Bandaríkjamaðurinn Will Hunter og Íslendingarnir Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir, Gísli Gunnarsson og Sigurboði Grétarsson mynda saman heiðingjahljómsveitina Vévaka. Þau sækja innblástur í og byggja tónlist sína á heiðni og fornri náttúrudýrkun sem er meðal annars löguð að samtímanum með nútímatækni og tólum.

„Söguleg nákvæmni er ekki takmarkið og við erum ekkert bundin við þá hugmynd að hljóðfærin þurfi að vera fornnorræn,“ segir Sigurboði. „Við erum ekki víkingar, seiðmenn eða prestar. Við erum iðkendurnir, venjulega fólkið sem færir sínar fórnir.“

Will tekur undir þetta og áréttar að þau séu í raun að reyna að stíga aðeins frá öllum þessum víkingapælingum og í tónlistinni leggi þau áherslu á nýmóðins lög fyrir nútímalega trú.

Alveg rammheiðinn

Tónlist Vévaka hefur fengið merkimiðann „neofolk“ sem einhvers konar nútímaleg þjóðlagatónlist með fornnorrænar rætur. Hljómsveitinni hefur þannig verið lýst sem „Nordic folk band“ en Sigurboði þrengir hringinn frekar með því að tengja þau við heiðinn sið norrænna manna og norræna andatrú.

Og þú sjálfur. Hefur þú alltaf verið á heiðnirófinu?

„Já, ég er alveg rammheiðinn. Skítugur heiðingi, eins og þeir segja,“ segir Sigurboði og hlær.

Sigurboði er rammheiðinn og finnur tengingu við náttúrudýrkunina með tónlistinni sem Vévaki skapar.
Mynd/Season of Mist

„Áherslan er þá á náttúrudýrkun og við notum guðina til þess að miðla henni frekar en að við séum beinlínis að tilbiðja Þór uppi á himninum. Hann táknar frekar ákveðna orku í heiminum.“

Sigurboði segir ákveðna vakningu vera í gangi á heimsvísu í þessum efnum og að heiðinn siður sé að rjúfa þær neikvæðu tengingar sem hann fékk eftir að rasistar og nasistar slógu eign sinni á ýmsar táknmyndir hans.

Lausn úr nasískum læðingi

„Áhuginn er bara að vakna um allan heim, sérstaklega eftir því sem meiri almennilegar upplýsingar eru að koma fram um hvað heiðni er og hvað heiðni er ekki.

Þannig að það er rosalega gott að fólk er farið að fatta að það er hægt að koma sér inn í þetta án þess að vera með einhvern rasisma eða nasisma. Eins og þetta hefur verið stimplað svo lengi,“ segir Sigurboði og hlær. „Þannig að við erum svona að endurheimta þetta og er að takast það mjög vel.“

Norrænn fílingur

Stemningin er því með Vévaka og Sigurboði telur því ekki útilokað að þau komi fram á réttum stað og tíma. Season of Mist virðist einnig lesa þannig í stöðuna og gerði samning við Vévaka fyrr á þessu ári og Íslandstenging útgáfufyrirtækisins styrktist enn frekar, en það er einnig með Sólstafi og svartmetalsveitirnar Auðn og Helfró á sínum snærum.

Fórnspeki er önnur breiðskífa Vévaka sem byrjaði sem sólóverkefni Will Hunter sem lærði íslensku sérstaklega til þess að geta sungið textana. Season of Mist gefur plötuna út í lok næsta mánaðar.
Mynd/Season of Mist

„Season of Mist er mest með metal og þungarokk en líka Heilung sem er mjög fræg og ekki metal,“ segir Sigurboði um dansk/þýsku neofolk-sveitina. „Þannig að það er norrænn fílingur og við sendum þeim bara demó og þau voru bara yfir sig hrifin af þessu. Og líka því að við erum svolítið að stíga frá þessu víkingaþema.

Við erum bara venjulegt fólk í nútíðinni að stunda okkar heiðni og erum ekki víkingar. Það er búið að vera svolítið mikið af þeim.“

Í upphafi voru Eddukvæði

Vévaki byrjaði sem sólóverkefni söngvarans og hljóðfæraleikarans Wills Hunter sem gaf fyrstu plötuna, Eddu, út 2020 og eins og nafnið bendir til lágu Eddukvæðin til grundvallar tónlistinni.

Fórnspeki er önnur breiðskífa Vévaka og kemur út hjá Season of Mist 28. október. „Síðan verðum við með útgáfutónleika á Húrra 13. nóvember og svo verðum við bara að túra hér og þar á næsta ári,“ segir Sigurboði og bætir við að hljómsveitin þurfi lítið að hafa áhyggjur af slíku þar sem Season of Mist muni sjá um að bóka þau á tónleika og tónlistarhátíðir víða um heim á næsta ári.

„Við Will erum búnir að þekkjast í einhvern tíma og búnir að vera að gera tónlist saman,“ segir Sigurboði, sem var Will til halds og trausts strax á Eddu. „Hann bjó þá í New York og ég hjálpaði honum eitthvað með þetta. Söng aðeins og spilaði aðeins á trommur og eitthvað,“ segir Sigurboði um fjarvinnusambandið á netinu

Hrafnhildur er á sviðinu með Will og Sigurboða á meðan Gísli gerir sína galdra bak við tjöldin.
Mynd/Season of Mist

„Hann kemur síðan til Íslands og ég hvet hann til þess að gera þetta almennilega og við ákváðum bara að keyra á þetta og gera þetta miklu stærra og stefna á að spila úti í heimi þannig að það er bara búið að vera á áætlun hjá okkur núna undanfarið.“

Heiðingjasveimur

Sigurboði gekk í framhaldinu alfarið til liðs við Vévaka og þegar Hrafnhildur Inga og Gísli bættust við var bandið fullskipað, tónlistin flæddi fram og áætlunin er heldur betur að ganga eftir með aðkomu Season of Mist.

„Will lærði íslensku og lagði sérstaklega mikla áherslu á að læra framburð til þess að vera með framburðinn alveg á hreinu þegar við erum að syngja lögin, en ég, Hrafnhildur og Will erum á sviðinu og Gísli er í rauninni 50 prósent á móti okkur þegar kemur að því að skapa tónlistina.

Hann er neo-classical tónskáld sem ég hafði unnið eitthvað með fyrir löngu og spurði hann hvort hann vildi vera með. Við sendum honum eitthvert demó og hann bara tók það og gerði sína töfra.

Þá varð þetta bara að einhverju. Það er einhvern veginn fáránlegt hvernig lögin hljóma allt öðruvísi en demóin eftir að hann tók þau sínum tökum. Þannig að hann er rosalega stór partur af þessu en hann er alveg svakalega feiminn þannig að hann kaus að vera ekki á sviði.“