Kvikmyndir

Retfærdighedens ryttere

★★★★★

Leikstjórn: Anders Thomas Jensen Aðalhlutverk: Mads Mikkelsen, Nikolaj Lie Kaas, Andrea Heick Gadeberg, Lars Brygmann, Nicolas Bro.


Daninn Mads Mikkelsen er náttúrlega með ólíkindum góður leikari og tvær síðustu myndir hans, Druk og Retfærdighedens ryttere, taka af öll tvímæli um að hann er alfarið okkar maður en í þeirri síðarnefndu er hann mættur til leiks í algeru toppformi og hefndarhug.

Mikkelsen er nánast óþekkjanlegur, snoðaður og gráskeggjaður, í hlutverki hermannsins Markus sem þarf óvænt að drífa sig heim frá átakasvæði til þess að sinna unglingsdóttur sinni, Mathilde, sem lifði af lestarslys sem kostaði móður hennar og eiginkonu hans lífið.

Afsönnun tilviljunar

Markus er að vísu ekki líklegur til að geta gert mikið fyrir stúlkuna þar sem hann er, tilfinningakrepptur í keng, eins og eitraður karlmaður af gamla skólanum og ákveður því eðlilega að þau eigi að takast á við sorgina með þögninni. Það er að segja þangað til tölfræðingurinn Otto bankar upp á og setur af stað vægast sagt klikkaða atburðarás.

Otto þessi hefur nánast reiknað frá sér allt vit með þráhyggjukenndum tilraunum til þess að setja tilviljanir í rökrétt samhengi og situr uppi með að hafa lifað lestarslysið af fyrir algera tilviljun eftir að hafa boðið eiginkonu Markusar dauðasætið sitt.

Fyrirliðinn Mads Mikkel­sen er öflugur leiðtogi lúðanna sem villast út í tilviljanakenndan hefndarleiðangur. Mynd/Zentropa

Hann telur sig hins vegar hafa komist að því með yfirvegaðri rökleiðslu að slysið var ekkert slys heldur þaulskipulagt morð á lykilvitni í réttarhöldum gegn stórhættulegu mótorhjólagengi, Riddurum réttlætisins.

Formúlur og fagrar vélbyssur

Markus stekkur á kenningu Ottos enda veit hann vel, sem einhvers konar nútíma Egill Skalla-Grímsson, að ekkert slær betur á sorgina en að finna einhvern sem hægt er að hefna sín á.

Einkennilegan hefnendahópinn fylla síðan tveir félagar Ottos, hakkarar og tölvuséní, sem eru í það minnsta hálfu skrýtnari en hann sjálfur en sameinaðir þrengja þeir að meintum lestarmorðingja og vélhjólahyskinu þannig að Markus fær að láta verkin tala í trylltum hefndarhug.

Þarna hrekkur gráglettin og afskaplega hjartnæm kómedía um skrítna karla í kreppu í fimmta gír og snýst upp í skemmtilega ofbeldisfullan og blóði drifinn tilvistarheimspekilegan óð til lífsins sem gengur aldrei fullkomlega upp. Alveg sama hvaða sviðsmyndir eru dregnar upp og reiknikúnstum er beitt þá verður lífið alltaf óreiða.

Dásamlegir klikkhausar

Nikolaj Lie Kaas leikur Otto en þeir Mikkelsen eru verðskuldað meðal dáðustu leikara Dana og hafa áður farið á kostum undir stjórn Thomas Jensen. Til dæmis í Blinkende lygter og De grønne slagtere.

Raunsæið er ekkert að trufla söguþráðinn og allt er vel þetta vel ýkt og sérvitrar persónurnar hanga mikið til saman á sígildum grínklisjum.

Þegar þeir Lars Brygmann og Nicolas Bro, sem síðast sást til í hinum mögnuðu þáttum DNA, bætast í hópinn í hlutverkum hinna furðufuglanna tveggja, Lennart og Emmenthaler, má með sanni segja að Mikkelsen fari hér fyrir danska karlalandsliðinu í kvikmyndaleik.

Allir eru þessir menn misflóknir rembihnútar tilfinninga og í raun alveg ofboðslega tragískar persónur en það er svo sem eftir djöflinum dönskum að komast upp með að bregða spéspegli á andlegar þjáningar þolenda mansals, kynferðislegrar misnotkunar og eineltis.

Stærðfræðidæmisögur

Riddarar réttlætisins er rökfræðilega ruglaður og brjálæðislega skemmtilegur bræðingur kostulegrar persónustúdíu, heimspekilegs hefndardrama og geggjaðrar gamanmyndar með mátulega subbulegum ofbeldisgusum þannig að skammt er milli skellihláturs, spennu og sárra tilfinninga.

Raunsæið er ekkert að trufla söguþráðinn og allt er þetta vel ýkt og sérvitrar persónurnar hanga mikið til saman á sígildum grínklisjum með óvenjulega hæfileika, jafnvel næstum ofurkrafta, sem gott getur verið að búa yfir þegar glensið rennur út í grimmilegan hasarharmleik.

Því fer þó fjarri að Riddarar réttlætisins sé aðeins grín og hefndardrama heldur eiginlega þvert á móti og rétt eins og stærðfræðilúðarnir reikna sig niður öngstræti tilveru með óendanlegt flækjustig hverfast heimspekilegar pælingar myndarinnar um tilgangsleysi hefndarinnar, merkingarleysi atburða, markleysi tilviljana og gagnsleysi reiðinnar.

Niðurstaða: Tragískur en drepfyndinn ofbeldisfarsi með Mads Mikkelsen fremstan meðal jafningja. Gott bíó verður ekki mikið betra.