Elva Dögg er uppistandari og mikill húmoristi. „Hópurinn My Voices Have Tourettes hefur starfað saman í eitt ár og er alltaf að þróast,“ segir hún. „Við erum öll með einhvers konar tauga- eða geðræna röskun. Þunglyndi og kvíði fylgja oft samhliða slíkum röskunum. Við höfum því þurft að takast á við fylgikvillana líka. Við vorum þrjú sem byrjuðum í upphafi, ég, Dan Zerin og Hanna Proppé Bailey. Við Dan erum bæði með Tourette, ég að auki með ADHD og hann athyglisbrest. Bæði erum við með áráttu- og þráhyggjuröskun en Hanna er með geðklofa. Fyrsta uppistandið var á Reykjavík Fringe Festival en það gekk svo vel að við ákváðum að halda áfram þótt þetta hafi í upphafi bara átt að vera þjár sýningar. Hanna flutti síðan til Skotlands síðastliðið haust þar sem hún stundar nám. Þá vantaði fleiri í hópinn og Þórhallur Þórhallsson kom til liðs við okkur en hann þjáist af mikilli kvíðaröskun. Einnig kom Stefnir Benediktsson í hópinn en hann glímir við geðhvörf og einhverfu,“ útskýrir Elva Dögg og bætir við að þar utan hafi nokkrir aðrir uppistandarar stundum verið með. „Á sýningunni á föstudag verða Þorgerður María og Hans með mér ásamt Dan. Þau eru bæði ótrúlega fyndin og skemmtileg.“

Með húmorinn í lagi

Elva Dögg hefur tekist á við einkenni Tourette-sjúkdómsins frá barnæsku. Árið 2011 fór hún í aðgerð á heila sem gerð var heimildarmynd um á sínum tíma. Aðgerðin tókst ágætlega en Elva Dögg hefur lært að lifa með sjúkdómnum og lítur á hann sem hluta af tilveru sinni. Hún notar húmorinn til þess. „Þegar rætt er um geð- og taugaraskanir er það venjulega gert í alvarlegum tóni. Það er alveg skiljanlegt því þetta eru ekki auðveldar raskanir. Ekkert hefur verið auðvelt hjá þessum hópi í lífinu. Við erum samt svo heppin að hafa náð að þróa með okkur húmor sem léttir okkur og öðrum lífið. Þótt við göntumst með veikindin gerum við það með virðingu og erum alls ekki að gera grín að sjúkdómnum sem slíkum. Það eru miklu frekar aðstæður og uppákomur sem geta komið upp hjá fólki með raskanir sem geta verið fyndnar. Það er fullt af fyndnum hlutum sem gerast þegar maður er með Tourette,“ segir Elva Dögg og bætir við að það megi alveg hlæja að þeim. „Okkar hugsjón er að gera raskanir eðlilegar. Fólk miðar allt við normalið þótt fáir passi reyndar inn í það mengi. Hópurinn vill víkka út þetta normal svo allir passi inn í það.“

Mörg verðlaun

My Voices Have Tourettes skemmtunin fer fram á ensku. „Við höfum fengið frábærar undirtektir og margir hafa komið til okkar eftir sýningar til að þakka okkur fyrir. Við erum mikið beðin um að koma með sýninguna til annarra landa, sérstaklega hafa Bretar og Bandaríkjamenn verið áhugasamir. Í maí fórum við á Fringe-hátíð í Finnlandi en þar unnum við tvenn verðlaun. Síðan vorum við að koma heim frá Fringe-hátíðum í Gautaborg og Stokkhólmi þar sem við unnum einnig til verðlauna. Við finnum að það er mikil þörf fyrir svona uppákomur. Alls konar fólk kemur og horfir á okkur og sumir koma aftur og aftur. Við troðum upp á hverju fimmtudagskvöldi í Secret Cellar í Lækjargötu sem er æðislegur staður og alltaf fullt hús.“

My Voices Have Tourettes hefur hlotið svo frábærar viðtökur að óskað hefur verið eftir hópnum í framhaldsskóla og á stóra vinnustaði. Elva Dögg segir að það hafi gefið henni gífurlega mikið að starfa með hópnum. „Ég hef verið opin með Tourette-ið mitt lengi. Síðasta ár hef ég vaxið ótrúlega sem manneskja og uppistandari. Sjálfsmynd mín hefur styrkst og satt að segja finnst mér orðið skrítið ef fólk er hissa á þessum Tourette-einkennum mínum. Það hefur orðið viðhorfsbreyting hjá sjálfri mér gagnvart sjúkdómnum. Sem betur fer er viðhorf annarra líka að breytast og umræðan orðin opnari. Mér líður alltaf betur og betur,“ segir Elva Dögg.

Unnið með Tourette

Það má með sanni segja að Elva Dögg hafi unnið með sjúkdómnum til að læra að lifa með honum. „Lífið er óútreiknanlegt. Það getur farið með mann í einhverja allt aðra átt en maður hafði áður látið sig dreyma um. Allt í einu var ég komin á svið með sýningu og fékk frábærar móttökur. Ég er mjög sátt við lífið í dag og uppistandið hjálpar mér mikið, ég var þá ekki ömurleg í öllu,“ segir Elva en þannig hugsanir sóttu mikið á hana áður fyrr.

Áður en Elva Dögg og Dan stofnuðu My Voices Have Tourettes hafði hún verið með hópi í uppistandi sem nefnist Hjólastólasveitin en í henni voru allir aðrir í hjólastól. „Ég var nógu skrítin til að fá að vera með,“ segir hún og hlær. „Það var ómetanleg reynsla að vera með þeim. Það var mikill stuðningur í þessum hópi og ég fékk að kynnast heimi þeirra sem þurfa að sættast við að vera í hjólastól. Upp frá því fékk ég mikinn áhuga á málefnum fatlaðra og nú er ég í stjórn Öryrkjabandalagsins og Tourette samtakanna. Ég finn mig vel í þessu starfi og reyni að gera gagn,“ segir Elva Dögg sem hefur einnig verið greind með ADHD og áráttu- og þráhyggjuröskun.

„Það koma stundir þar sem ég vorkenni sjálfri mér og vildi að þessar raskanir væru ekki til staðar. Svo rjátlast það af mér og þá hugsar maður bara um þetta jákvæða sem hægt er að gera þrátt fyrir þær,“ segir Elva Dögg og er ákaflega ánægð með framtak Geðhjálpar að halda klikkaða menningarhátíð. „Geðheilbrigði er mjög mikilvægt en því miður er ekki nægilegur skilningur hjá heilbrigðisyfirvöldum á þessum málaflokki. Fordómar eru miklir í þjóðfélaginu gagnvart alls kyns röskunum og örorku. Öll umræða um geðheilbrigðismál er því afar jákvæð,“ segir Elva Dögg.