En­canto

Leik­stjórn: Jar­ed Bush, Byron Howard, Charise Ca­stro Smith

Leik­raddir: Salka Sól Ey­feld, Ragn­heiður Stein­dórs­dóttir og Rúnar Freyr Gísla­son

Í heimi sem er litaður af tækni, sem fæst okkar skilja ná­kvæm­lega hvernig virkar, er sagan af fjöl­skyldunni í töfra­húsinu ekki svo lang­sótt. Töfra­heimilið Casita er eins og snjall­heimilið sem bregst um­svifa­laust við þörfum heimilis­fólks á sama tíma og heimilis­fólkið skilur ekki lög­málin þar að baki, og er ó­sjálf­bjarga þegar töfrarnir bregðast þeim. Utan um þetta bjargar­leysi hverfist sögu­þráður myndarinnar. Í töfra­húsinu í En­canto í kólumbísku fjöllunum býr Madrigal-fjöl­skyldan.

Í hvert sinn sem fjöl­skyldu­með­limur nær á að giska fimm ára aldri, gefur húsið barninu yfir­náttúru­legan hæfi­leika og opnar töfra­dyr í nýtt svefn­her­bergi, sem er jafn­framt inn­gangur í nýja ver­öld sem ein­kennist af kröftum við­komandi barns. Þetta at­riði gerir myndina svo ein­stak­lega for­vitni­lega: að fylgjast með hverri per­sónu nota ofur­krafta sína og sjá hvernig krafturinn endur­speglast í um­hverfi og sam­skiptum við aðrar per­sónur. Myndin daðrar þannig á ein­hvern hátt við ofur­hetju­sögur án þess að fara nokkurn tímann ná­lægt þeim í stíl. Sagan tekst á við flókin fjöl­skyldu­tengsl og glímir við með­virkni, úti­lokun og það hvernig goggunar­röðun í fjöl­skyldum litar sjálfs­mynd fólks.

Aðal­per­sónan, Mira­bel, getur hik­laust talist til einnar best heppnuðu Dis­n­ey-per­sónu seinni ára. Hún er gölluð og góð, breysk en bjart­sýn og leiðir á­horf­endur saum­laust í gegnum sögu­svið sem gæti hæg­lega orðið flókið, en verður það ekki. Þökk sé vönduðu hand­riti. Mira­bel er sú eina í fjöl­skyldunni sem hefur ekki fengið yfir­náttúru­lega náðar­gáfu, og glíma hennar við sjálfa sig og saman­burður við aðra, spurningar um hvort hún sé nógu góð og hvort staðan sé henni að kenna, er mann­leg og kunnug­leg. Við tengjum um­svifa­laust við von­brigðin og sárs­aukann sem hún þarf að þola, en sam­kenndin verður aldrei að vor­kunn, heldur höldum við þess í stað með henni í þeim verk­efnum sem hún þarf að glíma við. Hún er stríðs­maður ástarinnar, en í stað þess að sagan snúist um klisju­kennda rómantíska ást, er ástin þessi flókna, ramma, þunga og níð­sterka ást sem bindur stórar fjöl­skyldur saman.

Kólumbísk um­gjörð sögunnar er sann­færandi og hún teygir sig líka í alla glað­legu lita­dýrðina: gróðurinn, listina, mynstrin og þjóð­lega fatnaðinn. Þá er suður-ameríska töfra­raun­sæið og valda­mikla ætt­móðirin sem ein stærsta per­sónan einnig skír­skotun í bók­mennta­arf menningar­svæðisins. Myndin er ekki full­komin en gaman frá því að segja að af mörgu já­kvæðu er tón­listin stjarna myndarinnar. Lin-Manuel Miranda bregst ekki boga­listin, en marg­verð­launaði hæfi­leika­maðurinn sem færði okkur til dæmis tón­listina í Dis­n­ey-myndinni Moana, sveipar myndina al­vöru töfrum sem ná langt út fyrir nokkurt kvik­mynda­hús.

Niður­staða: En­canto er virki­lega vel heppnuð fjöl­skyldu­mynd sem höfðar til á­horf­enda á öllum aldri. Hún er sann­kallaður galdur, skilur mikið eftir sig og er ein sterkasta teikni­mynd sem Dis­n­ey hefur sent frá sér í langan tíma.