Hallgrímur Sigurðarson, matreiðslumeistari á Akureyri, eða Halli eins og hann er kallaður, er einn af fjölmörgum aðdáendum þorramatarins. Hann segist alltaf hlakka til þessarar árstíðar og fær sér reglulega þorramat meðan á þorranum stendur. „Ég er alinn upp við þennan mat og finnst hann góður,“ segir hann. „Þorramatur var alltaf á boðstólum hjá foreldrum mínum. Faðir minn var mjög ánægður með þennan tíma árs. Það stóð tunna úti á svölum þar sem geymt var saltað hrossakjöt og fleira góðgæti. Mér fannst mjög spennandi að fá að fara út og sækja bestu bitana. Foreldrar mínir voru báðir úr sveit, Norðlendingar í húð og hár. Sjálfur er ég hreinræktaður Akureyringur,“ segir Halli og bætir við að það hafi alltaf skapast mikil stemming á þorranum í bænum.

Fjör í sveitunum

„Hér er stórt landbúnaðarhérað og ég hef alltaf tengt þennan árstíma við mat. Ég hef margsinnis farið á þorrablót hér í sveitunum og verð að segja að það er miklu meira fjör þar en inni í bæjum. Svona meira ekta. Ég hef ekki oft unnið sem kokkur á þorrablótum en það hefur komið fyrir,“ segir hann.

„Það er afar sérstök stemming á þorrablótum í sveitinni. Hér inni í Eyjafjarðarsveitinni eru skemmtileg þorrablót þar sem menn gera gjarnan grín hver að öðrum. Oft er þetta persónuleg gamanyrði og mikið hlegið. Margar skemmtilegar sögur eru látnar fjúka á svona kvöldum. Fólk er tilbúið til að sleppa sér og hafa gaman. Það tíðkast gjarnan í Eyjafirðinum að fólk kemur með sitt eigið trog sem geymir eitt og annað sem fólk hefur verið að búa til heima. Aðrir fá síðan að smakka á veitingunum.

Fjölskylda konu minnar, Þóru Hlynsdóttur, er ættuð innan úr firði og mér fannst alltaf mikil stemming að setja í trogið með tengdamömmu og skunda svo á þorrablót. Hún hafði alltaf kaldar kótelettur í raspi með í troginu sem mér fannst skrýtið en það var vinsælt. Oftar en ekki eru einhverjir úr sveitinni sem troða upp og það er mikið dansað,“ segir hann.

Glæsilegur þorramatur hjá Hallgrími eins og sjá má. Hann er hrifinn af súrmat, meðal annars sviðasultunni.

Hákarlinn ómissandi

Sjálfur borðar hann allan þorramat. „Mér finnst súrsaður matur mjög góður. Hvort sem það er slátur, hrútspungar, sviðasulta eða lundabaggar. Síðan er hákarlinn algjörlega ómissandi með góðum snafs. Við pabbi vorum oft staðnir af því að vera inni í bílskúr að gæða okkur á hákarli og brennivíni. Þá var oft líka magáll á borðum. Við vorum ekki taldir húsum hæfir með þetta inni í stofu,“ segir Halli og brosir þegar hann minnist þessa tíma.

„Lyktin hefur aldrei truflað mig,“ bætir hann við. „Mér finnst að Íslendingar eigi að halda í þessa hefð. Það má vera skötulykt á Þorláksmessu eða hákarlslykt á þorra. Við eigum að upphefja þennan sið og kenna unga fólkinu að útbúa og borða þorramat. Matreiðslumenn þurfa líka að læra að verka þennan mat. Við borðum alltaf þorramat hér heima og dóttir mín sem er að verða átta ára finnst hann góður.“

