Leik- og söngkonan Þórdís Björk Þorfinnsdóttir fer með annað aðalhlutverkið á móti tónlistarkonunni Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur í sýningunni Chicago sem frumsýnd var síðastliðna helgi á vegum Menningarfélags Akureyrar.

„Það er vægast sagt mikill heiður að fá að vinna með Jóhönnu Guðrúnu enda ein af bestu söngkonum landsins og með rosalega reynslu. Við náum mjög vel saman og hún er alveg yndisleg,“ segir Þórdís sem fer fögrum orðum um samstarfskonu sína: „Mér finnst ótrúlega kúl hjá henni að taka að sér svona verkefni og standa á sviði sem leikkona í fyrsta skipti. Hún er ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Jóhanna er algjör nagli og rúllar þessu auðvitað upp, með eina dásamlega níu mánaða á kantinum. Mér finnst æðislegt að deila sviðinu með henni og vona að þetta sé bara byrjunin.“

Fréttablaðið/Ármann Hinrik

Narsissískt glæpakvenndi

Spurð hvað standi upp úr í ferlinu segir hún það vera fólkið sem kemur að sýningunni, bæði þau sem standa á sviðinu og sem vinna bak við tjöldin.: „Við erum tólf leikarar á sviðinu og erum með tíu manna hljómsveit með okkur. Það er eiginlega hálf ótrúlegt að við komumst öll fyrir á sviðinu. En nándin við áhorfendur er mikil og ekki hægt að hugsa sér betri stað en Samkomuhúsið til að hýsa sýningu eins og Chicago,“ segir Þórdís ánægð með afraksturinn.

Þórdís fer með hlutverk Roxy sem hún hún lýsir sem barnalegri og narsissískri, en á sama tíma street smart: „Það gerir hana hættulega.“

„Hún er upptekin af frægð og frama og svífst einskis. Hún er glæpakvendi en er samt sjarmerandi og fyndin,“ segir Þórdís sem tengir ekki beint við karakterinn finnur sínar leiðir til að túlka hana og halda með henni.

„Þetta er mjög skemmtilegur karakter að fá að leika og ég er ennþá að rannsaka hana þó frumsýningin sé búin.“

Þórdís Björk í hlutverki Roxy.
Fréttablaðið/Auðunn Níelsson
Flottur hópur sem kemur að sýningunni.
Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Gæsahúð baksviðs

Spurð hvaða lag eða atriði sé í uppáhaldi hjá henni segir hún erfitt að velja aðeins eitt.

„Það er svo mikið magn af frábærum lögum og skemmtilegum atriðum. Besta lagið finnst mér vera Class, sem þær Margrét Eir og Jóhanna Guðrún syngja,“ segir Þórdís og bætir við að hún fái gæsahúð í hvert skipti.

Þá sé lagið We both reached for the gun einnig einnig í miklu uppáhaldi. „Stór hluti hópsins kemur saman á sviðinu og dansar og syngur óeðlilega hratt á meðan ég fæ að láta eins og fífl með samstarfsmanni mínum Björgvini Franz. Þar fáum við bæði mikla útrás fyrir leikgleði og það er ekkert í heiminum skemmtilegra.“

Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Fiðrildi í ferðatösku

Þórdís er orðin ansi vön að búa í ferðatösku eins og hún orðar og segist vera algjört fiðrildi en Chicago er fjórða sýningin sem hún leikur í á vegum Menningarfélags Akureyrar. „Eftir að ég útskrifaðist af leikarabraut LHÍ var ég svo heppin að fá vinnu fyrir Norðan og hef fengið að taka mín fyrstu skref þar umkringd frábæru fólki síðastliðin fjögur ár,“ segir Þórdís og tekur fram að hlutverk Roxy sé það stærsta og skemmtilegasta hingað til. „Það er ekki gaman nema það sé líka krefjandi.“

Að sögn Þórdísar kann hún vel við að vinna á Akureyri þrátt fyrir að búa í Reykjavík. „Ég er heppin að hafa mikið af góðu fólki í kringum mig sem gerir þetta allt mögulegt. Í minni fjölskyldu eru engin vandamál, bara lausnir,“ segir hún en tekur fram að það hefði líklega borgað sig fyrir hana fjárfesta í íbúð þegar hún byrjaði að vinna fyrir norðan árið 2019, það sé þó enn möguleiki.

Fréttablaðið/Ármann Hinrik