„Ég er með meistarapróf í næringarfræði frá Háskóla Íslands með áherslu á lýðheilsu og ég er eigandi Endurnæringar ehf., sem var stofnað í febrúar síðastliðnum. Endurnæring býður upp á næringarráðgjöf og ég stefni á að bjóða upp á námskeið og fyrirlestra með vorinu,“ segir Heiðdís. „Ég er með starfsleyfi frá Embætti landlæknis og fólk kemur til mín í einstaklingsviðtöl, annað hvort í eigin persónu eða gegnum fjarfundabúnað.

Það sem hvatti mig til að fara út í ráðgjöf er að það er gífurlegt magn af upplýsingum þarna úti sem tengjast næringu og einhver þarf að aðstoða fólk við að átta sig á hvað er mýta og hvað er sannleikur,“ segir Heiðdís. „Við hjá Endurnæringu leggjum áherslu á að fólk byggi upp heilbrigt samband við mat og jákvæða líkamsímynd og forðist megrunarkúra, skyndilausnir og svart/hvíta hugsun varðandi mataræði.“

Næring eða orka?

„Dæmi um svart/hvíta hugsun er að líta á mat sem hollan eða óhollan. Ef við lítum til dæmis alltaf á sykur sem óhollustu sem er bönnuð langar okkur meira í hann,“ segir Heiðdís. „En ef við leyfum okkur öðru hverju og höfum það hluta af mataræðinu að fá okkur stundum súkkulaði með kaffinu verður þetta ekki svona merkilegt.

Frekar en að hugsa um mat sem óhollan og hollan ætti frekar að hugsa um næringargildið og orkuna í matnum. Grænmeti er til dæmis næringarríkt en orkusnautt, á meðan sykur er orkuríkur en næringarsnauður,“ útskýrir Heiðdís. „Fólk þarf að huga að því í hvaða fæðuflokka fólk sækir fæðuna sína og fá næringu úr þeim öllum. Þess vegna er ekki til nein töfrafæða eða einn matur sem er hægt að lifa á alla ævi, jafnvel þó að hann sé hollur. Ef okkur langar að hafa sætindi hluta af mataræðinu þarf svo bara að gera það samhliða næringarríkum máltíðum, til dæmis í eftirrétt, frekar en að borða það við hungri, því annars hverfur löngunin til að borða ekki.“

Boð og bönn ekki árangursrík

„Mér finnst líka mikilvægt að stjórna væntingum á nýju ári og ráðast ekki í stórtækar breytingar. Það eru til dæmis þó nokkuð margar rannsóknir sem hafa sýnt fram á skaðsemi megrunarkúra. Fólk upplifir þyngdarsveiflur og þetta er óheilbrigt ástand fyrir líkamann. Því oftar sem fólk fer í megrunarkúr þeim mun neikvæðar bregst líkaminn við, því hann sér ekki mun á því að svelta viljandi eða vegna skorts,“ segir Heiðdís. „Hann fer því að reyna að birgja sig upp og passa upp á alla næringu sem kemur og þannig geta öfgakenndir kúrar breyst í andhverfu sína.

Heiðdís leggur áherslu á að fólk byggi upp heilbrigt samband við mat og jákvæða líkamsímynd og forðist megrunarkúra, skyndilausnir og svart/hvíta hugsun varðandi mataræði. FRÉTTABLAÐIÐ/8ANTON BRINK

Fólk þarf að treysta sjálfu sér og sínu eigin innsæi og hlusta á líkamann í stað þess að gera það sem allir aðrir eru að gera,“ segir Heiðdís. „Mataræði er mjög persónubundið og tveir einstaklingar með nákvæmlega sama mataræði geta litið allt öðruvísi út.

Frekar en að fara út í að banna eitthvað viljum við horfa til þess sem er hægt að bæta við mataræðið til að það gagnist fólki betur,“ segir Heiðdís. „Í minni ráðgjöf vil ég frekar leiðbeina fólki í átt sem hentar þeirra lífsstíl, vinnuumhverfi og fjölskylduaðstæðum og hjálpa því að finna leiðir til að næra sig vel yfir daginn.

