Rakel lærði snyrtifræðina í FB. „Námið er tvö ár á verklegri braut, 1-2 ár í undanfaraáföngum í ýmsum fögum og svo níu mánuðir á samningi. Núna er ég að klára samninginn minn,“ segir Rakel Sunna.

Á síðustu námsönninni skrifa nemendur ritgerð um umfjöllunarefni sem þau velja sjálf. „Ég valdi að skoða þarameðferðir á Íslandi, og einblíndi á þörunga við Ísland, íslenskar snyrtivörur og matvælaframleiðslu. Ég held að þörunga- og þarameðferðir séu það næsta sem mun spretta upp á komandi árum innan snyrtifræðinnar og spa-menningarinnar. Í báðum þessum geirum er hægt að gera mjög margt spennandi með þara og þörunga.“

Rakel Sunna er snyrtifræðingur að mennt.

Áhrif og árangur

Árangurinn segir hún vera það sem sé svo spennandi við þara- og þörungafræðin og meðferðirnar. „Þörungar finnast víða í náttúrunni, ekki bara í sjó heldur líka í ferskvatni og jarðhitavatni, eins og reyndin er með kísilþörungana í Bláa lóninu. Þörungar eru stútfullir af vítamínum og steinefnum sem er erfitt að fá nóg af í fæðunni. Eftir því sem við eldumst verður erfiðara fyrir líkamann að viðhalda þessum næringarefnum í líkamanum og þá getur inntaka á þörungum hjálpað mjög til við það.

Hrossaþarinn og spirulina eru þær þarategundir sem eru notaðar hvað mestar í spa- og snyrtimeðferðum á Íslandi, á meðan astaxanthin og spirulina er hægt að taka inn. Spirulina inniheldur mjög mikið af prótíni sem og A, C, E og B-vítamínum. Hún er líka rík af steinefnum eins og kalki, magnesíumi, sínki og seleni. Spirulina getur bætt meltingu og þarmaflóru, getur lækkað kólesteról og blóðþrýsting og er því góð vörn gegn hjartasjúkdómum. Spirulina getur líka aukið efnaskipti, dregið úr ofnæmiseinkennum og er bæði andoxandi og bólgueyðandi.

Astaxanthin er nafnið á litarefninu í grænþörungum og er öflugasta og breiðvirkasta andoxunarefni sem hefur fundist í náttúrunni. Það er 550 sinnum öflugra en E-vítamín og 6.000 sinnum áhrifaríkara en C-vítamín. Komið hefur í ljós að astaxanthin hefur góð áhrif á húðina, augun, heilann og hjartað. Það hjálpar til við ótímabæra öldrun húðar og ver hana gegn frumudauða af völdum útfjólublárra geisla sólarinnar. Það gerir það að verkum að húðin brennur síður og heldur betur lit. Því er sniðugt að byrja að taka það inn fyrir sumarið og á sumrin og sérstaklega þegar fólk fer til sólarlanda. Það má samt alls ekki gleyma sólarvörninni því astaxanthin kemur ekki í staðinn fyrir hana.“

Þarameðferðir og snyrtivörur

Í framleiðslu á snyrtivörum með þara segir Rakel það skipta máli hvenær ársins þarinn er tíndur og hvenær hann er þurrkaður. „Það þarf að tryggja að öll vítamín og steinefni haldist í honum við undirbúning og verkun til þess að geta notað hann í snyrtivörur til dæmis. Helstu fyrirtækin hér á landi sem framleiða vörur úr þara eru Key Natura, Geo Silica og Bláa lónið. Eftir þurrkun er svo hægt að mala þarann í duft og blanda út í olíur, vatn og önnur efni til að búa til snyrtivörur eða maska sem er svo borinn á líkamann.“

Upp á síðkastið hafa sprottið upp ýmis baðhús víða um land. Sum bjóða upp á bjórböð, önnur eru með sjóböð og enn önnur eru með böð í kísilríku jarðhitavatni. „Svo bjóða sum upp á þaraböð. Þá fer fólk í kör með þara í, ýmist heilum eða maukuðum. Sum bjóða upp á þarainnpakkanir. Þá er þarinn settur á húðina og fólk vafið inn í hitateppi, en hitinn eykur innsíun húðarinnar á vítamínum og steinefnum.“

Þarinn virkar líka vel fyrir hár og neglur. „Þarinn er líka notaður í hármeðferðir. Þá er þarablanda notuð í hármaska og sett í hárið. Þarinn gefur fallegan glans í hárið og viðheldur honum. Þarinn hefur líka virkað vel á exemsjúklinga og fólk með þurran hársvörð og flösuvandamál. Þarinn hefur líka innbyrðis áhrif við inntöku, eins og á spirulina eða astaxanthin. Vítamín og steinefni úr þaranum næra þá húðina, hárið og neglur innanfrá.“

Þarinn og sjóböð

Nú eru komin nokkur ár síðan farið var að nota þara og þörunga í snyrtivörur en ólíkt ýmsum öðrum þekktum efnum á snyrtivörumarkaðnum, virðist ekki vera aldalöng hefð fyrir notkun þara. „Það er þó aldalöng hefð fyrir sjósundi hér á landi og annars staðar, og sjórinn er talinn hafa góð áhrif á húðina. Saltið í sjónum hjálpar til við húðflögnun og svo er ekki ólíklegt að þarinn gefi mýkt og næringu. Það hlýtur að vera eitthvað samspil þarna á milli,“ segir Rakel.