„Ég er 32 ára móðir með mastersgráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði og er uppalin grænmetisæta en er núna vegan,“ segir Hildur. „Foreldrar mínir voru orðnir grænmetisætur af siðferðislegum ástæðum áður en ég fæddist og þar af leiðandi var ég alin upp sem grænmetisæta og er þeim ævinlega þakklát fyrir það.“

Dýrin voru alltaf vinir

„Það var ekkert mál fyrir mig persónulega að vera grænmetisæta. Í mínum huga tengdi ég aldrei dýr við mat svo ég þurfti aldrei að slíta þá tengingu eins og þeir sem gerast grænmetisætur seinna á lífsleiðinni. Það var alltaf nóg framboð af góðum mat og dýrin voru ekkert annað en vinir mínir,“ segir Hildur um æskuárin.

„Það sem var kannski helst erfitt en um leið lærdómsríkt var að ég var oftast eina grænmetisætan og þetta þótti sérstakt og því þurfti ég snemma að læra að svara fyrir lífstíl minn.“ Hún segir margt hafa breyst í þessum málaflokki undanfarin ár. „Meiri vakning og fleiri sýna áhuga. Svo hefur auðvitað vöruúrvalið breyst gífurlega.“

Eftir að flytjast búferlum til Svíþjóðar fór Hildur fljótlega að fikra sig nær veganisma. „Fyrir rúmlega sjö árum flutti ég til Svíþjóðar og þar var veganismi orðinn mjög „main stream“ og ósjálfrátt vorum við farin að sniðganga mjólkurvörur og egg en við gerðum undantekningar ef einhver skildi bjóða okkur í mat til að vera ekki með „vesen“.“

Ný tenging eftir brjóstagjöf

Í kjölfar móðurhlutverksins varð Hildur svo fyrir ákveðinni hugljómun. „En fyrir tæplega þrem árum eignaðist ég barn og í kjölfar brjóstagjafar þá varð tengingin við mjólkurvörur svo skýr að ég gat ekki hugsað mér fleiri undantekningar.“

Hún segir veganisma opna nýjan heim valmöguleika. „Það er auðvitað mikilvægt að allir passi uppá helstu næringarefnin, ekki bara veganar. Í raun er vegan matarræði svo gífurlega fjölbreytt og flestir sem breyta yfir í vegan mataræði uppgötva margar næringarríkar matvörur sem þeir höfðu aldrei smakkað.“

Þá sé allur gangur á því hversu vel er komið til móts við börn sem neyta ekki dýraafurða. „Það er í raun ekkert mál ef þú ert heppin/n með leikskóla- eða skólamötuneyti. Því miður stendur það ekki öllum börnum til boða fá vegan mat í sínu mötuneyti sem getur haft í för með sér auka álag á foreldrana og sömuleiðis börnin. Einnig finnst mér að orðalag í ráðleggingum frá landlæknisembættinu mætti betur fara. Það ýtir undir óöryggi foreldra vem vilja ala upp börn sín á vegan mataræði.“

Snertir okkur öll

Hildur segir áríðandi að fólk leiði hugann að komandi kynslóðum og endurskoði þannig neysluvenjur sínar. „Vegan mataræði styður ekki aðeins dýravernd heldur er það einnig mikilvægur þáttur í að draga úr loftslagsáhrifum. Loftslagsmál snerta okkur öll og afkomendur okkar svo það er mikilvægt að fólk sé meðvitað og taki ábyrgð á kjötneyslu sinni.“

Veganúar sé fremur vitundarvakning en átak. „Ég myndi ekki kalla Veganúar átak. Þetta er kannski frekar áskorun með það markmið að vekja athygli á málstaðnum og vonandi hafa áhrif á viðhorf fólks gagnvart veganisma. En vegan málstaðurinn kemur inn á svo margt, sem dæmi má nefna dýravernd, umhverfisvernd og einnig heilsu.“

„Ég mæli með að horfa á heimildarmyndir og fylgjast með vegönum á samfélagsmiðlum fyrir innblástur. Ég er dugleg að gefa matarhugmyndir og önnur vegan tips á instagram, @hilduromarsd. Svo mun ég opna síðuna graenframtid.is von bráðar.“

Hér er uppskrift frá Hildi að svokallaðri búddah skál sem er bæði ljúffeng og næringarrík.

Búddah skál með tófú og tahinisósu

Fyrir fjóra

Hráefni

1,5 bollar quinoa

1,5 bollar vatn

1 grænmetiskraftur

1 pakki tófú

3 msk tamarísósa

1 stór haus spergilkál

1 kúluhvítlaukur

3 forsoðnar rauðrófur

1-2 msk edik (hvítvíns/balsamik/epla)

Olía til steikingar og salt eftir smekk

Aðferð:

Sjóðið quinoa með grænmetistening. Reiknið með jafn miklu rúmmáli af vatni og quinoa.

Skerið tófú í litla kubba og steikið í 2-3 msk olíu (ca botnfylli í pönnu) þar til þeir fá á sig gylltari lit. Bætið svo tamarí sósunni út á pönnuna og veltið á pönnunni þar til tófúið hefur drukkið í sig alla sósuna.

Því næst eru forsoðnu rauðrófurnar skornar í bita og steiktar í smá olíu og ediki og leyft að malla í nokkrar mínútur.

Þá er spergilkálið skorið í grófa bita og létt steikt í olíu og hvítlauk. Smá vatni hellt á pönnuna og lok sett yfir og brokkólíinu leyft að mýkjast.

Tahini sósan:

125 gr ljóst tahini

1,5 dl vatn

1 1/2 msk safi úr sítrónu

1/8 tsk herbamare salt

1 rif hvítlauksrif

Aðferð:

Hráefni blandað saman í blandara eða með töfrasprota. Mæli með að setja vatnið smátt og smátt útí svo hún verði ekki of þunn.

Súrkál og tamarí ristuð sólblómafræð myndu líka passa einstaklega vel með.

Verði ykkur að góðu.