Þetta var ótrúleg upplifun og ég naut mín algerlega í botn alveg frá því ég steig á sviðið og þangað til tónleikunum lauk,“ segir blindi tónlistarmaðurinn ungi Már Gunnarsson sem fylgdi sinni fyrstu sólóplötu, Söng fuglsins, í Hljómahöllinni, gamla Stapa, á föstudagskvöld.

„Ég er búinn að vera að undirbúa þetta svo lengi og finnst ótrúlegt að hafa loksins náð þessum áfanga og á meðan ég var að þessu datt mér aldrei í hug að þetta gæti orðið svona stórt,“ segir Már sem heillaði salinn með því sem hann kallar einvala lið pólsks og íslensks tónlistarfólks.

„Þetta var ótrúleg frammistaða hjá öllum hópnum og ógleymanlegt að upplifa andann í fullum Stapanum með þessu frábæra fólki sem kom að tónleikunum. Ég er búinn að fá fjöldann allan af símtölum og póstum frá fólki sem ég þekki ekki neitt sem er að þakka fyrir frammistöðu Más og þeirra sem voru með honum í þessu,“ segir Gunnar Már Másson, faðir tónlistarmannsins unga.

Platan Söngur fuglsins var tekin upp í upp í Póllandi, undir stjórn eins virtasta útsetjara landsins, Hadrian Tabecki. „Ég kynntist honum 2017 þegar ég fór til Kraká að keppa í alþjóðlegri söngvakeppni blindra,“ segir Már sem hafnaði þar í 3. sæti. Í fyrrasumar fór hann aftur til Póllands þar sem hann söng á stærstu góðgerðartónleikum landsins.

„Þar voru 16.000 manns í húsinu,“ segir Már sem bað Tabecki, eftir þessi ævintýri, um að útsetja fyrstu plötuna sína sem var síðan tekin upp í Póllandi með undirleik pólsku tónlistarmannanna sem voru með Má á sviðinu í Hljómahöllinni á föstudagskvöld.

„Ég hefði ekki getað verið með betri hljómsveit. Þetta er einvala lið sem ég kynntist í gegnum þetta ævintýri og ég vona að samstarf okkar sé rétt að byrja.“ Þá er ónefnd söngkonan Natalia Przybysz sem er stórstjarna í Póllandi og tróð upp með Má á tónleikunum.

Tónlistarmaðurinn ungi, Már Gunnarsson, með pabba sínum, Gunnari Má Mássyni, sem mátti vart mæla af stolti að tónleikunum loknum.

„Það vita allir í Póllandi hver hún er og hún er svo fræg og vinsæl að mér datt ekki í hug að biðja hana um að koma og syngja á Íslandi,“ segir Már. „En þegar hún frétti að hljómsveitin væri á leiðinni til Íslands bað hún um að fá að koma líka. Það er ótrúlegt að hún skuli hafa viljað gera þetta og hún sýnir mér mikinn sóma með þessu.“

„Ég er óendanlega stoltur af drengnum og hann sýndi þarna í verki hvað í honum býr hvernig hann stóðst allt álagið í kringum tónleikana. Skipulagningin og öll vinnan sem hann er búinn að leggja í þetta gekk upp 100%. Og það gefur þvílík fyrirheit um bjarta framtíð að sjá hann þarna á sviði, svellkaldan og ná upp þessari ótrúlegu stemningu sem myndaðist í salnum,“ segir stoltur faðirinn.

Íslenska tónlistarfólkið sem steig á svið með Má á útgáfutónleikunum er heldur ekki af verri endanum en þar á meðal voru Villi naglbítur, Ívar Daníels, Guðjón Steinn Skúlason og systir hans, Ísold Wilberg. „Þannig að þetta er pólskt-íslenskt samstarf sem ég vona að framhald verði á og ég stefni bara á að styrkja sambönd mín við allt þetta yndislega fólk.“

Lögin á plötunni Söngur fuglsins eru fjórtán talsins og Már segir fjölbreytnina slíka að platan nái yfir rokk, popp, rapp, kántrí, latínó og instrúmental tónlist. „Platan verður að sjálfsögðu á netinu, Spotify og öllu þessu en þeir sem vilja eignast hana á disk geta bara sett sig í samband við mig persónulega, á Facebook til dæmis.“