Athafnakonan Heiðdís Rós Reynisdóttir flutti til Miami frá Los Angeles í miðjum heimsfaraldri og stofnaði lúxusþjónustufyrirtækið The Dutchess Life VIP. Það gerði hún eftir að hafa misst allt eftir ofbeldissamband.
„Ég labbaði út án alls. Ég átti fötin sem ég var í, skóna, veskið og engan pening,“ segir Heiðdís.
Vildi bita af kökunni
Fyrirtæki Heiðdísar the Dutchess Life VIP sérhæfir sig í lúxusferðum fyrir fræga og ríka einstaklinga. Hún segir þó að hún ætlaði sér ekki fara í þjónustugeirann en þegar hún heyrði hversu há innkoman væri vildi hún líka fá bita af kökunni.
„Ég sé um bókanir á flottustu næturklúbbum, veitingastöðum Miami,“ upplýsir Heiðdís sem útvegar einnig aðgang að lúxus snekkjum, gistingu í glæsihýsum, glæsibifreiðum og öryggisvörðum ef þess er óskað.
Að sögn Heiðdísar eru viðskiptavinir hennar allt efnað fólk en hún segist ekki geta sagt neitt persónulega frá þeim.
„Helstu viðskiptavinir mínir koma frá New York, Texas, Dubai, LA og London og eru bæði karlar og konur á öllum aldri,“ upplýsir hún.
„Mér finnst alltaf jafn gaman að fara út og hitta nýtt fólk og skemmta mér. Ég get sofið þegar ég dey,“ segir Heiðdís spurð hvort hún fái aldrei leið á því að fara út á lífið.
Spurð hvort Íslendingar geti haft samband og pantað þjónustuna segir hún það vel hægt. „Það er hægt að hafa samband við mig í gengum Instagram en ég tek 2000 dollara í þjórfé sem felur í sér skipulagninguna og bókanir ferðanna,“ segir Heiðdís.

Nýtir erfiðleikana sem styrk
Heiðdís er þrjátíu og fjögurra ára gömul uppalin í Garðabæ ásamt tveimur yngri systrum sínum. Hún fann alltaf fyrir því að hún væri eitthvað öðruvísi og að Ísland væri of lítið fyrir hana svo hún flutti til Bandaríkjanna árið 2011 til að læra förðun.
„Upprunalega flutti ég til Los Angeles til að læra meira í förðun og fór í skóla sem heitir Joe Blasco Make Up School,“ segir Heiðdís sem starfaði sem förðunarfræðingur í fjórtán ár en lagði burstana á hilluna fyrir fjórum árum.
Heiðdís varð þekkt samfélagsmiðlastjarna undir Snapchat-reikningum Hros celebrity mua en hefur nú alfarið flutt sig yfir á Instagram þar sem hún er með yfir ellefu þúsund fylgjendur.
Heiðdís segist bera merki þess að geta gert hvað sem er þrátt fyrir að hafa upplifað erfiðleika en hún nýtti sína erfiðu reynslu sem styrk til að elta drauma sína.
„Miami veitti mér nýja byrjun þar sem ég gat einbeitt mér að draumum mínum og markmiðum. Þetta er án efa besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Heiðdís stolt af sjálfri sér en hún lýsir sér sem afar sjálfsöruggri konu sem lætur ekkert stoppa sig.
„Ég hef komið mér vel á lappirnar og ef fólk myndi koma inn í íbúðina mína myndi það ekki trúa því að ég hafi gengið í burtu með ekki neitt,“ segir Heiðdís sem býr ein í íbúð miðsvæðis á Miami.
Ekkert í þessum heimi er ómögulegt, þú þarft bara að vilja það nógu mikið

Stefnir á Forbes-listann
Heiðdís stefnir hátt með nýtt fyrirtæki sitt og segir Guð hafa hjálpað henni á rétta braut.
„Mig langar að bjóða upp á bestu og stærstu VIP-þjónustu í heimi sem er með útibú í Los Angeles, New York, Las vegas, Tulum, Dubai svo eitthvað sé nefnt. Ég er með mikið viðskiptavit og tel mig afar greinda og hæfileikaríka. Markmiðið mitt er að verða ein af fyrstu Íslendingunum til að komast á Forbes-listann,“ segir Heiðdís og viðurkennir að hún eigi sér stóra drauma og setur markmiðið hátt, en athafnakonurnar Paris Hilton og Kim Kardahian veita henni mikinn innblástur.
„Mig langar að skrifa bók og gefa út lag, en ég elska að syngja og er mjög góð í því. Ég hef verið að skrifa og hef frá mörgu að segja eftir mína erfiðu reynslu sem ég er viss um að gæti nýst einhverjum öðrum sem styrkur,“ segir Heiðdís og bætir við: „Ég trúi því að þú gangir í gegnum ákveðnar hindranir í lífinu til að bæta þig sem manneskju og Guð leggur erfiðasta prófið fyrir sterkasta fólkið.“

Á góða vini í fyrsta skipti
Heiðdís segist heppin með fólkið í kringum sig og hún hafi aldrei átt betri vinkonur eins og í dag.
„Ég hef aldrei verið með jafn gott sjálfstraust og er sama um hvað fólk segir um mig. Litla Ísland heldur alltaf að það sem maður gerir sé ólöglegt,“ segir hún og hlær.
„Ég veit að 2023 er mitt ár og ég get ekki beðið eftir að ná öllum mínum markmiðum og sýna hvers ég er megnug.“
„Ég kem frá mjög sterkri fjölskyldu sem er með mikið viðskiptavit og margar hugmyndum í kollinum, svo eru þau einnig mjög listræn. Ég tel mig mjög heppna að hafa fengið bæði,“ segir hún stolt.
„Foreldrar mínir eru mjög ánægð með að ég sé flutt til Miami en mamma elskar Florida. Þau voru hjá mér í þrjár vikur í desember og ég fékk að bjóða þeim frítt á alla flottustu staðina vegna tengsla,“ segir Heiðdís og bætir við að hún sé mjög lánsöm með fjölskyldu sem stendur ávallt þétt við bakið á henni.
Dreymir um eigin skemmtistað
Spurð um framtíðina segir Heiðdís að hún vonast til að vera búin að kynnast ástinni sem er með svipuð lífsgildi og markmið og hún sjálf.
„Ég vonast til að vera búin að eignast eitt eða tvö börn, gefa út bók, vera með eigin snyrtivörulínu, jafnvel fatalínu og eiga minn eigin veitingastað og næturklúbb út um allan heim. Ég stefni hátt,“ segir hún og bætir við:
„Fyrst verða hlutirnir að draumi svo verður það að markmiði. Þar eftir að aðgerð og svo vonandi að veruleika. Ég veit að ekkert í þessum heimi er ómögulegt, þú þarft bara að vilja það nógu mikið,“ segir hún ákveðin.