Jörðin geymir marga lykla, er yfirskrift sýningar á verkum listakonunnar Katie Paterson í Nýlistasafninu, Marshallhúsinu. Sýningarstjóri er Dorothee Kirch.

Um listakonuna segir Dorothee: „Katie Paterson er skosk og rísandi stjarna í listaheiminum. Fyrsta verkið sem kom henni á kortið gerði hún á Íslandi. Þetta var verk þar sem hægt var að hringja í Vatnajökul og heyra brakið í honum. Verkið sló í gegn og fólk hringdi hvaðanæva úr heiminum til að hlusta á Vatnajökul.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Katie Paterson sýnir verk sín hér á landi. „Hún hefur áhuga á heimi og geimi og í verkum sínum kannar hún nær- og fjærumhverfi. Hún vinnur með NASA sem vildi fá listamann með sér í lið til að túlka þeirra vinnu á annan hátt en bara vísindalega. Það sem vakti fyrst athygli þeirra á Katie er lítil bók, sem er á sýningunni, sem hún gerði þar sem hluti kápunnar er úr stjörnuryki,“ segir Dorothee.

Hálsfesti með steingervingum frá mismunandi jarðfræðitímabilum.

Tíminn á plánetum

Verkin á sýningunni eru níu, stór í sniðum, og segja má að þrjú þeirra séu lykilverk. „Eitt þeirra er The Fossil Necklace, steingervingahálsmen. Þetta er hálsfesti með steingervingum frá mismunandi jarðfræðitímabilum, samtals 170. Þetta verk er einmitt gott dæmi um það hversu heilluð Katie er af náttúrunni, heiminum og geimnum.

Hér er líka verk sem hún gerði í samvinnu við Osram-ljósaperufyrirtækið í Þýskalandi. Hún vann með þeim að því að búa til ljósaperu sem varpar sömu birtu frá sér og tunglið. Þessi pera er inni í litlu rými sem fólk getur gengið inn í og þar er einnig hilla með 288 perum en líftími þeirra samtals jafngildir einni mannsævi.

Þriðja lykilverkið er röð af níu klukkum sem sýna tímann á helstu plánetum, þar á meðal Jörðinni, Júpíter, Neptúnus og Venus. Þarna er Katie að staðsetja manninn í samaburði við geiminn og þá verður hann bæði lítill og stór.“

Verk fyrir afkomendur

Óhætt er að segja að Katie Paterson sé hugmyndaríkur listamaður. Meðal hugverka hennar er Framtíðarbókasafnið í Osló. „Katie fékk til umráða reit í skógi fyrir utan Osló, tré voru felld og timbrið var notað til að búa til rými utan um Framtíðarbókasafnið í nýja borgarbókasafninu í Osló. Katie plantaði nýjum trjám á þessum reit og þar verða tré höggvin árið 2140 og búinn til úr þeim pappír sem verður notaður til að prenta bækur. Á hverju ári skilar rithöfundur af sér verki og sjö bækur hafa þegar verið skrifaðar. Margret Atwood var fyrsti rithöfundurinn, David Mitchell annar og Sjón var númer þrjú, síðan hafa Elif Shafak, Han Kang, Karl Ove Knausgard og Ocean Vuong einnig tekið þátt í verkefninu. Þessum handritum, sem enginn hefur lesið nema höfundurinn, er pakkað saman og þau geymd í herberginu í Oslóarbókasafninu þangað til þau verða prentuð árið 2140. Enginn okkar mun nokkru sinni geta lesið þessi verk, þau eru fyrir afkomendur okkar,“ segir Dorothee.