Flest erum við nokkuð spræk á unga aldri og hugsum ekki mikið um annað en núið. Það breytist svo með tímanum og fólk fer að hugsa meira um það; líkaminn hrörnar iðulega hraðar en andi og sál. Hver kannast ekki við það að hafa heyrt af því þegar fólki líður eins og tvítugu, en er orðið mun eldra, jafnvel komi á fimmtugs- eða sextugsaldur?

Það er ekki hægt að sigra elli kerlingu, hún mun alltaf hafa betur. Það er í raun spurning hvort það sé rétt að vera í mikilli baráttu, heldur njóta og eldast með reisn. Ætli fólk eldist ekki hraðar sem hefur sífelldar áhyggjur af því og það er örugglega ekki gott fyrir sálartetrið að eiga í glímu sem ekki er hægt að vinna. Þetta getur verið mikill streituvaldur hjá mörgum og við vitum að streita hefur ýmis áhrif á efnaskipti, líf og líðan.

Staðalímyndir eru vissulega til staðar og ytra áreiti umtalsvert. Útlitsdýrkun er í eðli sínu ákveðinn vandi þegar hún fer að hafa verulega neikvæð áhrif á fólk. Við þekkjum ýmiss konar átraskanir, kvíðavanda og depurðareinkenni sem geta komið til vegna þessa samanburðar sem bæði kynin viðhafa reglulega. Reynt hefur verið að sporna við þeirri þróun, en með nýrri fjarskiptatækni, snjallsímunum og auknu framboði á efni á veraldarvefnum eða í öðrum miðlum er ljóst að áhrifin eru víðtæk.

Samanburðurinn mikill

Svokallaðir áhrifavaldar, stjörnur í bæði kvikmynda- og tónlistargeira og fleiri hafa mikil áhrif á samanburðinn. Vægið er líklega mun meira hjá yngri kynslóðum en það er einnig töluvert hjá þeim eldri. Það er jákvætt þegar við sjáum þessa aðila ræða opinskátt um til dæmis sjúkdóma, eigin breyskleika og vandamál, þannig opnast umræðan út fyrir hégómann og þessir aðilar hafa mikil áhif á heimsvísu.

Nægir að nefna Angelinu Jolie, sem ræddi mjög opinskátt um brottnám brjósta sinna vegna undirliggjandi genabreytileika sem eykur verulega líkurnar á krabbameini í brjóstum. Hún náði líklega einum mesta árangri í vitundarvakningu um slíkt á heimsvísu með einni grein í The New York Times. Segja má að hún hafi notað frægðina til góðs og forvarna fyrir aðrar konur.

Margar bækur hafa verið gefnar út sem leiðbeiningar til að viðhalda æskublómanum. Fólk vill geta stýrt öldrun sinni, sumir gera það með kremum, bætiefnum eða með því að fara í lýtaaðgerðir og eru karlar þar ekki undanskildir, þvert á móti hefur orðið gífurleg aukning á þeim markaði.

Ójafnvægi og óhamingja skemmandi

Ekki eru til neinar töfralausnir enn þá en andlegt ójafnvægi og óhamingja mun skemma verulega fyrir og hraða öldrunarferlinu.

Forvarnir líkt og að sleppa áfengi og reykingum gera töluvert til að draga úr líkum á að þurfa að vinna með lausnir eins og bótox eða aðgerðir á annað borð.

Þá er ekki horft til innri líffæra eins og lungna, hjarta og æðakerfis sem öll eldast hraðar og skemmast fyrr hjá þeim sem reykja. Ristruflanir og getuleysi bæði karla og kvenna fylgir oft í kjölfarið. Ég þarf varla að minnast á offituna, hreyfingarleysið og óhollt mataræði í þessu samhengi því það er svo augljóst. Hið merkilega er að fólk tengir öldrun ótrúlega mikið við útlit, minni og kyngetu en það er bara svo miklu, miklu meira sem kemur til.

Temdu þér því holla lífshætti, settu sjálfan þig í forgang, láttu þér líða vel og í öllum bænum hættu að reykja, skyldir þú gera það! Þessar einföldu reglur munu spara þér mikla peninga í framtíðinni sem þú gætir notað í eitthvað annað og skemmtilegra og þær munu sennilega lengja lífið og bæta það umtalsvert.

Láttu hégómann ekki ná tökum á þér, njóttu þess að eldast því það mun fara þér betur og eyddu orku þinni í það að vera hamingjusamur, þú getur nefnilega ráðið því!