Ís­lendingar geta á næsta ári keypt að­gang að banda­rísku streymis­veitunni HBO Max en ná­kvæm dag­setning liggur ekki fyrir. Þetta kom fram í til­kynningu frá HBO Max í morgun en streymis­veitan opnar í Sví­þjóð, Finn­landi, Noregi, Dan­mörku, Spáni og Andorra þann 26. októ­ber. Hún leysir af hólmi fyrri streymis­veitur HBO í Evrópu.

Á næsta ári geta, auk Ís­lendinga, Hollendingar, Tyrkir, Portúgalar og fleiri Evrópu­þjóðir keypt sér á­skrift að HBO Max. Í Finn­landi og og Spáni verður boðið upp á tólf mánaða á­skrift á verði átta, sem er um 5,99 evrur á mánuði, um 900 ís­lenskrar krónur. HBO stefnir að því að bjóða upp á streymis­veituna í 190 löndum árið 2026.

Meðal þess sem verður í boði á HBO Max er efni frá HBO, Warner Bros, DC, Car­toon Network og Max Originals þættir, sem fram­leiddir eru sér­stak­lega fyrir streymis­veituna.

Á HBO Max geta á­skrif­endur horft á titla á borð við ofur­hetju­myndir Bat­man og Super­man, Harry Potter, The Lord of the Rings, The Joker, Game of Thrones, The Sopra­nos, Sex and the City, Gossip Girl og Fri­ends sem og mikinn fjölda barna­efnis. Auk þess verður boðið upp á mikið úr­val af evrópsku efni.

Á næsta ári verða þættirnir Hou­se of the Dragon, sem gerast í sama heimi og Game of Thrones, frum­sýndir á HBO Max en þeirra er beðið með mikilli eftir­væntingu.

Fyrsta stiklan úr þáttunum var birt í dag og hana má sjá hér að neðan.