Kári Emil starfar sem hönnuður hjá hljóðbókaframleiðandanum Audible í New York hvar hann hefur verið búsettur í fjórtán ár. Dúna (e. Dune) eftir Frank Herbert er fyrsta útgefna þýðing Kára en hann kveðst hafa unnið að bókinni með hléum í um það bil sjö ár eða frá 2015. Dúna er mest selda vísindaskáldsaga allra tíma og segir frá blóðugri valdabaráttu á eyðimerkurplánetunni Arrakis.
„Þegar ég var tólf ára þá reyndi ég að lesa þessa bók, pabbi átti hana. Mér gekk ekkert sérlega vel að lesa hana en ég var samt bara einhvern veginn heillaður af bókinni og ég held að hugmyndin hafi kviknað þá að þýða hana af því hún var ekki til á íslensku. Þetta var svona hugmynd sem ég einhvern veginn hafði alltaf, að það þyrfti að þýða þessa bók. Svo liðu árin og ég byrjaði í rauninni fyrir alvöru af hálfgerðri rælni þegar ég var atvinnulaus 2015 og þurfti að gera eitthvað,“ segir Kári.
Þegar ég var tólf ára þá reyndi ég að lesa þessa bók, pabbi átti hana. Mér gekk ekkert sérlega vel að lesa hana en ég var samt bara einhvern veginn heillaður af bókinni.
Átti að koma út 2020
Eins og áður sagði varð Kári heillaður af söguheimi Dúnu frá unga aldri. Frank Herbert skrifaði sex bækur í seríunni en eftir að Frank lést 1986 héldu sonur hans Brian Herbert og Kevin J. Anderson seríunni áfram og hefur síðan komið út fjöldi framhaldsbóka.
„Ég hef reyndar bara lesið bækurnar eftir Frank Herbert, sem eru fyrstu sex bækurnar, ég hef ekki enn farið út í að lesa bækurnar sem sonur hans, Brian Herbert, og Kevin J. Anderson hafa skrifað,“ segir Kári.
Dúna átti upphaflega að koma út hjá útgáfunni Partusi 2020 en vegna þess hversu umfangsmikið verkefnið var tafðist útgáfan til 2022. Meðþýðandi bókarinnar er Dýrleif Bjarnadóttir sem kom upphaflega að verkinu sem ritstjóri en endaði á að þýða bókina með Kára og segir hann samstarfið hafa verið gjöfult.

Þurftu að búa til orð
Kári segir það vera áhugavert í menningarlegu samhengi hversu fáar vísindaskáldsögur hafa verið skrifaðar á íslensku. Auk þess áttaði hann sig snemma á því að það sárvantaði góðar íslenskar þýðingar á vísindaskáldsögum.
„Það hafa heldur ekki verið neitt margar vísindaskáldsögur þýddar og mér fannst alltaf Dúna vera frekar stór eyða í auði íslenskunnar. Við rákum okkur á að það eru alls konar orð sem hljóma mjög eðlilega í ensku sem lýsa alls konar vísindaskáldsagnahugtökum en vantar á íslensku. Eitt gott dæmi um það er að á ensku er talað um „off-world“ sem lýsingarorð og fólki lýst sem „off-world people“ og svo framvegis. Þetta er lýsingarorð sem er notað í vísindaskáldskap um fólk frá öðrum plánetum. Það er ekkert sambærilegt orð til á íslensku þannig við bjuggum til orðið „erhnettur“ samanber erlendur, og að „vera erhnettis“. Það eru alls konar svona hlutir sem við þurftum aðeins að finna út,“ segir hann.

Hvimleitt að vísa til vatns
Af hverju ákváðuð þið að þýða titilinn Dune sem Dúna?
„Þetta var mjög flókin ákvörðun en á endanum þá fannst mér margt mæla með henni. Þýðingin þurfti að gera þrennt: sem titillinn á bókinni, sem orð yfir hugtakið sandöldu og sem gælunafn á plánetunni Arrakis. Hin almennu orð sem við þekkjum yfir þetta á íslensku eru sandalda eða sandskafl en á plánetunni Arrakis er ekkert vatn og það var hvimleitt að fólk sem býr á vatnslausri plánetu þyrfti að nota orð sem vísar í vatn til að lýsa svona grundvallarþætti í landslagi sínu. Alda og skafl eru bæði að rótinni til orð sem lýsa vatni eða ís.“
Kári segist hafa leitað leiða til að nota eitthvert annað orð yfir sandöldu sem vísaði ekki til vatns og ákváðu þau Dýrleif að fara þá leið að þýða orðið dune sem dúna.
„Orðið Dúna er til í næstum öllum evrópskum málum og ég lít svo á að af því þetta fyrirbæri er ekki til á Íslandi hafi orðið bara glatast í fornmálinu við landnám af því það voru engar dúnur til að lýsa á Íslandi. En við finnum orðið um alla álfuna, það er frum-indóevrópskt að uppruna, þannig að ég lít bara á þetta sem endurvakningu á fornu orði,“ segir hann.
Dúna hefur notið fádæma vinsælda allt frá því hún kom fyrst út 1965. Bókin hefur verið kvikmynduð nokkrum sinnum og nú síðast kom út kvikmynd í leikstjórn Denis Villeneuve 2021. Spurður um hvort komi til greina að þýða hinar fimm bækurnar í upprunalegri bókaröð Franks Herbert segir Kári:
„Já, það kemur alveg til greina ef áhuginn er til staðar. Ég held að við séum alveg opin fyrir því.“