Daði Freyr Péturs­son, keppandi Ís­lands í Euro­vision, hefur horft á allar Euro­vision keppnirnar að eigin sögn. Þetta kom fram í yfir­heyrslunni svo­kallaðri í út­varps­þættinum Brennslunni á FM957 í morgun þar sem Daði Freyr var gestur.

„Ég er Ís­lendingur sko,“ svaraði Daði um málið, enda keppnin lík­legast stærsti sjón­varps­við­burður á Ís­landi á ári hverju. Eins og al­þjóð veit mun Daði fara út með lagið 10 years, sem frum­flutt var um helgina. Þá segist hann hafa tekið þátt í Euro­vision drykkju­leik. „Aftur, ég er Ís­lendingur,“ segir hann léttur.

Hann segir að fyrir utan sín eigin Euro­vision lag sé lag Silvíu Nætur, Congra­tulations í upp­á­haldi. „Og reyndar líka Hea­ven með Jónsa,“ segir Daði. Að­spurður um sitt full­komna Euro­vision partý, segir Daði: „Það er þegar maður horfir á Euro­vision og það er gaman.“

Ætlar að lifa í mómentinu og sjá til

Þá segist Daði ætla að lifa í mómentinu og sjá til, spurður út í það hvernig hann hyggst bregðast við þegar Ís­land fær 12 stig í vor. Hann segist hafa ætlað að vera teiknari þegar hann var lítill.

„Planið var að teikna fyrir Don Rosa og Carl Barks, sem gera Andrés Andar­blaða­sögur. Þeir voru hetjurnar mínar og ég ætlaði svoldið að vera þeir bara,“ segir hann.

Daði, sem er 2,08 metrar að hæð, segist hafa ætlað að vera stærri en frændi sinn þegar hann var lítill. „Svo bara gleymdi ég mér að­eins,“ segir Daði léttur um málið.

Hans upp­á­halds er­lenda Euro­vision lag tekur breytingum hjá Daða. Hann segir að nú sé Eup­horia í upp­á­haldi. „Eins mörg og ég get,“ segir hann svo að­spurður að því hve mörg stig hann ætlar að fá á sviði í aðal­keppninni í vor.

Hlusta má á inn­slagið á FM957 hér.