Eins og yfirskrift sýningarinnar ber ef til með sér þá hverfist hún um samspil dauðans og skartgripa í ýmsum menningarheimum og á ólíkum tímum. „Mér hefur aldrei áður verið boðið að gera verk á skartgripasýningu,“ segir Breki sem telur víst að þetta sé með stærstu sýningum sem íslenskum gullsmið hafi verið boðið að taka þátt í.

„Ég rokkaði þetta verkefni. Þótt ég segi sjálfur frá,“ segir gullsmiðurinn Breki Magnússon sem var, ásamt 29 öðrum gull- og silfursmiðum og listafólki búsettu í Danmörku, fenginn til þess að gera verk sérstaklega fyrir skartgripasýninguna Makabre Mesterværker sem var opnuð í Sønderborg-höll í Danmörku í síðasta mánuði og stendur út október.

Breki er enda heldur betur á heimavelli þegar drungi og dauðinn eru annars vegar eftir að hafa lengi sérhæft sig í hauskúpuhringum og höfuðkúpa er einmitt þungamiðjan í verkinu Freydis, her path to the afterlife in Valhalla.

Breki dauðarokkar sýninguna með verkinu Freydis, her path to the afterlife in Valhalla.
Mynd/Aðsend

Þar vinnur hann með ferðalag Freydísar Eiríksdóttur rauða til Valhallar og sækir í forna norræna menningu með tengingum við galdrastafinn Vegvísi, víkingaskip og margrómuð veisluhöld í Valhöll.

Dauðinn kallar

Hjónin Breki og Gúrý Finnbogadóttir, fata- og skartgripahönnuður, hafa búið og starfað í Danmörku um langt árabil og voru þar í talsverðum kóvíð-hremmingum þegar óvænt og kærkomið kallið eftir skarti á sýninguna kom að handan, ef svo má segja.

„Faraldurinn var í hámarki í lok október 2020 þegar sex ára leigan á verkstæðinu okkar á Hjøbro Plads í Kaupmannahöfn rann út og leigusalinn vildi tvöfalda leiguna með endurnýjuðum samningi. Þetta var auðvitað galið þannig að þremur dögum seinna vorum við flutt frá Højbro Plads og búin koma verkstæðunum okkar beggja fyrir í geymslu.“

Benedikte prinsessu varð starsýnt á hauskúpuna hans Breka.
Mynd/Billed Bladet

Þarna þótti Breka heldur farið að syrta í álinn en örfáum vikum seinna fékk hann Facebook-skilaboð frá Ninu nokkurri Hald, mikilli áhrifakonu í gullsmíðabransanum, konunglegum sýningarstjóra og höfundi fjölda skartgripabóka. Meðal annars um krúnudjásnin.

„Hún hringdi síðan í mig og sagðist vera að undirbúa eina stærstu konunglegu skartgripasýningu sem hún hefði haldið og að hún vær búin að vera að fylgjast með mér á Facebook og Instagram í mörg ár og vildi endilega fá mig til þess að vera í hópi þeirra sem yrðu fengnir til að gera verk á þessa sýningu í Sønderborg-höll 2022.

Grét af gleði

Ég brast í grát eftir þetta símtal. Gúrý og börnin okkar skildu ekkert af hverju ég væri að gráta en þetta voru auðvitað bara gleðitár vegna þess að þarna var ég verkstæðislaus með mjög lítið að gera í faraldrinum og hugsaði með mér að núna fengi ég að vera með dönsku skartelítunni.“

Breki hófst síðan ekki handa á nýju verkstæði þeirra hjóna fyrr en í maí 2021. „Ég vinn best undir pressu og tók allan mánuðinn og um 250 vinnustundir í að hanna og gera verkið,“ segir Breki sem þurfti, eins og öll hin, að skila verkinu í júní í fyrra.

Konungleg athygli

Benedikte prinsessa, systir Margrétar Þórhildar Danadrottningar, opnaði síðan sýninguna í apríl og sást þar sýna verki Breka áhuga. „Tæpum tveimur vikum eftir að sýningin var opnuð kom heil opna um hana í Billed Bladet og þar sést Benedikte prinsessa stara á mitt verk,“ segir Breki sem fékk býsna góða kynningu á síðum blaðsins.

„Það er líka gaman að segja frá að Cartier hafði samþykkt að lána eitt verk á sýninguna en nokkrum mánuðum fyrir opnun sýningarinnar var boðið dregið til baka í tölvupósti til sýningarstjórans vegna þess að sýningin væri of óhugnanleg fyrir þetta þekkta merki.“