Haukur Ingvarsson hlýtur Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2021, Menn sem elska menn. Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaunin sem voru afhent við hátíðlega athöfn í sjötta sinn í dag.
Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir meðal annars:
„Með snjöllu myndmáli skyggnist skáldið um heim allan frá myrku dýpi sjávar til óravídda himingeimsins en hugleiðingar um fótspor á örþunnri skurn yfir djúpinu vekur grun um yfirborð sem getur brostið hvenær sem er. Í ljóðunum birtist þéttur vefur tilvísana til íslenskra bókmennta gegnum aldirnar sem víkkar út merkingarsvið þeirra … Menn sem elska menn er bók sem kallar á endurtekinn lestur og launar þeim sem sinna því kalli ríkulega.“
Haukur Ingvarsson (f. 1979) er rithöfundur og bókmenntafræðingur. Eftir Hauk hafa birst ljóð, smásögur og greinar í ýmsum tímaritum og sýnisbókum heima og erlendis. Hann hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur en fyrir aðra bók sína Vistarverur hlaut hann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2018. Sú bók var einnig tilnefnd til Maístjörnunnar það ár.
Þá hefur hann skrifað eina skáldsögu, Nóvember 1976, og fræðibækurnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness og Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960. Haukur ritstýrir Skírni, tímariti hins íslenska bókmenntafélags, ásamt Ástu Kristínu Benediktsdóttur.