Alls hefur um tíu milljón sinnum verið horft á streymi RÚV af eld­gosinu í Geldinga­dölum á YouTube. Um 20 er­lendir frétta­miðlar sýna frá streyminu auk þess sem fjöldi er­lendra há­skóla hefur óskað þess að fá upp­tökur af efninu til rann­sókna í vísinda­skyni.

Útsendingin liggur niðri í dag. Bragi Reynis­son, yfir­maður tækni­mála hjá RÚV segir að sam­band hafi rofnað við kassa sem tengist við annan kassa sem hafi leitt til þess að vef­mynda­vélin liggur niðri í dag. Veður er mjög slæmt við gos­stöðvarnar og það voru 30 metrar á sekúndu á einum tíma­punkti í dag.

„Það er loft­net sem getur hafa fokið eða snúist. Við vitum það ekki alveg því það er ekkert veður til að fara að skoða það. Við leggjum engan í hættu fyrir þetta, en við stefnum á að fara á morgun,“ segir Bragi.

Hann segir að það sé auð­vitað á­kveðið af­rek að reka mynd­bands­töku­vél uppi á fjalli á batteríum en telur þó að það sé erfiðisins virði.

„Það eru margir að horfa og upp­tökunni er dreift á um 20 frétta­miðla um allan heim og það hefur verið horft á Youtu­be streymið okkar yfir tíu milljón sinnum,“ segir Bragi.

Spurður hvort að margir hafi haft sam­band í dag segir hann að það hafi eitt­hvað verið hringt, en að þau hafi brugðist við strax í morgun þegar ljóst var að ekki tækist að koma henni upp aftur en send var út frétta­til­kynning snemma í morgun.

Einnig notuð í vísindalegum tilgangi

Eftir að vef­mynda­vélin var sett upp mátti oft sjá fólk standa fyrir vélinni og veifa í hana. Bragi segir að þeim hafi fækkað sem geri það og þau reyni að gera sem minnst úr því. Hann segir að það skipti þó miklu máli að út­sendingin sé ekki trufluð of mikið því að hún er einnig notuð í vísinda­legum til­gangi. Allt efnið er tekið upp og sent til bæði Veður­stofunnar og Há­skóla Ís­lands.

„Þetta verður notað næstu árin og það eru fleiri há­skólar um allan heim sem hafa sýnt efninu á­huga og munu fá af­rit af því til að vinna með í vísinda­legum til­gangi,“ segir Bragi.

Hann segir að það merki­legt að hugsa til þess að það sé búið að vera að fylgjast með gosinu frá því tólf klukku­stundum eftir að það hófst í beinni út­sendingu.

„Við eigum sögu­leg gögn af þessu gosi,“ segir Bragi að lokum.

Í til­kynningu frá RÚV segir að þegar veður leyfir þá verði við­gerðar­flokkur sendur af stað til að koma myndunum af gosinu heim í stofu til fólks. Um leið verður þess freistað að færa aðra vef­mynda­vélina svo það fáist betra út­sýni yfir alla nýju gígana sem hafa opnast síðustu daga og vikur.