Í nýjum heimildarþáttum á A&E sjónvarpsstöðinni, kemur fram að Hugh Hefner hafi átt safn kynlífsmyndbanda sem hann hafi tekið upp á setrinu, án samþykkis hlutaðeigandi aðila. Bæði af sjálfum sér með sínum bólfélögum en einnig af frægu fólki sem stundaði kynlíf á Playboy-setrinu.

Bandaríski vefmiðillinn TMZ birtir viðtal við Sondru Theodore, fyrrverandi kærustu Hefners. Hún segir þar að Hefner hafi kvikmyndað hér um bil alla, að henni sjálfri meðtalinni. Sondra segist hafa fengið áfall þegar hún áttaði sig fyrst á málavöxtum.

Þóttist stöðva upptökur

Í viðtalinu segir Sondra að þegar hún var með Hefner hafi þau gjarnan boðið öðrum konum að vera með í svefnherberginu, og mörgum þeirra hafi fundist óþægilegt að hafa upptöku í gangi. Hefner hafi þá þóst slökkva á myndavélunum, en hafi aldrei stöðvað upptökuna.

Í heimildaþáttunum er einnig vitnað í fyrrum einkaþjón Hefners, sem segir að hann hafi tekið upp kvikmyndastjörnur og íþróttafólk stunda kynlíf á setrinu, og með þeim upptökum hafi hann öðlast gríðarleg völd.

Vikuleg vændiskvöld

Í heimildarþáttunum kemur fram að Hugh Hefner hafi staðið fyrir vikulegum „Galtarkvöldum,“ eða „Pig nights“ á fimmtudagskvöldum, þar sem hann átti viðskipti við tvo vændissala, sem fóru með umboð fyrir tugi vændiskvenna frá Sunset Blvd. Kvöldin voru einskonar matarboð sem leiddust síðan út í kynlífsveislur. Í heimildarmyndinni segir að vændiskonurnar hafi fengið einkunn, ásamt því að gangast undir læknisskoðun, áður en þær voru sendar út í kynlífsþjónustu fyrir fræga karla.

Fyrsti hluti heimildarþáttanna er frumsýndur í dag á bandarísku A&E sjónvarpsstöðinni.