Þegar ég geng upp Lauga­veginn frá Hlemmi, verður mér oft­sinnis hugsað til Gunnars Arnar mynd­listar­manns sem yfir­gaf okkur svip­lega árið 2008. Um miðjan áttunda ára­tuginn var hann með vinnu­stofu á þriðju hæð við Lauga­veginn, ekki langt frá bensín­stöðinni sem Jón Gnarr gerði fræga. Þar var Gunnar Örn einnig bú­settur á tíma­bili, þótt það væri örugg­lega ekki tekið fram í leigu­samningi. Og þar sem maður datt inn til hans síðla morguns til að spjalla og sníkja kaffi, mátti oft heyra skrjáf eða svefn­hljóð í einu horni, bak við for­tjald, þar sem Gunnar Örn geymdi bedda sinn. Þar sváfu úr sér þreytuna nætur­gestir lista­mannsins hverju sinni, en kven­hylli hans var við brugðið. En við­mótið var ætíð hið sama, hvernig sem stóð í bólið hans, hlý­legt, glað­legt og upp­fullt með ein­lægan á­huga á á­liti að­komu­manns á því sem hann var með á trönunum hverju sinni.

Nú um stundir skynja ég betur en áður hversu mikið ferill Gunnars Arnar segir okkur um að­stæður í ís­lensku mynd­listar­lífi á síðustu ára­tugum 20. aldar. Árið 1974, þegar ég kom til starfa á mynd­listar­vett­vangi, fann ég fyrir nokkurri ó­þreyju gagn­vart ríkjandi á­standi. Eins og ýmsir aðrir náms­menn hafði ég fylgst með list­hræringum hér úr fjar­lægð í nokkurn tíma, fjör­brotum form­hyggjunnar, eins og þau birtust í ab­strakt­listinni, og síðan marg­vís­legum og stundum grínaktugum upp­á­tækjum SÚM-manna. Mér þótti skorta á inn­takið og al­vöruna í þessari mynd­list, einna helst með­vitund um heims­myndina og hlut­verk mannsins innan hennar. Í mínu til­felli hafði það vísast nokkur á­hrif að ég var ný­kominn frá námi í Bret­landi, þar sem Francis Bacon bar ægis­hjálm yfir aðra mynd­listar­menn. Í verkum hans þóttist ég finna fyrir djúp­stæðum – og oft ógn­vekjandi – skilningi á til­vistar­legri kreppu nú­tíma­mannsins.

Gengið nærri manninum

Margir urðu til að fagna því þegar uppi á Ís­landi fóru að sjást mál­verk með við­líka á­herslum og í verkum Bacons, á­taka­miklar saman­tektir um mann­líf undir á­lagi og á ögur­stundum. Í rauninni voru engin for­dæmi í ís­lenskri mynd­list fyrir manna­myndum af þessu tagi. Og fáir ís­lenskir lista­menn gengu eins nærri líkam­legu og and­legu at­gervi mannsins í verkum sínum eins og Gunnar Örn gerði á áttunda ára­tugnum. Þó er of­sagt að hann hafi rutt þessa braut upp á sitt eins­dæmi. Til að mynda er þreifingar í þessa veru að finna í verkum Ei­ríks Smith frá og með 1968, en af þeim vissu fáir þar sem lista­maðurinn hélt þeim fyrir sig. Um svipað leyti vann Haukur Dór einnig fjölda á­gengra mál­verka af fólki.

Blóma­skeið Gunnars Arnar sem list­málara stóð yfir frá því snemma á áttunda ára­tugnum og fram undir 1990, þegar hann hafði snúið baki við heimsins glaumi og sest að austur að Kambi á Þjórs­ár­bökkum. Á þessu skeiði gekk Gunnar Örn í gegnum nokkrar um­breytingar og endur­skoðaði hug­myndir sínar og við­fangs­efni. Framan af leitaði hann fyrir sér í sjálfu mann­eðlinu og vann þá fyrst og síðast út frá eigin sjálfs­vitund, stakir og að­þrengdir karlar og konur urðu í­gildi hennar. Upp úr þessari eftir­grennslan lista­mannsins þróaðist síðan hug­myndin um tví­eðli mann­skepnunnar: hið karl­læga og kven­læga, sál og líkama, hið mennska og hið dýrs­lega. Þessi glíma við tví­eðlið reis einna hæst í verkunum sem Gunnar Örn gerði upp úr 1983 út frá orms­mótífinu sem hann upp­götvaði í Þjóð­minja­safninu. Orminn hreif lista­maðurinn úr hvort tveggja forn­nor­rænu og kristi­legu sam­hengi og um­breytti í einka­legt tákn, sér­stætt og marg­rætt. Í verkum hans varð ormurinn ýmist eins konar fram­lenging náttúru­aflanna, tákn ó­haminnar ást­ríðu eða losta, eða hins dýrs­lega eðlis manns og konu, allt eftir sam­henginu. Eða eins og banda­ríski list­fræðingurinn Edward F. Fry sagði um þessi verk Gunnars Arnar: „(Ormurinn) er í senn vitni og túlkari mann­legrar hegðunar, en þó fyrst og fremst hið ó­kunna afl, hvort heldur er í manni eða náttúru, að­greint frá mann­legri vitund og vilja, en þó til staðar í hverjum ein­stak­lingi sem hið dular­fulla frumafl allrar til­vistar.“(1985).

