Náttúra og litir hafa alltaf verið aðal viðfangsefnið mitt þegar að myndlistinni kemur,“ segir Louisa St. Djermoun sem opnaði nýlega sýningu í Hannesarholti á Grundarstíg 10. Þar eru stórar en fínlegar myndir með upphleyptri áferð og við hlið hverrar og einnar er silkislæða með sama mynstri. Louisa segir þessa sýningu marka fyrstu skref hennar inn í textílheiminn. „Fyrir frumraunina valdi ég hágæða 100% Mulberry Silk Twill í slæður sem ég tel að nái vel að endurspegla verkin mín.“

Louisa er íslensk/frönsk-alsírsk, er fædd og uppalin í Reykjavík en hefur verið búsett í Frakklandi síðustu 18 ár. Hún er menntuð í sjónlistum í Sorbonne og kennslu í LHÍ og samhliða því að sinna kalli listagyðjunnar hefur hún starfað sem kennari og leiðsögumaður, auk þess að ala upp þrjá drengi. Þetta er önnur myndlistarsýning hennar á Íslandi á þessu ári en hún hefur tekið þátt í þeim mörgum víðsvegar um Frakkland og átti „besta verk“ sýningar Evrópuhússins í Montpellier á viku listarinnar í október síðastliðnum.

„Allt frá því að ég var lítil stelpa í Skerjafirðinum hefur efnisáferð náttúrunnar, fjaran, sjórinn og grófu stráin átt hug minn allan. Þess vegna leitast ég við að ná fram þrívíðri áferð í verkum mínum. Ég hef lengi litið á ljósmyndalinsuna sem mitt þriðja auga en undanfarin 15 ár hef ég þróað tækni sem ég kalla Louisu list. Þar vinn ég með eigin náttúruljósmyndir sem forgrunn og bæti við málningu á striga og tæknileyndarmálum.“

Sýningin verður opin á opnunartíma Hannesarholts fram að jólum.