Kvikmyndir

Jojo Rabbit

★★★★

Leikstjórn: Taika Waititi

Aðalhlutverk: Roman Griffin Davis, Thomasin McKenzie, Scarlett Johansson, Taika Waititi

Jojo er lítill og góður nasisti sem tekur þátt í starfi Hitlersæskunnar af slíkum metnaði að sjálfur foringinn er ósýnilegi vinurinn hans. Sameiginleg áhugamál eins og seinni heimsstyrjaldarbröltið og djúpstæð fyrirlitning á gyðingum tengja félagana sterkum böndum og eðlilega má vart á milli sjá hvor þeirra er barnalegri og meiri kjáni, hinn tæplega ellefu ára gamli Jojo eða hinn galsafengni og ímyndaði Adolf Hitler.

Tilvera Jojo litla fer kannski ekki alveg á hvolf, en í það minnsta á hliðina, þegar hann kemst að því að móðir hans er ekki alveg jafn góður nasisti og hann sjálfur og hefur skotið skjólshúsi yfir gyðing uppi á háalofti. Unglingsstúlkuna Elsu sem hefur misst allt sitt fólk í lestarvagna dauðans. Áhugi Jojo og forvitni um óeðli gyðinga verður til þess að hann kjaftar ekki frá henni og ákveður heldur að reyna að kynnast óværuni, leggjast í rannsóknir á eðli hennar og gyðinga almennt og skrifa um þá bók.

Samskipti þeirra Elsu og Jojo eru vitaskuld full tortryggni og vantrausts til þess að byrja með en gagnkvæma vantraustið víkur þó jafnt og þétt eftir því sem krakkarnir kynnast betur og innra með Jojo vakna tilfinningar sem hann hvorki skilur né ræður almennilega við. Enda hvorki hatur né fyrirlitning. Á sama tíma snarlækkar gengisvísitala ímyndaða vinarins með asnalega yfirvaraskeggið og alls þess andskota sem hann stendur fyrir.

Jojo Rabbit er marglaga og stórmerkilegt furðuverk, ágeng ádeila og kolsvört kómedía sem gengur nánast fullkomlega upp í dásamlega bernskum fáránleika sínum þegar horft er með augum barnsins sá einhverja ógeðslegustu atburði í sögu Evrópu á síðustu öld.

Hinn ímyndaði Hitler er fábjáni. Hálfviti sem tíu ára krakki sér í gegnum um leið og hann stendur frammi fyrir köldum veruleika lífsins, dauðans, stríðsins og skuggahliðar nasimans. Í heimi Jojo Rabbit er ekkert svo sorglegt eða hræðilegt að ekki megi hlæja að því. Það segir sitt í þeim efnum að í súrrealískum heimi myndarinnar getur flippaða grínskvettan Rebel Wilson vaðið uppi sem nasistabrussan Fraulein Rahm eins og ekkert sé sjálfsagðara. Að ógleymdum kostulegum Sam Rockwell og Alfie Allen sem fjölbreytileikafagnandi handbendi Hitlers.

Hinn ungi Roman Griffin Davis er lífið og sálin í þessum hrá­skinna­leik og skilar yndislegum Jojo með öruggum stuðningi sérlega góðrar Scarlett Johansson í hlutverki mömmu hans og Thomasin McKenzie sem er ómótstæðilega heillandi í túlkun sinni á gyðingastelpunni Elsu.

Handritshöfundurinn, leikstjórinn og gyðingurinn Waititi hertekur síðan allar sínar senur þar sem hann mergsýgur hlutverk skítalabbans Hitlers og fíflagang hans í huga Jojo um leið og hann færir okkur dásamlega, napra, grjótharða og óvægna ádeilu á stríð, nasisma og eitraða og fordómafulla heimsku almennt.

Niðurstaða: Frábær kolsvört komedía þar sem ekkert er svo heilagt eða andstyggilegt að ekki megi hlæja að því. Dásamlega leikin og falleg ástar- og þroskasaga sem á sér stað í súrrelískt ljótum kafla mannkynssögunnar.