„Ég er ekki að reyna að spila einhvern svakalegan harðjaxl, en ég bara orðinn of vanur að harka allt af mér,“ segir Kristján Einar Sigurbjörnsson í svari til fylgjanda á Instagram í gær, spurður hvort hann hafi grátið eftir fangelsisvistina á Spáni.

„Það mun koma að því, einn inni á baðherbergi að ég mun algjörlega brotna,“ segir Kristján: „Ég er mjög mikil tilfinningavera og tilfinningaríkur, það er bara spurning um hverjum ég sýni það.“

Líkt og fjölmiðlar hafa greint frá sat Kristján inni í um átta mánuði eftir að hann var handtekinn eftir að hann lenti í slagsmálum fyrir utan skemmtistað á Malaga á Spáni í mars á þessu ári.

Að sögn Kristjáns gerði fangelsisvistin hann andlega sterkari. „Það styrkti hugann gígantísk að vera lokaðan inni með hausnum svona lengi sem lætur þig fara inn á við, og gerir þig mentally strong.“

Kristján er þó bjartsýnn um að koma sér á góðan stað andlega, þrátt fyrir að hafa upplifað erfiða hluti sem rista djúpt: „Ég vona það allavegana,“ segir hann.

Spurður hvaða lærdóm hann dragi af ferlinu segir Kristján að hann ætti aldrei að fara til Spánar.