Heiða Kristín Helgadóttir, ein af stofnendum Besta flokksins og Bjartrar framtíðar, og Guðmundur Kristján Jónsson, skipulagsfræðingur og fyrrverandi aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, eru búin að setja íbúðina sína við Öldugötu í Vesturbæ á sölu.

Sett verð á íbúðina eru tæpar 65 milljónir en hún er 129 fermetrar að stærð. Um er að ræða stórglæsilega og bjarta íbúð með sérinngangi en hún skiptist í forstofu, hol, þrjú herbergi, nýuppgert baðherbergi og stofu með opnu eldhúsi. Þakið var yfirfarið í sumar og þá var gert við sprungur utan á húsinu í fyrra. 

Óhætt er að segja að um sé að ræða eign á besta stað í göngufæri við miðbæ og alla helstu þjónustu. 

„Við Heiða Kristín erum í jólaskapi og bjóðum þessa frábæru eign á sannkölluðu jólaverði bara í desember. Vek sérstaka athygli á bílskúrnum. Mikill andi þar. Musteri handa og hugans,“ segir Guðmundur í færslu á Facebook.