Bandaríska Emmy-verðlaunahátíðin fór fram í 72. sinn í nótt og má með sanni segja að Watchmen, Succession and Schitt's Creek hafi verið sigurvegarar hátíðarinnar að þessu sinni.

Hin árlega sjónvarpsverðlaunahátíð var með breyttu sniði í ár vegna heimsfaraldurs kórónaveiru og talaði grínistinn Jimmy Kimmel auk annarra kynna fyrir nær tómu húsi í Staples Center í Los Angeles. Í stað þess að sjá spennuþrungna göngu sigurvegara upp að vel pússuðu sviðinu var í þetta sinn klippt yfir á heimili þeirra þar sem þeir fluttu sigurræður sínar með aðstoð fjarfundabúnaðs.

Kanadísku gamanþættirnir Schitt’s Creek frá Netflix slógu met á Emmy-verðlaunahátíðinni í nótt þegar þeir hrepptu verðlaun í níu gamanflokkum en engin gamanþáttaröð hefur verið jafn sigursæl á hátíðinni.

Þá hlaut Succession úr smiðju HBO alls níu verðlaun í dramaflokkum, þar á meðal fyrir bestu dramaþáttaröð og besta leik í aðalhlutverki.

Fékk Watchmen frá HBO verðlaun í ellefu flokkum en margir spáðu einmitt að þáttaröðin, sem byggist á vinsælum teiknimyndasögum, yrði sigursæl í nótt.

Netflix sló met í tilnefningum

Í ár beindu margir sjónum sínum að bandaríska sjónvarpsrisanum HBO eftir að hin sigursæla þáttaröð Game of Thrones lauk göngu sinni í fyrra.

Samhliða því hefur Netflix orðið sífellt fyrirferðameira á verðlaunahátíðum vestanhafs og hlaut til að mynda 160 tilnefningar í ár, mun fleiri en 107 tilnefningar HBO.

Sló Netflix þar með met í fjölda tilnefninga á Emmy-verðlaunahátíðinni.

Forsvarsmenn HBO geta þó vel við unað þar sem þættir úr þeirra smiðju hlutu alls 30 verðlaun á hátíðinni í nótt samanborið við 21 verðlaun Netflix.

Hér má nálgast lista yfir alla sigurvegara hátíðarinnar.