Þorbjörg Hafliðadóttir er sjö ára gömul og verður bráðum átta. Hún hefur alltaf nóg að gera við að leika sér og auðvitað læra.

Hvaða tímar finnst þér skemmtilegastir í skólanum, Þorbjörg?

Myndlist - mér finnst svo gaman að teikna, mála og föndra. Líka morgunsöngurinn.

Áttu þér uppáhaldslag?

Já, það er lagið Maístjarnan - mér finnst svo gaman að syngja það.

En hvernig leikur þú þér helst?

Mér finnst mest gaman að teikna og föndra, syngja og fara í hárgreiðsluleik með vinkonum mínum.

Ertu að læra á eitthvert hljóðfæri?

Já, ég er að læra á víólu.

Hvernig hljóðfæri er það?

Það er lágfiðla sem er svolítið stærri en venjuleg fiðla og hljómar dýpra.

Hver er besta bókin sem þú lesið eða heyrt lesna?

Bókin Sigurfljóð hjálpar öllum eftir Sigrúnu Eldjárn er í uppáhaldi hjá mér af því að Sigurfljóð er svo dugleg að hjálpa öllum og mér finnst það frábært.

En hvaða dýr í heiminum er í mestu uppáhaldi hjá þér?

Hvolpar af því þeir eru svo krúttlegir - og líka kettlingar og kanínur.

Hefur þú ferðast eitthvað um Ísland?

Já, ég hef ferðast um mestallt landið fyrir utan Vestfirðina. Ég fer samt oftast norður til Akureyrar bæði til að fara á skíði og þar að auki á ég marga ættingja þar.

Hvað er það skrítnasta eða sniðugasta eða merkilegasta sem hefur komið fyrir þig?

Ég hef sofnað á ýmsum skrýtnum stöðum, til dæmis standandi í ísbúð, sitjandi á klósettinu og í hnipri ofan á eldhússtól.

Hvað langar þig mest að verða þegar þú verður stór?

Mig langar allra mest að verða söngkona.