Halli rifjar upp að þessi gamla geymsluaðferð að súrsa mat, salta eða reykja hafi komið til vegna þess að engir voru ísskápar eða frystar í gamla daga. „Þorrinn var upphaflega miðsvetrarhátíð. Orðið þorramatur eða þorrablót verður ekki til fyrr en árið 1960 þegar Naustið fór að bjóða upp á slíkt. Það var gert fyrir fólk sem hafði flutt úr sveitum til borgarinnar. Þorrablótin urðu strax mjög vinsæl og ýmis átthagafélög fóru að koma saman og blóta þorra.“

Harðfiskurinn er algjörlega ómissandi á borðum, segir Halli. FRÉTTABLAÐIÐ/AUÐUNN

Þorrablótið heima í ár

Engin fjölmenn þorrablót verða haldin á þessu ári svo margir eiga líklega eftir að færa það í heimahús. „Það verður örugglega mikill söknuður í sveitunum þar sem sterk hefð er fyrir þorrablótum. Fólk hlakkar alltaf mikið til þessara blóta. Réttir og þorrablót eru alveg sérstakir viðburðir hjá bændum. Eins konar hápunktar ársins.“

Kokkurinn var að undirbúa heimaþorrablót þegar ljósmyndara bar að garði. „Ég er að elda rófustöppuna, taka til hákarlinn, sviðasultuna og hangikjötið. Síðan er ég alltaf með síld og rúgbrauð að ógleymdum harðfiskinum sem er ómissandi. Mér áskotnaðist þetta frábæra tvíreykta geitalæri frá góðum vini mínum og kollega. Hann færði mér geitalæri um jólin og það verður haft á borðum. Auk þess er ég með magál og laufabrauð. Þetta verður veisla,“ segir Hallgrímur sem rekur krá á Akureyri sem heitir R5.

Hann segir að það hafi verið erfitt að reka bar síðustu mánuði vegna sóttvarnareglna. „Staðurinn hefur verið lokaður en í staðinn hef ég verið að dytta að honum, mála, smíða og þess háttar. Ég er ekki með veitingar á barnum svo mér var gert að loka. Ef ég hefði boðið upp á samlokur hefði ég lent í öðrum flokki,“ segir hann.

Tvíreykt geitalæri sem Halli fékk að gjöf frá góðum vini og kollega. Kjötið var taðreykt á gamla mátann í Kjós.

Þættir á N4

Halli segist sakna þess að vera ekki í eldhúsi en hann rak lengi veitingastað í Menningarhúsinu Hofi. Hann slasaðist illa í alvarlegu vélsleðaslysi fyrir nokkrum árum og hefur ekki náð sér að fullu. Halli á því erfitt með að standa allan daginn við pottana. „Ég er ekki bógur í miklar stöður og hlaup eins og tíðkast í eldhúsum veitingastaða,“ segir hann. „Þar sem kollurinn er í lagi gæti ég hins vegar stjórnast eitthvað og unnið við aðra þætti veitingamennskunnar. Ég hefði mikinn áhuga fyrir því,“ segir Halli sem var um tíma með ferða- og matargerðarþætti á sjónvarpsstöðinni N4.

„Það var ákaflega spennandi verkefni. Ég fór um landið, helst á fáfarna staði og spjallaði við fólk um mat. Merkilegt hvað fólk var að dunda við í matargerðinni víða um landið, margt spennandi. Ef tækifæri byðist til að halda slíku áfram væri það spennandi. Það er svo margt að gerast og gaman að kynna Ísland fyrir Íslendingum. Þrátt fyrir langan feril sem matreiðslumaður finnst mér alltaf gaman að fást við mat og elda gjarnan heima. Mér finnst gaman að prófa eitthvað nýtt og elda sjaldan sama matinn tvisvar.

Ef fólk ætlar að halda þorrablót heima núna á skrítnum tímum mæli ég með að prófa allt. Reynið að fá trog og gerið þetta alvöru. Ekki sjóða pasta fyrir börnin eða panta pitsu heldur kenna þeim að borða þennan mat. Hangikjöt og saltkjöt er vinsælt hjá flestum og um að gera að hafa það með. Ekki gleyma harðfiskinum.“