Kári Emil starfar sem hönnuður hjá hljóð­bóka­fram­leiðandanum Audi­ble í New York hvar hann hefur verið bú­settur í fjór­tán ár. Dúna (e. Dune) eftir Frank Her­bert er fyrsta út­gefna þýðing Kára en hann kveðst hafa unnið að bókinni með hléum í um það bil sjö ár eða frá 2015. Dúna er mest selda vísinda­skáld­saga allra tíma og segir frá blóðugri valda­bar­áttu á eyði­merkur­plánetunni Arrakis.

„Þegar ég var tólf ára þá reyndi ég að lesa þessa bók, pabbi átti hana. Mér gekk ekkert sér­lega vel að lesa hana en ég var samt bara ein­hvern veginn heillaður af bókinni og ég held að hug­myndin hafi kviknað þá að þýða hana af því hún var ekki til á ís­lensku. Þetta var svona hug­mynd sem ég ein­hvern veginn hafði alltaf, að það þyrfti að þýða þessa bók. Svo liðu árin og ég byrjaði í rauninni fyrir al­vöru af hálf­gerðri rælni þegar ég var at­vinnu­laus 2015 og þurfti að gera eitt­hvað,“ segir Kári.

Þegar ég var tólf ára þá reyndi ég að lesa þessa bók, pabbi átti hana. Mér gekk ekkert sér­lega vel að lesa hana en ég var samt bara ein­hvern veginn heillaður af bókinni.

Átti að koma út 2020

Eins og áður sagði varð Kári heillaður af sögu­heimi Dúnu frá unga aldri. Frank Her­bert skrifaði sex bækur í seríunni en eftir að Frank lést 1986 héldu sonur hans Brian Her­bert og Kevin J. Ander­son seríunni á­fram og hefur síðan komið út fjöldi fram­halds­bóka.

„Ég hef reyndar bara lesið bækurnar eftir Frank Her­bert, sem eru fyrstu sex bækurnar, ég hef ekki enn farið út í að lesa bækurnar sem sonur hans, Brian Her­bert, og Kevin J. Ander­son hafa skrifað,“ segir Kári.

Dúna átti upp­haf­lega að koma út hjá út­gáfunni Partusi 2020 en vegna þess hversu um­fangs­mikið verk­efnið var tafðist út­gáfan til 2022. Með­þýðandi bókarinnar er Dýr­leif Bjarna­dóttir sem kom upp­haf­lega að verkinu sem rit­stjóri en endaði á að þýða bókina með Kára og segir hann sam­starfið hafa verið gjöfult.

Dúna eftir Frank Herbert kom fyrst út á ensku árið 1965.
Kápa/Partus

Þurftu að búa til orð

Kári segir það vera á­huga­vert í menningar­legu sam­hengi hversu fáar vísinda­skáld­sögur hafa verið skrifaðar á ís­lensku. Auk þess áttaði hann sig snemma á því að það sár­vantaði góðar ís­lenskar þýðingar á vísinda­skáld­sögum.

„Það hafa heldur ekki verið neitt margar vísinda­skáld­sögur þýddar og mér fannst alltaf Dúna vera frekar stór eyða í auði ís­lenskunnar. Við rákum okkur á að það eru alls konar orð sem hljóma mjög eðli­lega í ensku sem lýsa alls konar vísinda­skáld­sagna­hug­tökum en vantar á ís­lensku. Eitt gott dæmi um það er að á ensku er talað um „off-world“ sem lýsingar­orð og fólki lýst sem „off-world peop­le“ og svo fram­vegis. Þetta er lýsingar­orð sem er notað í vísinda­skáld­skap um fólk frá öðrum plánetum. Það er ekkert sam­bæri­legt orð til á ís­lensku þannig við bjuggum til orðið „er­hnettur“ saman­ber er­lendur, og að „vera er­hnettis“. Það eru alls konar svona hlutir sem við þurftum að­eins að finna út,“ segir hann.

Timothée Chalamet og Rebecca Ferguson í hlutverkum Pauls Atreides og Lady Jessicu í kvikmyndaaðlögun Denis Villeneuve á Dune frá 2021.
Mynd/Warner Bros

Hvim­leitt að vísa til vatns

Af hverju á­kváðuð þið að þýða titilinn Dune sem Dúna?

„Þetta var mjög flókin á­kvörðun en á endanum þá fannst mér margt mæla með henni. Þýðingin þurfti að gera þrennt: sem titillinn á bókinni, sem orð yfir hug­takið sandöldu og sem gælu­nafn á plánetunni Arrakis. Hin al­mennu orð sem við þekkjum yfir þetta á ís­lensku eru sandalda eða sand­skafl en á plánetunni Arrakis er ekkert vatn og það var hvim­leitt að fólk sem býr á vatns­lausri plánetu þyrfti að nota orð sem vísar í vatn til að lýsa svona grund­vallar­þætti í lands­lagi sínu. Alda og skafl eru bæði að rótinni til orð sem lýsa vatni eða ís.“

Kári segist hafa leitað leiða til að nota eitt­hvert annað orð yfir sandöldu sem vísaði ekki til vatns og á­kváðu þau Dýr­leif að fara þá leið að þýða orðið dune sem dúna.

„Orðið Dúna er til í næstum öllum evrópskum málum og ég lít svo á að af því þetta fyrir­bæri er ekki til á Ís­landi hafi orðið bara glatast í forn­málinu við land­nám af því það voru engar dúnur til að lýsa á Ís­landi. En við finnum orðið um alla álfuna, það er frum-indó­evrópskt að upp­runa, þannig að ég lít bara á þetta sem endur­vakningu á fornu orði,“ segir hann.

Dúna hefur notið fá­dæma vin­sælda allt frá því hún kom fyrst út 1965. Bókin hefur verið kvik­mynduð nokkrum sinnum og nú síðast kom út kvik­mynd í leik­stjórn Denis Vil­leneu­ve 2021. Spurður um hvort komi til greina að þýða hinar fimm bækurnar í upp­runa­legri bóka­röð Franks Her­bert segir Kári:

„Já, það kemur alveg til greina ef á­huginn er til staðar. Ég held að við séum alveg opin fyrir því.“