Jónatan Hermannsson, eldri borgari í Reykjavík, á í einstöku vinasambandi við gula hefðarköttinn Flækjufót sem flutti fyrir tæpum tveimur árum búferlum til Finnlands ásamt Gunnhildi, dóttur Jónatans, og eiginmanni hennar.

Vinirnir hafa ekki sést síðan þá en sambandið sem hafði myndast milli þeirra í Þingholtunum rígheldur yfir hafið og gagnkvæmur söknuður manns og kattar er slíkur að Jónatan ákvað um jólin að senda málleysingjanum bréf á því sem hann kallar „lyktarmál“. Eitthvað sem kötturinn skilur greinilega því hann tók skilaboðunum vægast sagt fagnandi.

Drottnað yfir Spítalastíg

Jónatan segir köttinn hafa verið konung Spítalastígs og Óðinsgötu, sannkallaðan hefðarkött. „Hann gætti umfram allt virðingar sinnar og heilsaði mér eins og hann væri stjórnarerindreki. Við urðum nákunnugir og heilsuðumst jafnan þannig að ég rétti honum alltaf alla fingur hægri handar sem hann þefaði af og þekkti sinn góða vin.“

Facebook-færsla Jónatans um vináttu þeirra félaganna hefur vakið mikla athygli og falleg viðbrögð en rúmlega 900 manns hafa brugðist við henni. „Hér er einhver sú hjartnæmasta saga af samskiptum (og sú eina af fjarskiptum) manns og kattar sem ég hef heyrt,“ sagði til að mynda félagi í Facebook-hópi kattaaðdáenda og dýravina.

Flækjufótur lætur tuskuna ekki úr augsýn.
Mynd/Gunnhildur Jónatansdóttir

Söknuður

„Ég hef margsinnis beðið að heilsa loðna vini mínum yfir hafið en veit að skilningur hans á mæltu máli er afar takmarkaður og fór ég því að skrifa honum bréf um jólin á máli sem ég vissi að hann mundi skilja,“ heldur Jónatan áfram léttur í bragði.

„Ég þæfði tuskuna hans kisa míns milli fingra í hálfan mánuð þegar ég var á göngu um Seltjarnarnesið og hugsaði alltaf um það að ég væri að skrifa bréf á lyktarmáli,“ útskýrir hann.

Loðinn sendiherra

Gunnhildur flutti til Finnlands í ársbyrjun 2020 ásamt írskum eiginmanni sínum þangað sem hann fór til starfa fyrir írsku utanríkisþjónustuna og Jónatan bendir á að Flækjufótur hafi þannig í raun fengið embætti írsks sendiráðs­kattar í Finnlandi.

„Þannig að ég bjó um tuskuna eins og sendibréf og skrifaði utan á. Gunnhildur færði honum þetta svo þegar hún fór heim til Finnlands á mánudaginn eftir stutta áramótaheimsókn,“ segir Jónatan sem lumaði á tusku sem Flækjufæti hafði verið kær á Íslandi.

Flækjufótur var því enga stund að átta sig á að á ferðinni væri bréf til sín. „Þegar honum var hjálpað við að opna bréfið lagðist hann umsvifalaust á tuskuna og andaði að sér ilminum að heiman með augun lokuð,“ segir Jónatan hrærður yfir viðbrögðum kattarins.

„Með augun lokuð, faðmar hann tuskuna og þrýstir henni að vitum sér. Þarna er allt sem honum þótti svo vænt um í gamla landinu sínu,“ segir Jónatan sem er himinlifandi yfir viðbrögðum síns ferfætta félaga við skilaboðunum sem báru með sér kunnuglega angan af Íslandi og honum sjálfum yfir hafið.