Ungt breskt par, hin nítján ára gamla Rachel Kennedy og 21 árs gamli Liam McCrohan frá Hertfordskíri væru í dag milljarðamæringar ef að síðasta greiðsla þeirra í Eurojackpot hefði farið í gegn. Það er breska götublaðið The Sun sem greinir frá þessu.
Þar segir að parið hafi verið algjörlega miður sín þegar þau komust að því að allar áskriftartölur þeirra í lottóinu hefðu komið upp síðustu helgi, tölurnar 6,12,22,29,33,6 og 11. Parið hafði keypt áskrift fimm vikum fyrr og alltaf notað sömu tölurnar.
Segir að reikningur Rachel hafi verið skráður fyrir greiðslunum. Það var hinsvegar ekki nóg inná honum fyrir greiðslu í síðustu viku og því fór sem fór. Vinningsféið að þessu sinni voru 182 milljónir breskra punda eða því sem nemur rúmum 32,5 milljörðum íslenskra króna.
„Ég var algjörlega í skýjunum þegar ég hélt að ég hefði unnið en þegar ég komst að því að ég hafði ekki unnið, þá var Liam reyndar meira miður sín en ég,“ segir hún. Hún útskýrir að Liam, sem er í hagfræði í háskólanum, hafi verið farinn að ráðstafa meintu vinningsféi þeirra.
„Hún var frekar róleg yfir þessu en ég hafði eiginlega eytt þessu öllu í huganum,“ segir hann í samtali við breska götublaðið. Bæði tjáðu þau sig um málið á samfélagsmiðlum sínum, líkt og má sjá hér að neðan.
