Hekla Dögg Jóns­dóttir sýnir verk sem byggjast á lita­kerfum á sýningunni Kerfi í BERG Con­temporary. Kerfin sem um ræðir eru hin svo­kölluðu CMYK- og RGB-lita­kerfi, sem notuð eru annars vegar í prent­tækni og hins vegar í raf­tækjum eða ljós­tækni.

„Það sem mér fannst svo spennandi, sem er kannski út af því að ég sjálf er ekki málari, er hvernig þessi tvö lita­kerfi virka, hvernig þau eru bæði ólík og eins,“ segir Hekla.

Kerfi er fyrsta einkasýning Heklu Daggar í BERG Contemporary.
Fréttablaðið/Valli

Svart og hvítt

CMYK (borið fram sem s­mikk) er svo­kallað frá­drægt lita­kerfi en skamm­stöfunin stendur fyrir cyan (blá­grænn), magenta (vín­rauður), yellow (gulur) og key black (lykil­s­vartur). Þegar prentað er á hvítan flöt er hvíti liturinn skil­greindur sem lit­leysa en allir þrír litirnir saman­lagðir mynda svartan.

„Í lita­kerfi prentunar sem fer annað hvort á hvítt blað eða hvítan striga, þá er hvíti liturinn núll­punktur. Fræði­lega ef maður myndi blanda gulum, vín­rauðum og blá­grænum, þá ætti að verða úr því ein­hvers konar svartur litur,“ segir Hekla.

Hitt kerfið sem hún vinnur með á sýningunni, RGB, er svo­kallað við­lægt lita­kerfi sem er meðal annars notað í sjón­vörpum, staf­rænum mynda­vélum og skönnum.

„Það er rautt, grænt og blátt. Þá byrjarðu á svörtum sem núll­punkti, sem er myrkrið, og endar á hvítum eftir að þú blandar öllum litunum saman. Mér sjálfri fannst þetta voða heillandi, að þetta sé allt í raun bara svart og hvítt,“ segir Hekla.

Hekla þakti veggi gallerísins BERG Contemp­orary með stórum pappírsrenningum.
Fréttablaðið/Valli

Prent í arki­tektúr­stærð

Verkin sem Hekla sýnir eru meðal annars stór pappírs­verk sem hún hefur þakið veggi BERG Con­temp­orary með. Um er að ræða bóm­ullar­pappír með gou­ache-litum sem eru hand­prentaðir með svo­kallaðri mar­moringu (e. mar­bling) sem er að­ferð sem var gjarnan notuð á bókar­kápur.

„Þá setur maður liti ofan á vatn sem er búið að þykkja að­eins og þá fljóta litirnir ofan á vatninu. Í stað þess að blandast í vatninu eins og gerist í prenturunum okkar, þá mætast litirnir. Þá er ég kannski líka svo­lítið að leika mér með lita­fræðina sjálfa að í prenti myndist allir litir, því hér myndast þeir ekki heldur mætast þeir bara,“ segir Hekla.

Mar­mor­ering er þekkt að­ferð úr prent­tækni en sést vana­lega ekki á svo stórum skala enda er Hekla að vinna með arki­tektúr­stærð til að þekja veggi gallerísins. Þá þurfti hún að leita sér­stakra leiða til að geta prentað á svo stóran pappír.

„Ég byggði stóra sund­laug og svo eftir að maður er búinn að setja litina í þá notar maður sér­staka greiðu sem maður greiðir í svona munstur til þess að litirnir dragist saman. Þá sér maður hvernig þeir blandast ekki. Svo tek ég pappírinn sem ég er búin að þekja álsalti og set hann beint ofan á. Svo er það bara þetta augna­blik þegar hann mætir yfir­borðinu sem hann tekur það sem er þar og svo er ekkert aftur snúið. Ég veit aldrei alveg hvað er að fara að gerast. Ég var oft að reyna að stjórna litunum en þeir taka alltaf yfir,“ segir hún.

Þegar litirnir prentast á pappírinn myndast fjöl­breytt og ein­stök mynstur í ó­líkum litum.

„Auð­vitað er þetta mjög sjón­rænt allt saman en ég vissi ekki að þetta yrðu svona rosa­lega gleði­legir litir. Ég hefði kannski átt að átta mig á því en ég var ekkert alveg viss. Svo er líka svo skemmti­legt að litirnir eru mis­á­kveðnir. Guli hann bara dreifir úr sér eins og sólin á meðan að svarti er eins og svart­hol,“ segir Hekla.

Auð­vitað er þetta mjög sjón­rænt allt saman en ég vissi ekki að þetta yrðu svona rosa­lega gleði­legir litir.

Litir og rit­mál

Í innsta sýningar­sal BERG Con­temporary er Hekla með þriggja rása vídeó­verk þar sem hún varpar mynd­bandi af öldu­róti í þremur mis­munandi litum RGB-kerfisins.

„Þar er ég með þrjár varpanir þar sem ég er með sömu vídeó­mynd í rauðu, grænu og bláu og varpa þeim hverri yfir aðra. Ég er sem sagt að setja þessa þrjá liti saman til þess að reyna að mynda lit­leysu og í raun og veru ætti þetta að verða alveg hvítt,“ segir hún.

Þá vann Hekla tvö verk á sýningunni í sam­starfi við rit­höfundinn og lista­manninn Ragnar Helga Ólafs­son. Verkin heita Sex sjónar­horn á svart og Sex sjónar­horn á hvítt og saman­standa af ljósum og hreyfan­legum renningum þar sem ljóð­texti eftir Ragnar Helga ferðast hring eftir hring.

„Ragnar Helgi skrifaði textann sér­stak­lega fyrir verkin og lita­kerfin tvö. Annað verkið er svart og hitt er hvítt og þau vísa þá annars vegar í frá­dræga CMYK-lita­kerfið og hins vegar í við­læga RGB-lita­kerfið. Texta­verkin eru mjög svipuð en með smá greinar­mun og lýsa hvoru kerfinu fyrir sig, en eru höfundar­verk Ragnars. Þá er ég kannski að lokum að vísa til þess að í sýningunni eru nokkur kerfi í gangi og eitt þeirra er rit­málið. Þess vegna fannst mér mjög mikil­vægt að fá rit­höfund til að skrifa þetta,“ segir Hekla.