átta sig á samhengi hlutanna og þannig líður líka læknum og vísindamönnum þar sem ekki eru öll kurl enn komin til grafar.

Hins vegar hafa aukist mjög rannsóknir og upplýsingar um mögulega skaðsemi af of mikilli neyslu sykurs og kolvetna sem er samheiti yfir eitt þeirra orkuefna sem líkaminn í raun notar til að umbreyta í orku. Hin orkuefnin eru prótein og fita. Ekki er allur sykur sá sami, einhver munur er á milli þess hversu mikið hann er unninn og svo framvegis.  Samhliða þeirri umræðu hefur einnig orðið mjög mikil umbreyting á þeirri hugsun að öll fita, sérstaklega mettuð fita sé eitur sem hefur lengi verið haldið fram. Þannig má segja að það sé komin upp ákveðin staða í heimi næringarfræðinnar sem er flókin og leiðbeiningar hafa verið að breytast hægt og rólega.

Hvað gerist í líkamanum ?

Flestir virðast þó vera sammála þeirri skoðun að of mikil neysla á einfaldari kolvetnum sé skaðleg og geti haft neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar. Sumt eru enn bara fullyrðingar og þarf meiri gögn til að undirbyggja þær, annað hefur verið nokkuð vel staðfest og er samþykkt að skipti máli í leiðbeiningum til almennings um neyslu og mataræði.

Megin áherslan hefur verið á það að sykurneysla geti leitt til ofþyngdar og/eða offitu og þar með aukna áhættu á að þróa með sér lífsstílssjúkdóma líkt og hjarta og æðasjúkdóma, sykursýki, æðakölkun og fitulifur. Langvarandi og mikil neysla hefur verið talin leiða til þess að líkaminn myndi með sér skert sykurþol, hafi þannig áhrif á Insúlín framleiðslu líkamans og næmni frumna fyrir því.

Þetta leiðir af sér óhollt ástand í líkamanum sem er á læknamáli kallað efnaskiptavilla, en hún er talin vera ákveðinn mótor í því að skapa bólguástand og viðhalda því í líkamanum. Þá verða einnig breytingar í hormónabúskap líkamans sem hafa áhrif á tilfinninguna að vera saddur. Þetta ástand er svo talið að geti ýtt undir vöxt ákveðinna krabbameina auk þess sem offita er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir slíkri þróun.

Vísindamenn hafa bent á að mikil sykurneysla skapi sveiflur í boðefnakerfi heilans sem auk þessa bólgustands geti ýtt undir þunglyndi og lyndisraskanir. Þessu til viðbótar má svo nefna að öldrun frumna í líkamanum er flýtt sem hefur áhrif á hrörnun þeirra á ýmsum stöðum og er talið ýta undir almenna öldrun. Hefur til dæmis aukin kolvetnaneysla verið bendluð við þróun á Alzheimer sjúkdómi og eru í gangi rannsóknir þessa efnis.

Hvað er til ráða?

Það er ljóst að sem stendur er enginn alveg viss í sinni sök með það hversu mikinn sykur hver einstaklingur má innbyrða án þess að það hljótist skaði af. Það er eflaust tengt líka erfðum, kyni, aldri, undirliggjandi áhættuþáttum og þá líklega sérstaklega tímalengd neyslumynsturs. Það má örugglega ráðleggja flestum þó að vera meðvitaðir um sykurneyslu sína, kunna að lesa innihaldslýsingar, forðast  unnar matvörur og viðbættan sykur. Temja sér að elda sjálfur og að skammtastærðir séu hóflegar. Gátan er ekki leyst ennþá, en svo virðist sem það að draga úr sykurneyslu almennt muni bæta heilsufar. Þetta er þó flóknara en svo og spila margir þættir til viðbótar mikilvægt hlutverk í því að viðhalda heilsu. 

Fréttablaðið hefur gengið til samstarfs við heilsuvefinn Doktor.is. Samstarfið tekur meðal annars til vikulegra pistla eftir Teit Guðmundsson, lækni og ritstjóra vefsins, í Tilverunni, nýjum fréttahluta í fimmtudagsútgáfu Fréttablaðsins þar sem heilsu og lífsstíl verður gert hátt undir höfði. 

Doktor.is er elsti heilsuvefur landsins og er þar að finna mikið af upplýsingum um allt sem tengist almennri heilsu, sjúkdómum og veikindum. 

Lesendum Fréttablaðsins gefst kostur á að senda fyrirspurnir til lækna og hjúkrunarfræðinga Doktor.is með því að smella hér. Allar fyrirspurnir eru nafnlausar.