Styrkur og Akkilesar­hæll

Ormurinn er undir­staða al­þjóð­legrar vel­gengni Gunnars Arnar á þessum ára­tug. Þekktur banda­rískur galleristi, Achim Moeller, tók lista­manninn upp á arma sér og sýndi verk hans í New York, seldi í fram­haldinu mál­verk eftir hann til Gug­gen­heim-safnsins. Í kjöl­farið fylgdu sýningar fyrir Ís­lands hönd á Tví­æringnum í San Paolo og Tví­æringnum í Fen­eyjum 1988. Þetta var býsna vel af sér vikið af sjálf­lærðum lista­manni.

Raunar má segja að sjálf­menntun Gunnars Arnar hafi verið hvort tveggja styrkur hans og Akkilesar­hæll. Hefðu að­stæður lista­mannsins verið aðrar en þær voru er hann óx úr grasi efa ég ekki að hann hefði leitað sér mynd­listar­menntunar. En eins og málin æxluðust tók hann snemma að þreifa fyrir sér upp á eigin spýtur í mynd­listinni, átti þá að baki nám í selló­leik. Í fram­haldinu varð sjálf­menntunin honum upp­skrift að því sem hann taldi vera list­rænt sjálf­stæði, leið til að þróa sinn eigin stíl. Og það gerði Gunnar Örn, upp að vissu marki. Hann fann leið fram hjá hefð­bundinni út­línu­teikningu með því að vinna beint í málninguna með gúmmísköfu, spaða, tuskum eða breiðum pensli, og þar sem hann réði illa við rými í myndum sínum, a.m.k. fyrst í stað, færði hann at­burða­rás í myndum sínum iðu­lega upp á yfir­borð þeirra. Þegar upp er staðið er þetta tvennt senni­lega uppi­staða þess frum­stæða seið­magns sem finna má í bestu myndum hans.

En „frjáls og ó­háður“ er enginn mynd­listar­maður. Í raun eru verk Gunnars Arnar mótuð í sömu deiglu og verk Matis­ses, Pi­cassos, Bacons og de Koonings, sömu­leiðis hefðu þau aldrei orðið til nema fyrir kynni hans af mið­alda­list og mynd­list frum­þjóða. Og sjálf­menntunin kemur Gunnari Erni í koll síðar, þegar frí­hendis­teikning sækir á hann og þá koma fram í myndum hans á­kveðnir smíða­gallar. Um þá galla held ég að hann hafi verið með­vitaður, kannski var það þess vegna sem sóttu á hann bæði ó­yndi og efi þegar frá leið. Auk þess tók sig upp aftur gamall á­hugi Gunnars Arnar á and­legum mál­efnum, sem honum tókst ekki að ná utan um í síðari myndum sínum, a.m.k. að mati þess sem þetta skrifar.

Veg­legur bauta­steinn

Þegar best lætur er Gunnar Örn einn af særinga­mönnum ís­lenskrar mynd­listar. Hann ferðast með okkur inn í heim innri til­veru og magnar þar upp seið á mörkum nú­tíðar og ei­lífðar, vitundar og náttúru, þar sem „öll megin­rök í mann­legu lífi og hegðan eiga sitt heima“, svo aftur sé vitnað í Edward F. Fry .

Til­efni þessara skrifa er að sjálf­sögðu yfir­lits­sýningin á verkum Gunnars Arnar sem nú stendur yfir í Hafnar­borg, Hafnar­firði. Sýningin er sér­stakt fagnaðar­efni, einkum í ljósi á­huga­leysis ís­lenskra safna um arf­leifð ný­látinna (og löngu látinna …) mynd­listar­manna. Sýningunni fylgir veg­leg bók, sem er ein­stök hylling Sigur­geirs Sigur­jóns­sonar ljós­myndara til vinar síns, lista­mannsins. Út­lits­hönnun bókarinnar, hrein, tær og laus við sér­visku, er í höndum snillingsins Ámunda Sigurðs­sonar. Hér er lista­manninum reistur veg­legur bauta­steinn.

Al­dís Arnar­dóttir, for­stöðu­maður Hafnar­borgar, rekur feril Gunnars Arnar, og gerir það prýðis­vel. Ég vil í lokin einungis velta því upp hvort nokkur vel valin sam­töl við sam­tíma­menn hans hefðu ekki bætt ein­hverju við oft staðlaðar á­lyktanir gagn­rýn­enda. Sjálfur er ég sann­færður um að sam­tölin hefðu varpað nýju ljósi á sam­skipti lista­manna á þessum tíma, ekki síst sam­skipti Gunnars Arnar og nokkurra yngri lista­manna, sem töldu sig hafa einka­rétt á „nýja expressjón­ismanum“.