Hulda gerðist vegan fyrir tæpum fimm árum en hún hafði gælt við hugmyndina mun lengur. „Ég kynntist veganisma fyrst þegar ég var fimmtán ára og las bók um grænmetisfæði sem mamma hafði keypt. Þá ákvað ég að gerast vegan, en líklega hef ég þó verið nær því að vera græn­metis­æta enda kunni ég lítið á þetta. Svo hentaði framboðið ekki alveg unglingi eins og mér. Svo týndi ég mér um tíma og fór að borða fisk og kjúkling aftur en hætti því svo alveg fyrir tæpum fimm árum.“

Það sem fékk Huldu til að snúa við blaðinu fyrir fullt og allt var heimildarmyndin Earthlings. Myndin er frá árinu 2005 og fjallar um hvernig mannkynið hefur notað önnur dýr sem gæludýr, sem mat, í föt, til skemmtunar og í vísindarannsóknir. „Eftir að ég sá myndina varð ekki aftur snúið. Ég horfði á myndina vegna þess að ég var farin að hafa mikinn áhuga á umhverfismálum, en þarna vaknaði einnig áhugi á dýravernd.“

Fátt í lífinu erfitt

Hulda segir það ekki hafa verið erfið umskipti að gerast vegan. „Mér finnst fátt í lífinu erfitt og kannski var það þetta viðhorf mitt til lífsins sem hjálpaði mér. Mesta áskorunin var að takast á við fólkið í kringum mig, að gera því grein fyrir því hvernig ég ætlaði að haga hlutunum.“

Hulda býr á Akureyri ásamt eiginmanni sínum og yngri dóttur sinni sem er fjögurra ára. „Maðurinn minn er ekki vegan en hann styður mig algerlega. Yngri dóttir mín er það hins vegar. Við erum mjög upptekið fólk og setjumst því sjaldan niður til að borða saman kvöldmat. Ég sé um að elda það sem ég borða og ef maðurinn minn vill borða það er honum það velkomið en ég er ekki að elda kjöt heima hjá mér.“

Gaman að eldamennsku

Hulda sér um mötuneyti Íslandsbanka á Akureyri en hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á eldamennsku. „Ég hef eldað frá því ég var ellefu ára. Þá ákváðu mamma og pabbi að fara út að skokka þrisvar í viku og ég sá um kvöldmatinn. Ég hef verið að elda síðan,“ segir Hulda en í mötuneytinu eldar hún allan mat. „En ég legg mikið upp úr því að vera með gott meðlæti ef maturinn sjálfur er ekki vegan. Þá fær fólk tækifæri til að prófa margt nýtt sem það fær ekki heima hjá sér.“

Hún segist hafa mjög gaman af að leika sér í eldhúsinu og prófa eitthvað nýtt. En er einhver réttur í uppáhaldi? „Já, það er hafragrautur,“ svarar Hulda glettin. „Ég borða hann yfirleitt á morgnana. Þá set ég frosin bláber undir heitan grautinn, kanil, hlynsíróp, mórber og hampfræ yfir. Mórberin eru ofsalega góð, og nánast eins og karamellur.“

Íþróttir og veganfæði fara vel saman

Hulda var valin kraftlyftingakona ársins 2018 enda náði hún frábærum árangri á árinu. Hún varð Íslandsmeistari í kraftlyftingum og bekkpressu, bikarmeistari í kraftlyftingum og bekkpressu, varð í áttunda sæti í -84 kg flokki á EM í kraftlyftingum og í fjórða sæti í -84 kg flokki á Western European Championship í kraftlyftingum. Þá hefur hún sett mörg Íslandsmet á árinu.

Hulda hefur sannarlega þaggað niður í þeim röddum sem segja að íþróttafólk geti ekki náð árangri á grænmetisfæði eingöngu. „Mér gengur rosalega vel, og mun betur eftir að ég varð vegan. Ef maður skoðar mataræði hjá íþróttafólki sér maður að því er skipt upp þannig að það borðar frekar hátt kolvetnamagn, mikið af próteini og minnst af fitu. Þessi uppsetning hentar mjög vel þegar maður er vegan. Svo eru máltíðirnar aldrei þungar og því er ég aldrei á meltunni að reyna að æfa.“

Hún segist pæla töluvert í því að borða eftir því sem líkaminn þarf á að halda fyrir æfingar. „En ég er líka mikill sælkeri og fæ mér alveg kökur og slíkt sem ég þarf ekki,“ segir hún glettin.

En er hún með einhver ráð til þeirra sem vilja gerast vegan? „Að gera þetta hægt og rólega og vera ekki að stressa sig yfir því að gera einhverja vitleysu. Það sem hefur bitnað mest á fólki sem ég hef verið að aðstoða er þetta stress yfir því að gera hlutina ekki rétt. En allt stress hefur áhrif á meltinguna. Best er því að vera svolítið slakur yfir þessu.“