Ted Chiang hefur sent frá sér tvö smá­sagna­söfn, Stories of Your Life and Ot­hers (2002) og Ex­halation (2019), og hafa smá­sögur hans og nóvellur unnið til allra helstu verð­launa fyrir vísinda­skáld­skap, þar á meðal fjöl­margra Hugo og Nebula verð­launa. Ted spjallaði við blaða­mann frá heimili sínu ná­lægt Seatt­le í Banda­ríkjunum og spurður hvað heilli hann við hið stutta form segir hann:

„Það voru færð rök fyrir því á 6. og 7. ára­tugnum innan vísinda­skáld­sagna­heimsins að nóvellan væri hin til­valda lengd til að skrifa vísinda­skáld­skap. Rökin voru þau að nóvellan gæfi manni nægt rými til að kanna eina hug­mynd. Smá­saga gæfi manni ekki nægi­legt rými og í skáld­sögunni þarf maður meira en eina hug­mynd til að halda henni uppi. Það eru ekki allir sam­mála þessu en ég er nokkuð fylgjandi þessum rökum og held að þau eigi við um mig.“

Arrival, með Amy Adams, Jeremy Renner og Forest Whitaker, gerði mikið fyrir feril Teds sem líkir henni við 70 milljóna dollara auglýsingaherferð.

Arri­val hafði mikil á­hrif á ferilinn

Þekktasta saga Teds er án efa nóvellan Story of Your Life, sem Hollywood-myndin Arri­val frá 2016 eftir Denis Vil­leneu­ve var byggð á. Ted segir myndina hafa haft um­tals­verð á­hrif á feril hans, enda sé kvik­mynd á vissan hátt 70 milljóna dollara aug­lýsinga­her­ferð.

„Ég held að vel­gengni myndarinnar hafi stuðlað að því að ég náði til víðari les­enda­hóps. Áður en myndin kom út voru verk mín að­eins þekkt hjá fólki sem les vísinda­smá­sögur, sem er mjög lítill les­enda­hópur. En eftir að hún kom út voru verk mín lesin af fólki sem hugsar ekki um sig sem les­endur vísinda­skáld­skapar og einnig af fólki sem hugsar ekki um sig sem les­endur smá­sagna. Þannig að kvik­myndin hafði mikil á­hrif.“

Með heims­far­aldrinum undan­farin ár hefur heims­mynd okkar orðið sí­fellt líkari vísinda­skáld­sögu. Er erfitt að skrifa vísinda­skáld­skap á slíkum tímum?

„Í raun held ég að á vissan hátt hafi það verið erfiðara fyrir rit­höfunda sem skrifa ekki vísinda­skáld­skap. Þegar heims­far­aldurinn braust út voru margir rit­höfundar með skáld­sögur í burðar­liðnum, annað hvort að skrifa skáld­sögu eða með skáld­sögu í út­gáfu­ferli, skáld­sögur sem áttu að gerast í nú­tímanum, en minntust ekki á neitt í líkingu við far­aldurinn. Og allt í einu virtust allar þessar skáld­sögur vera úr­eltar.“

Í dag­legu lífi mínu er ég mjög hneigður til svart­sýni. Það er eitt­hvað sem ég reyni að forðast þegar ég skrifa skáld­skap.

Svart­sýnis­maður í dag­legu lífi

Sögur þínar eru bjart­sýnar að því leyti að þær forðast þá til­hneigingu vísinda­skáld­skapar nú­tímans að fjalla um distópíu. Myndirðu skil­greina þig sem bjart­sýnis­mann?

„Í dag­legu lífi mínu er ég mjög hneigður til svart­sýni. Það er eitt­hvað sem ég reyni að forðast þegar ég skrifa skáld­skap. Kannski er ein á­stæðan sú að þegar ég er að skrifa sögu eyði ég miklum tíma í að hugsa um hana og ég vil helst ekki þurfa að eyða miklum tíma í að hugsa um hræði­legar sviðs­myndir.

Það getur verið mjög auð­velt að detta í svart­sýni. Eins og ég sagði þá hallast ég í þá átt sjálfur og mér finnst mikil­vægt að berjast gegn því. Ég vona samt að verk mín séu ekki ein­hvers konar blind af­neitun á mögu­legum vanda­málum,“ segir Ted og bætir við að hann vonist þó til að verk hans sýni fram á að allt í heimi hér sé hverfult og að það sem við metum mest muni ekki hverfa.

