„Ég er búin að vera að vinna í strengjaútsetningum og er með selló, víólu og harmonikku með mér. Ég hef aldrei gert þetta áður svo þetta verður mjög sérstakt show. Mjög persónulegt og einstakt tækifæri,” segir Katla Vigdís, söngkona hljómsveitarinnar Between Mountains.

Á dögunum kom út fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar, sem ber einfaldlega nafnið Between Mountains, og er hljómsveitin með töfrandi stund í bígerð fyrir áheyrendur í kirkjunni í kvöld.

„Bróðir minn er að tromma og ég er búin að vinna þetta mjög mikið með honum og svo er pabbi á bassa...þetta er svona fjölskyldu kompaní.“

Aðspurð hvernig sé að vera með fjölskyldunni sinni í hljómsveit segir Katla:

„Það er rosa næs! Maður veit alltaf hvernig fólk er stemmt fyrir hlutunum og það er þægilegt að vinna með fólki sem þekkist svona rosalega vel.“

Tónlist er greinilega stór hluti af fjölskyldunni en Valgeri Skorri, trommari hljómsveitarinnar og bróðir Kötlu er jafnframt genginn til liðs við hljómsveitina Mammút sem spilar einnig á Iceland Airwaves í ár. Hann var einnig meðlimur í sigurhljómsveit Músíktilrauna 2015, Rythmatik, ásamt bróður þeirra, Hrafnkeli Huga en Between Mountains sigraði einnig keppnina árið 2017.

„Vissi alltaf að ég myndi byrja að semja eigið efni“

„Ég byrjaði á píanó sex ára og hef alltaf æft á píanó síðan. Ég tók pásu síðasta ár en byrjaði aftur því ég saknaði þess svo,“ segir Katla sem segist hafa verið svo heppin að læra hjá Dagnýju Arnalds í Tónlistarskóla Ísafjarðar. „Hún hjálpaði mér mikið og ýtti undir sköpunina hjá mér sem hefur alltaf verið í fyrsta sæti.“

„Ég hef ekki nennt að læra að lesa nótur því ég vissi alltaf að ég myndi byrja að semja mitt eigið efni.

Það mætti í rauninni segja að þetta sé plata númer tvö hjá mér því pabbi tók upp fimm laga barnaplötu með mér þegar ég var barn.“

Katla segir þó hlæjandi að platan sé ekki fáanleg eins og er. „Sem betur fer.“

Einnig verður hægt að sjá Between Mountains á Hressingarskálanum kl: 12:30 á morgun og á Hard Rock Cafe á laugardaginn klukkan 21:10.

„Það verður „full power show“ á Hard Rock meðan við ætlum að vera með svolítið sérstakt show í kvöld,“ segir Katla.

„Það er alltaf sérstakt að spila í Fríkirkjunni og það kemur alltaf á óvart hvað það eru margir erlendis frá sem eru að hlusta sem er rosa gaman. Yfir Airwaves líður manni eins og maður sé bara á góðri leið með að meikaða. Þarna er fólk búið að kynna sér tónlistina og ferðast til landsins til að koma að hlusta.“