Söngkonan, leikkonan og leikstýran Hayley Kiyoko mun koma fram á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í ár. Tónlistarhátíðin leggur sérstaka áherslu í ár á að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá sem inniheldur bæði karla og konur og fjölda hinsegin tónlistarfólks.

Hayley er fædd árið 1991 og er uppalin í Los Angeles í Bandaríkjunum. Hayley byrjaði ung að vinna sem fyrirsæta og leikkona og hefur meðal annars leikið í sjónvarpsþáttum eins og CSI:Cyber og XOXO frá Netflix. Hún hefur hitað upp fyrir Justin Bieber, sungið á sviði með Taylor Swift og var áður í stúlknahljómsveitinni The Stunners. 

Lengi dreymt um að spila í Evrópu

Þegar blaðamaður náði tali af henni var hún stödd á tónleikaferðalagi í Utah í Bandaríkunum.

„Það er vika eftir. Tónleikaferðalagið er búið að vera frábært. Ég er vön að vera á miklu minni stöðum þegar ég er að spila ein, en það er búið að vera mjög spennandi að spila á stórum tónleikastöðum að hita upp fyrir Panic at the Disco,“ segir Hayley Kiyoko í samtali við Fréttablaðið.

Hún segist mjög spennt að fara á tónleikaferðalag í Evrópu og hana hafi lengi dreymt um það. „Ég held að aðdáendur mínir hafi beðið lengi eftir að ég komi og það er mjög spennandi að loksins geta farið út um allt í Evrópu.“

Dyggir aðdáendur sem hafa fylgt henni í langa tíð

Þó Hayley sé aðeins 27 ára gömul hefur hún unnið að tónlistarferli sínum í langan tíma. 

„Í þrettán ár hef ég unnið að því að koma tónlistinni minni á framfæri. Síðustu sjö árin hef ég unnið að því að byggja aðdáendahóp minn og fá fólk til að uppgötva tónlistina mína. Ég leikstýrði myndbandinu fyrir Girls on girls og það varð „viral“. Eftir það hélt ég áfram að leikstýra myndböndunum mínum. Ég elska að skapa og að segja sögur.“

Hún segir að það sé auðvitað mikið breyting að fara frá því að spila aðeins fyrir nokkra tugi í að spila fyrir þúsundir en að aðdáendur hennar hafi ávallt stutt við hana og fylgt henni. Það fylgi því sérstaklega góð tilfinning að geta loks komið til Evrópu að hitta aðdáendur sína þar. 

„Mér líður eins og þetta sé stór stund, að komast loks á tónleikaferðalag í Evrópu eftir að hafa reynt það í svo mörg ár,“ segir Hayley.  

Ætti að vera eðlilegt að sjá stelpur saman

Hayley gaf út sína fyrstu plötu, Expectations, á árinu og hefur í kjölfar færslu á Twitter sem hún birti í byrjun árs með myllumerkinu #20GAYTEEN leitt byltingu meðal hinsegin fólks um að árið í ár sé ár breytinga fyrir hinsegin fólk.

Aðdáendur söngkonunnar vísa alla jafna til hennar sem hins lesbíska Jesú og þakka margir henni fyrir að standa með hinseginleika sínum með því að, til dæmis, syngja til stúlkna í stað stráka.

„Fyrir mig snýst það um að gera tilfinningar okkar sjálfsagðar innan samfélagsins, að það sé eðlilegt að sjá tvær stelpur saman eða að það sé eðlilegt að sjá stelpur bera tilfinningar hvor til annarrar. Í myndböndunum mínum reyni ég að fara að mörkunum og þannig að gera það sjálfsagt eftir þeim leiðum sem mér eru mögulegar. Það hefur verið mín leið til að þrýsta á breytingar í samfélaginu,“ segir Hayley.

Skiptir mestu máli að vera hún sjálf

Spurð hvað henni finnist um að aðdáendur hennar vísi til hennar sem hins lesbíska Jesú hlær hún og segir að svo lengi sem þau skemmti sér sé hún ánægð en það sem skipti hana mestu máli er að vera hún sjálf og koma sínum skilaboðum áleiðis.

„Þegar ég var yngri þekkti ég ekki fólk eins og mig sem líkaði við stelpur og í kjölfarið leið mér oft eins og ég væri ein. Ég er því að reyna að vera eins opinská og ég get með það hver ég er svo að fólk af yngri kynslóðum geti fyrr fundið sína hamingju og elskað sig sjálft,“ segir Hayley.

Halda ætti upp á „Pride“ alla daga

Hayley vissi ekki að tilkynnt væri um komu hennar samhliða því að Reykjavík Pride er í gangi en sagðist sérstaklega ánægð með að heyra það.

„Fyrir mér ætti ekki að halda upp á „Pride“ í eina viku á ári, það ætti að halda upp á það á hverjum degi. Fyrir mér stendur „Pride“ fyrir sjálfstraust og sjálfsást og ég hvet alla til að skora á sjálfa sig á þessu ári að elska sig meira þannig að þeim hætti að líða óþægilega í eigin skinni,“ segir Hayley að lokum.

Tilnefnd til tveggja VMA verðlauna

Eins og fyrr segir á Hayley viku eftir að tónleikaferðalagi sínu um Bandaríkin og svo hefst ferðalagið um Evrópu í oktober.  Áður en það hefst ætlar hún þó aðeins heim að hvíla sig. Þar ætlar hún einnig  að vinna að nýrri tónlist og segir enn eigi eftir að vinna umgjörðina að tónleikaferðalaginu í Evrópu.

 Áður en það gerist heldur hún þó á verðlaunahátíðina MTV Video Music Awards þar sem hún er tilnefnd til tveggja verðlauna.

„Ég er verulega spennt. Það er hefur verið draumur minn lengi að vera tilnefnd til VMA verðlauna og mér líður eins og ég hafi unnið nú þegar með því að vera tilnefnd vegna þess að ég byrjaði sem alveg óþekktur listamaður sem söng á „open mic“ kvöldum á börum. Að vera nú boðin inn í hóp vinsæls tónlistafólks er mjög svalt“ segir Hayley og bætir við að enn sé hægt að kjósa á hverjum degi þar til hátíðin fer fram þann 20. ágúst og að hún yrði mjög þakklát þeim sem gætu kosið hana í vefkosningu.

Spennt að koma til Íslands

Hayley hefur aldrei komið til Íslands en segist mjög spennt.Hún vissi ekki enn hvernig dagskráin á tónleikaferðalagi sínu yrði en vonaðist mikið til þess að geta stoppað við á Íslandi í nokkra daga til að skoða landið. Þó enn eigi eftir að hann umgjörð tónleikaferðagsins sagði Hayley að íslenskir aðdáendur hennar megi búast við flottum tónleikum á Iceland Airwaves.

„Tónleikarnir mínir eru alltaf hressandi og litríkir. Ég er svo spennt að fá að spila í Evrópu og er þakklát fyrir alla mína aðdáendur sem hafa stutt mig í gegnum tíðina og verið tryggir og þolinmóðir á meðan ég hef vaxið og komist á þann stað sem ég er á í dag,“ segir Hayley að lokum. 

Fever Ray og Blood Orange einnig á Airwaves

Annað hinsegin tónlistarfólk sem spilar á Iceland Airwaves í ár er sænska söngkonan Fever Ray úr hljómsveitinni The Knife, bandaríska söngkonan Snail Mail, breski söngvarinn Blood Orange, finnska söngkonan Alma og íslenski draglistamaðurinn Mighty Bear.