Þegar blaðamaður Fréttablaðsins fór á stúfana í leit að fjölskyldum sem fara alla leið á öskudaginn þá kom sífellt upp sama nafnið; Guðmundur Þór Kárason. Hann byggir á gífurlegri reynslu í búningagerðinni en hann hannaði brúður fyrir Latabæ á sínum tíma og talsetti karakterinn Sigga sæta á íslensku og ensku ásamt því að leikstýra brúðunni.

„Ég byrjaði að gera búninga á syni mína fyrir um fimmtán árum, þegar þeir voru tveggja og þriggja ára. Ég hef alltaf verið að búa til hluti, alveg frá því að ég var krakki. Ég man að ég fékk mikið æði fyrir flugvélum og amma mín safnaði fyrir mig eldhúsrúllum svo ég gæti búið til flugvélar úr þeim. Svo þurfti að henda fleiri fleiri plastpokum af flugvélum gerðum úr seríóspökkum og eldhúsrúllum,“ segir Guðmundur.

Bjartur var Gandálfur eitt árið.
Orri var dvergurinn Dvalinn. Þeir mættu á frumsýningu Hobbitans í fullum skrúða.

Hann segist því alltaf hafa haft ótrúlega gaman að því að skapa, þá oft mikið tengt kvikmyndum og sjónvarpi.

„Þannig að þetta lá nú smá beint við. Fyrstu búningarnir voru einföldustu búningarnir. Þá fór ég og keypti flísteppi í Ikea og saumaði Súperman-búning og Spiderman-búning. Þegar maður getur þetta og á börn, þau hafa svo ótrúlega gaman að þessu.“

Búningur byggður á bíómyndinni Aliens og geimveran hreyfðist.
Guðmundur var snemma mjög handlaginn. Hann þakkar ömmu sinni, Guðrúnu Guðmundsóttir, sérstaklega fyrir að hafa verið dugleg að styðja hann í áhugamálinu og skaffa honum efnivið, enda var hún sjálf mjög handlagin.

Guðmundur segir strákana vera vaxna upp úr því að fara í búninga á öskudaginn og því hafi hann bara þurft að gera búning á dóttur sína Tinnu í ár.

„Það var bara „piece of cake“. Áður þurfti maður alltaf að gera tvenna búninga. Strákarnir mínir hafa samt mjög gaman af þessu, þótt það sé ekki kúl lengur að mæta í búningi í skólann,“ segir Guðmundur og hlær.

Hann minnist sérstaklega þegar hann gerði búninga á synina úr Hobbitanum, en þeir fóru sem Gandálfur og dvergurinn Dvalinn

„Svo mættu þeir á frumsýningu myndarinnar í búningunum, sátu þarna fremst í fullum skrúða.“

Yeah baby! Bjartur og Tinna í gervi Doctor Evil og Mini me. Orri var Austin Powers
Mynd/Guðmundur Þór
Hver rækallinn! Orri og Bjartur í gervi Tinna og Kolbeins Kafteins
Mynd/Guðmundur Þór

Tættust upp í leikgleði

Annar sonur Guðmundar hafði mikinn áhuga á þórseðlum þegar hann var yngri. Því kom ekki annað til greina en að gera þórseðlubúning það árið.

„Þetta var svolítið veigamikill og þungur búningur með langan hala og háls. Oft þegar krakkar mæta í leikskólann í búningum fara þau úr búningunum þegar líður á daginn, sérstaklega ef þeir eru fyrirferðarmiklir. En þegar við konan mín komum að sækja hann þá hallaði hann upp við vegg, enn í búningnum, alveg búinn á því.“

Sem barn hafði Guðmundur gaman af því að smíða ýmis vopn til að leika sér með.

„Strákarnir mínir höfðu ótrúlega gaman af öllum þessum aukahlutum. Smíðaði axir og sverð. Síðan gátu þeir leikið sér með þetta. Fólk spyr mig oft hvort ég eigi þetta ekki ennþá en ég leyfði þeim bara að djöflast með þetta, þeir voru bara að lemja hvorn annan með þessu, þetta tættist upp í leikgleði,“ segir hann hlæjandi.

Guðmundur byrjaði að gera brúður þegar hann var fjórtán ára gamall og vann við brúðugerð hjá Latabæ, sú reynsla nýttist vel í búningagerðina.
Fyrsta árið sem Guðmundur hóf að gera búninga á synina saumaði hann Spider- og Superman búninga úr flísteppum úr Ikea.
Bjartur í Þórseðlubúningnum og Orri í sem hundur.
Guðmundur gerði mót af Tinnu svo hún þyrfti ekki sífellt vera að máta. Þá gat hann gert brynjuna eftir mótinu.
Mynd/Guðmundur Þór
Guðmundur segir að Tinna hafi hugað vel að smáatriðunum.
Mynd/Guðmundur Þór

Pældi mikið í smáatriðum

Undirbúningurinn fyrir hvern búning tekur mislangan tíma.

„Stundum hef ég verið alveg á síðustu stundu, kannski verið spreyjandi bara nóttinni áður. Enn þá spreylykt af búningnum daginn eftir. Ég byrjaði að gera Wonder Woman búninginn á föstudaginn. Konan mín Sigrún var að mála með mér, hún er mjög handlagin, ég vil ekki gleyma að minnast á það.“

Marvel-karakterar eru greinilega í uppáhaldi.
Mynd/Guðmundur Þór

Guðmundur segist eiga auðvelt með að móta hluti í þrívídd.

„Ég byrjaði að smíða brúður um fjórtán ára aldur. Ég er alinn upp í leikhúsi. Þetta tengist samt alltaf kvikmyndagerð meira hjá mér, ég hef aldrei verið í einhverju brúðuleikhúsi beint. Ég hef mest verið að búa til fyrir sjónvarp. Það er eitthvað við galdurinn að búa eitthvað til sem lifnar við í sjónvarpi sem er heillandi. Þú tekur eitthvert efni, eins og til dæmis svamp, og þetta verður allt í einu járn eða brynja og eins og þetta sé þúsund ára gamalt. Ég elska þennan galdur að gera eitthvað úr engu sem lifnar síðan við.“

Leonardo og dreki.
Mynd/Guðmundur Þór

Líkt og áður kom fram var dóttir Guðmundar, Tinna, Wonder Woman í ár.

„Í hitteðfyrra var hún til dæmis hestaprinsessa, hún er svo mikil hestamanneskja af því við eigum tvo hesta. Við mamma hennar fórum með hana á Wonder Woman í bíó. Hún var svo rosalega hrifin af karakternum þannig hana langaði mikið að vera Wonder Woman á öskudaginn. Hún hefur verið í Hjallastefnunni og þar er lögð svo mikil áhersla á sterkar stelpur, kraftmiklar og duglegar. Þannig að hún vildi fara alla leið, vera með sverðið og skjöldinn. Svo pældi hún mikið í smáatriðunum.“

Mynd/Guðmundur Þór
Mynd/Guðmundur Þór
Guðmundur hugar vel að smáatriðunum
Mynd/Guðmundur Þór
Tinna í gervi Poppy úr Tolls-bíómyndunum.
Mynd/Guðmundur Þór
Eitt árið var Tinna fiðrildi.