Agla María Albertsdóttir, leikmaður Breiðabliks, var nýlega valin leikmaður ársins í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Lið Breiðabliks endaði í öðru sæti deildarinnar og varð bikarmeistari síðasta föstudag þegar þær sigruðu lið Þróttar 4-0. Í dag, miðvikudag, leikur svo liðið fyrsta leik sinn af sex í Meistaradeild Evrópu þegar liðið mætir PSG á Kópavogsvelli en riðillinn er hluti af sextán liða úrslitum keppninnar. „Það er ekkert skemmtilegra en að mæta þeim bestu og verður því ótrúlega skemmtilegt að mæta PSG. Við þekkjum líka aðeins til þeirra þar sem við spiluðum við þær árið 2019 og vitum að þetta verður hörku leikur. Ég á því von á mjög skemmtilegum leik og hvet alla til þess að mæta á völlinn, hvetja okkur áfram og sjá þær bestu spila.“

Stolt af liðinu

Árangur Breiðabliks hefur verið góður í ár að hennar mati. „Auðvitað er það alltaf markmið í upphafi hvers sumars að taka Íslandsmeistaratitilinn en ég er stolt af liðinu fyrir að hafa klárað mótið með stæl og tryggt okkur annað sætið og því meistaradeildarsæti. Árangurinn er sérstaklega góður þegar litið er til þess að við mættum til leiks í sumar með gjörbreytt lið frá því í fyrra en höfum eftir því sem liðið hefur á sumarið náð að byggja upp mjög gott lið. Það er því frábær árangur að verða Mjólkurbikarmeistarar og ná þessum sögulega árangri í Meistaradeildinni.“

Utan þess að vera leikmaður Breiðabliks og íslenska landsliðsins útskrifaðist Agla María með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík í vor og stundar nú meistaranám í fjármálum fyrirtækja við Háskóla Íslands.

Agla María útskrifaðist með B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík í vor og stundar nú meistaranám í fjármálum fyrirtækja við Háskóla Íslands.

Setti markið snemma hátt

Agla María lék alla 18 leiki liðsins í deildinni og sömuleiðis allar þær mínútur sem leiknar voru. Í þessum 18 leikjum skoraði hún 12 mörk. „Ég byrjaði að æfa fótbolta með Breiðabliki í kringum sjö ára aldurinn. Ég hef alla tíð verið mjög mikil keppnismanneskja í því sem ég tek mér fyrir hendur og varð þetta því mjög fljótlega mikil alvara hjá mér í fótboltanum.“

Hún segist afar ánægð yfir því að hafa verið valin leikmaður ársins í Pepsi Max-deildinni í sumar. „Ég er fyrst og fremst ótrúlega stolt af því að hafa verið valin best í sumar en það er ekki hægt nema að vera með góða liðsfélaga. Því finnst mér þessi viðurkenning um leið vera viðurkenning á spilamennsku okkar sem liðs í sumar.“

Agla María nefnir ýmsar ástæður fyrir velgengni sinni. „Ég tel að brennandi áhugi, metnaður, gott bakland og það að huga vel að líkamlegri og andlegri heilsu sé lykilatriði í þeim árangri sem ég hef náð.“

Mikil sókn í kvennaboltanum

Kvennafótboltinn hefur verið í mikilli sókn undanfarin ár og segir Agla María framtíðina sannarlega vera bjarta. „Það hefur verið gríðarlega mikil uppsveifla í kvennaknattspyrnunni síðustu ár. Stærstu liðin hafa verið að bæta umgjörðina hjá sér og setja meiri pening í kvennaliðin sín. Þetta hefur orðið til þess að fleiri stelpur gerast atvinnumenn í fótbolta auk þess sem fyrirmyndirnar eru miklu sýnilegri en áður sem skiptir sköpum fyrir ungar fótboltastelpur. Á næstu árum vænti ég þess að áhuginn eigi eftir að aukast enn frekar og sé ég ekki fram á neitt annað en enn frekari uppgang kvennaknattspyrnunnar næstu árin.“

Fjölskylda Öglu Maríu, f.v. Albert Jónsson, Agla María, Aron Þórður Albertsson og Elín Þórðardóttir.

Hvernig kemur þú þér í gírinn fyrir leik?

Ég hugsa um það hvað ég ætla að gera í leiknum áður en ég leggst á koddann kvöldið áður og hlusta á vel valin lög áður en ég mæti inn í klefann fyrir leik.

Hver er erfiðasti mótherjinn?

Á æfingum er það Karitas Tómasdóttir, hún hættir aldrei.

Ertu morgunhani eða finnst þér gott að sofa út?

Er mitt á milli en nær því að vera morgunhani.

Hver er uppáhaldsæfingin og sú sem er í minnstu uppáhaldi?

Draumaæfing samanstendur af þriggja liða reit, skotæfingu og síðan enda æfinguna á brassa. Hlaup án bolta eru í minnstu uppáhaldi.

Hvað færðu þér oftast í morgunmat?

Ég fékk mér alltaf hafragraut en fæ mér núna oftast jógúrt, chia-graut eða annað sem er til.

Hvað finnst þér gott að fá þér í kvöldmat?

Pestó-kjúklingaréttur með sætum kartöflum og nóg af grænmeti eða grænmetislasanja eru í uppáhaldi.

Hvað finnst þér gott að fá þér í millimál?

Ég fæ mér oftast próteinstykki, hrökkbrauð eða ávexti í millimál.

Hvað gerir þú til að halda andlegu heilsunni í jafnvægi?

Mér finnst gott að geta einbeitt mér að öðrum hlutum en fótbolta, eins og skóla eða vinnu. Annars næri ég mig helst andlega með því að eyða tíma með fjölskyldu og vinum.

Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar í boltanum og í lífinu?

Í lífinu almennt er mamma klárlega mín mesta fyrirmynd. Þegar ég var yngri leit ég mest upp til Cristiano Ronaldo frá Portúgal og Arons bróður míns í fótboltanum en seinna hef ég litið mikið upp til Lieke Martens frá Hollandi og Le Sommer frá Frakklandi.