Það er allt að gerast á Dalvík eftir að tökur hófust þar á fjórðu seríu bandarísku glæpaþáttanna True Detective sem skartar Jodie Foster í aðalhlutverki. Fréttablaðið hefur áður fjallað um í máli og myndum að búið er að gera hluta hans að sviðsmynd smábæjarins Ennis í Alaska en hermt er að tökuliðið tali nú um að bærinn sé í Dalaska en ekki Alaska.

Búið er að skrúfa rækilega fyrir samskipti þeirra sem að kvikmyndagerðinni koma við fjölmiðla og þannig tókst ekki að fá staðfest í gær hvort Jodie Foster væri að spóka sig um götur Dalaska. Þeirri spurningu og öðrum álíka er einfaldlega svarað með því að skrifa undir samning með þagnarákvæði.

Samherji upplýsti þó á heimasíðu sinni, samherji.is, í gær að kvikmyndatökuliðið væri búið að koma sér fyrir með skrifstofu og leikmyndadeild í gamla fiskvinnsluhúsi fyrirtækisins.

Fiskvinnsla í nýju hlutverki

Samherji.is hefur eftir verkefnisstjóra framleiðandans að fiskvinnsluhúsið sé algerlega sniðið að þeirra þörfum. „Og við erum afskaplega þakklát Samherja fyrir að hleypa okkur inn í húsið með tiltölulega skömmum fyrirvara.“

'ymis kennileyti á Dalvík benda til þess að þar sé fólk statt í Alaska, eða Dalaska eins og kvikmyndagerðarfólkið kallar bæinn.
Myndir/Aðsendar

Á vef Samherja kemur einnig fram að í gömlu fiskvinnslunni hafi kvikmyndagerðarfólkið fundið margar hentugar vistarverur og þannig sé gamli vinnslusalurinn orðinn að smíðaverkstæði.

Þá lætur verkefnisstjórinn hafa eftir sér að það sé hreint út sagt frábært að vera á Dalvík. Íbúarnir hafi tekið vel á móti þeim og lagt sig fram um að auðvelda þeim vinnu sína.

„Sömu sögu er að segja um sveitarfélagið og öll fyrirtæki, sem eru boðin og búin til að greiða götu okkar á allan hátt.“ Þá fylgir sögunni að ánægja tökuliðsins með bæinn og móttökurnar sé slík að þau grínist með að smábærinn Ennis sé í Dalaska en ekki Alaska. „Sem undirstrikar hversu heppin við erum með alla aðstöðu hérna á Dalvík,“ segir verkefnisstjórinn við Samherja.