Story of Your Life, sem Arri­val er byggð á, fjallar um mál­vísinda­konuna Dr. Lou­ise Banks sem fengin til að ráða fram úr tungu­máli geim­vera sem lenda á jörðinni og eiga við þær sam­skipti. Eftir að Banks lærir tungu­mál geim­veranna fær hún allt aðra sýn á lífið sem hjálpar henni að takast á við erfiðan missi í sínu eigi lífi. Að­spurður um hvort hann sé sam­mála því að sagan beri áður­nefndri bjart­sýni í höfunda­verki hans vitni segir Ted:

„Ég lít ekki á svo mikið á þessa sögu í tengslum við svart­sýni á móti bjart­sýni. Fyrir mig fjallar hún um það hvernig hægt er að sætta sig við ó­um­flýjan­legan missi. Við munum öll ein­hvern tíma kljást við missi. Flest okkar munu aldrei þurfa að kljást við jafn mikinn missi og þann sem sögu­maðurinn stendur and­spænis en við vitum að við munum öll upp­lifa missi í okkar lífi. Við vitum ekki ná­kvæm­lega hvaða form hann mun taka en hann er þarna úti og spurningin er hvernig maður heldur á­fram að lifa. Það er partur af hinu mann­lega á­standi, að halda á­fram að lifa and­spænis missi.“

Það er partur af hinu mann­lega á­standi, að halda á­fram að lifa and­spænis missi.

Hefur ekki á­hyggjur af gervi­greind

Ein af sögunum í nýjasta smá­sagna­safni Teds, The Life­cyc­le of Software Objects, fjallar um gervi­greind á nokkuð ný­stár­legum nótum. Sagan fylgir konu yfir tuttugu ára tíma­bil sem elur upp staf­ræna veru eins og hún væri hennar eigin barn. Sagan blandar þessu sí­gilda við­fangs­efni vísinda­skáld­skapar saman við heim­speki, upp­eldis­sál­fræði og mann­réttindi.

„Hug­myndir mínar um gervi­greind hafa ekki breyst gífur­lega síðan ég skrifaði þessa sögu. En ég hugsa að eitt hafi þó breyst í til­liti til þróunar véla með með­vitund, sem er allt annar hlutur heldur en gervi­greind. Þegar fólk talar um gervi­greind í dag þá er það ekki að tala um vélar með með­vitund heldur hug­búnað sem fram­kvæmir hag­nýta töl­fræði,“ segir Ted.

Að hans mati eru ekki mörg raun­veru­leg við­skipta­tæki­færi fólgin í því að byggja vélar með með­vitund vegna þess hversu gífur­lega kostnaðar­söm og flókin slík fram­kvæmd yrði.

„Goog­le leitar­vélin væri ekki gagn­legri ef hún væri með með­vitund. Það er engin fram­leiðslu­vara sem myndi vera gagn­legri ef hún væri með með­vitund. Það sem við viljum frá hug­búnaðinum og vörunum sem við þróum er eigin­lega and­stætt með­vitund.“
Ted segir að lengi vel hafi hann litið svo á að mann­kynið myndi ekki leggja út í það að þróa vélar með með­vitund vegna þessa hindrana. Hann segir þó upp­gang miljarða­mæringa á undan­förnum árum hafa fengið hann til að endur­skoða af­stöðu sína.

„Þeir geta kastað frá sér gífur­legu fjár­magni eftir henti­semi. Þannig núna virðist það alveg vera mögu­leiki að við munum byggja vélar með með­vitund, ekki af því að það séu góð við­skipta­tæki­færi fólgin í því, heldur af því að ó­geðs­lega ríkir miljarða­mæringar gætu vaknað upp einn daginn og hugsað „Þetta gæti verið kúl“.“

Þannig þú hefur ekki á­hyggjur af því að vélar með gervi­greind muni taka yfir heiminn?

„Nei, ég hef það ekki. Ég held að það sé miklu meiri hætta á því, og við erum mjög, mjög ná­lægt því, að kapítal­ismi taki yfir heiminn. Ég held að þegar fólk talar um ó­um­flýjan­leika tækni­fram­fara eða vaxandi yfir­ráð tækninnar, þá sé það oft að tjá sig í gegnum rök kapítal­ismans. Mikið af þeim hlutum sem fólk segir að séu fram­farir eru í raun bara öfga­kenndara form af kapítal­isma.“

Ted Chiang hefur sent frá sér smá­sagna­söfnin, Stories of Your Life and Ot­hers (2002) og Ex­halation (2019).

Vildi geta skrifað hraðar

Ted Chiang mun ekki mæta í eigin per­sónu á IceCon heldur ræða við gesti há­tíðarinnar á fjar­fundi. Hann hefur þó komið þrisvar til Ís­lands á eigin vegum og segist kunna vel við land og þjóð.

„Konan mín og ég elskum Ís­land og vonumst til að geta komið aftur. Ég var von­svikinn yfir að komast ekki á IceCon í eigin per­sónu þetta árið.“

Þótt hug­mynda­auðgi Ted ­Chiang eigi sér fáar hlið­stæður er ljóst að hann tekur sér langan tíma í að vinna að hverri sögu. Spurður hve­nær les­endur megi búast við næstu bók eða sögu segir hann það alls ó­víst.

„Ég veit það ekki. Ég get sagt þér að það er enginn sem óskar þess heitar að ég skrifaði hraðar heldur en ég. Ég vildi gjarnan skrifa hraðar en ég get bara unnið á þeim hraða sem ég skrifa. Ef ég get sætt mig við mína hægu fram­leiðslu­getu þá ætti annað fólk að geta það líka.“