Hver sem er getur leitað til mín í ráðgjöf og það er ekki nauðsynlegt að ætla að gera róttækar breytingar á mataræðinu. Stundum þarf bara að breyta 1% á dag. Eftir heilt ár ertu svo 37 sinnum betri en þú varst,“ segir Heiðdís. „Oft langar fólki ekki að gera stórtækar breytingar heldur er þetta bara spurning um að fínstilla.“

Verðum að treysta sjálfum okkur

Heiðdís segir að það sé oft meiri áhugi fyrir því að fá ráðleggingar í byrjun árs, en að það sé mikilvægt að ætla sér ekki um of á nýju ári.

„Fólk hefur áhyggjur af rútínuleysinu yfir jólin, en jólin eru lítill hluti af heildarmyndinni og þau eru tíminn til að njóta án samviskubits. Það er líka engin þörf á að gjörbreyta sér á nýju ári með róttækum lífsstílsbreytingum, því þá gefst fólk oft bara upp eftir nokkrar vikur og fer jafnvel í verra far en áður,“ segir hún. „Það er betra að gera litlar jákvæðar breytingar sem eru ekki úr takti við raunveruleikann, eins og að bæta inn ánægjulegri hreyfingu eða bæta við máltíðirnar sem eru borðaðar yfir daginn. Ekki reyna að vera einhver annar en þú ert, við erum öll einstök og með einstakan líkama og eigum ekki að láta neinn segja okkur að við séum ófullkomin.

Við þurfum líka að læra að treysta okkur sjálfum. Ef við eigum alltaf uppáhalds nammið og snakkið inni í skáp verður það smám saman minna spennandi. Við þurfum að læra að treysta okkur sjálfum til að fá okkur þegar okkur virkilega langar og láta skynsemina ráða, í stað þess að setja upp boð og bönn,“ segir Heiðdís.

Þurfum heilbrigt samband við mat

„Við skilgreinum heilbrigt samband við mat þannig að fólk hætti að upplifa kvíða eða vanlíðan við að fá sér að borða og sjái mat sem eitthvað sem á að næra okkur og veita vellíðan,“ segir Heiðdís. „Mataræði þarf ekki að vera fullkomið og það er í lagi að gefa sér smá slaka. Það er fínt að miða við 80/20 reglu, 80% af tímanum ætti matur að veita okkur staðgóða næringu og 20% af tímanum gefum við okkur slaka til að njóta og ekki ofhugsa hlutina.

Ein samlíking er að líta á vikuna sem bók þar sem hver dagur er einn kafli. Bókin þarf ekki að vera ónýt þó að einn kafli sé ekki góður og á sama hátt þarf slæm helgi ekki að skemma vikuna. Við þurfum að gefa okkur „kredit“ fyrir það sem við gerum rétt, en ekki einblína á mistökin,“ útskýrir Heiðdís.

„Svo er líka mikilvægt að tileinka sér jákvæða líkamsímynd. Það er ekki nauðsynlegt að vera alltaf að breyta sér, við megum líta út eins og við kjósum ef okkur líður vel og matur nærir bæði líkama og sál,“ segir Heiðdís.

Vellíðan er lykilatriðið

„Það er líka mikilvægt að flækja þetta ekki of mikið. Það þurfa ekki allir að vera meistarakokkar eða með mikla þekkingu á næringu. Það eru til dæmis ýmsir bæklingar hjá Embætti landlæknis með ráðleggingar varðandi mataræði sem eru góður grunnur,“ segir Heiðdís.

„Ég vil að fólk slaki á róttækninni og taki frekar lítil og meðvituð skref til að finna út hvað hentar því varðandi mataræði og hreyfingu. Við sérfræðingarnir eru bara að leiðbeina fólki og benda því að sína styrkleika og leiðir til að bæta sig,“ segir Heiðdís. „Litlar breytingar geta bætt svefngæði, úthald og hreysti og fólk ætti að setja sér markmið sem snúast um að auka orku og vellíðan, en ekki þyngdartap. Þá er auðvelt að falla í gryfju leiðinda og vonbrigða, jafnvel þó að fólk sé að gera allt rétt, því breytingar taka tíma.“