Bragi hóf ferðalagið í upphafi Covid og það stóð fram í ágúst. „Ég á eina sundlaug eftir sem er norður á Ströndum. Þangað kemst maður ekki nema sjóleiðina. Ég á planaða ferð þangað í júlí,“ segir hann. „Ég tók bara útilaugar og þær eru allar teknar með dróna. Planið mitt er að gefa út bók í haust með þessu verkefni og hún er komin vel á veg. Mögulega held ég sýningu í kjölfarið. Þetta verður fyrst og fremst ljósmyndabók þar sem ég segi frá því hvar myndirnar eru teknar,“ segir hann.

Þegar Bragi er spurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart á þessu ferðalagi, svarar hann: „Já, hversu sundlaugarnar eru margar en þær eru rétt rúmlega eitt hundrað. Langflestar laugarnar eru í notkun, spurning með tvær eða þrjár en í þeim var ekki vatn þegar ég kom á staðinn.“

Bragi Þór Jósefsson ljósmyndari hefur notað síðasta ár til að mynda sundlaugar.

Byrjaði í Eyjum

Bragi segir að kveikjan að þessu verkefni hafi orðið til í Vestmannaeyjum haustið 2019. „Ég var með drónann og tók ýmsar myndir yfir bæinn. Ég hálfpartinn villtist yfir á íþróttasvæðið og sundlaugina. Skaut nokkrum skotum niður á laugina og þegar ég skoðaði myndirnar eftir á sá ég að þetta var skemmtilegt sjónarhorn á sundlaug. Næst fór ég í hverfislaugina mína sem er Salalaug og sá strax að þetta gæti verið eitthvað áhugavert. Þegar Covid skall á, vinnan minnkaði og mig vantaði verkefni til að fást við auk þess sem enginn var í sundlaugum, datt mér í hug að það gæti verið sniðugt að nýta tímann. Þá hófst ég handa við að mynda allar sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu. Ég póstaði þeim á Facebook og fékk frábær viðbrögð. Það varð til þess að ég ákvað að taka mynd af öllum útilaugum á landinu. Ég hélt af stað markvisst um landið í þessum eina tilgangi,“ segir hann. „Vegna Covid voru fáir á ferð og laugarnar mannlausar.“

Sundlaug Akureyrar býður upp á marga möguleika til útiveru. MYNDIR/BRAGI ÞÓR JÓSEFSSON

Bragi notaði drónann til að fá öðruvísi sjónarhorn á bæði formi og litum. „Mér fannst þetta mjög skemmtilegt verkefni og stundum nýtti ég líka þá náttúru sem var í kringum laugina. Ég kom á nokkra staði sem ég hafði ekki heimsótt áður eða ekki í meira en 30 ár.“

Myndrænar laugar

Þegar Bragi er spurður hvort hann hafi eignast uppáhaldslaug á þessu ferðalagi, svarar hann. „Myndrænt séð þá er mjög skemmtilegt útisvæði í Bolungarvík. Laugin sjálf er innanhúss en fyrir utan er svæði með rennibraut sem kemur skemmtilega út. Laugin í Grundarfirði er sömuleiðis mjög myndræn með skemmtilegum línum í kring. Einnig get ég nefnt Seljavallalaug, náttúran þar kemur sterk inn. Þar var að vísu fólk en það gerði heilmikið fyrir myndina í það skiptið.

Laugin á Seltjarnarnesi er venjulega fjölsótt en hún var lokuð vegna Covid.

Á Hofsósi fór ég hátt upp og tók víða mynd til að ná fjöruborðinu sem kom vel út. Ég mat það alltaf á staðnum hversu víð myndin ætti að vera en úti á landsbyggðinni er víða gríðarlega falleg náttúra í kring. Krossneslaug í Árneshreppi er til dæmis mjög skemmtilega staðsett. Einnig lítil laug í fjöruborðinu við Birkimel á Barðaströnd. Laugarnar eru alls konar á Íslandi og gaman að heimsækja þær,“ segir Bragi.

Myndar brúðhjón

Þar utan hefur hann sérhæft sig í brúðarmyndum af erlendum ferðamönnum. Sú starfsemi lagðist af í Covid en er að vakna aftur til lífsins. Hann er með síðuna icelandweddingphoto.com.

„Ég finn að þetta er að fara í gang. Ég hef verið með tvær brúðarmyndatökur á síðustu dögum og önnur var við eldgosið í Geldingadal.

Ég er sjálfstætt starfandi ljósmyndari og það eru alls kyns verkefni sem koma upp í hendurnar á manni. Þetta eru mörg ólík verkefni sem gaman er að fást við.“

Seljavallalaug er vinsæll áningarstaður ferðamanna og mikil náttúruparadís.
Sundlaugin á Hofsósi frá öðru sjónarhorni en flestir þekkja.
Sundlaugin í Vík í Mýrdal hefur yfir sér ákveðinn sjarma. Takið eftir rennibrautinni sem lítur út eins og snigill.
Sundlaugin í Grundarfirði. Myndin hefur skemmtilegt form og liti.
Litla laugin í fjöruborðinu á Birkimel á Barðaströndinni.