Haukur Ingvars­son hlýtur Maí­­stjörnuna fyrir ljóða­bók ársins 2021, Menn sem elska menn. Rit­höfunda­sam­band Ís­lands og Lands­bóka­safn Ís­lands – Há­skóla­bóka­safn veita verð­launin sem voru af­hent við há­tíð­lega at­höfn í sjötta sinn í dag.

Í um­sögn dóm­nefndar um verð­launa­bókina segir meðal annars:

„Með snjöllu mynd­máli skyggnist skáldið um heim allan frá myrku dýpi sjávar til óra­vídda himin­geimsins en hug­leiðingar um fót­spor á ör­þunnri skurn yfir djúpinu vekur grun um yfir­borð sem getur brostið hve­nær sem er. Í ljóðunum birtist þéttur vefur til­vísana til ís­lenskra bók­mennta gegnum aldirnar sem víkkar út merkingar­svið þeirra … Menn sem elska menn er bók sem kallar á endur­tekinn lestur og launar þeim sem sinna því kalli ríku­lega.“

Haukur Ingvars­son (f. 1979) er rit­höfundur og bók­mennta­fræðingur. Eftir Hauk hafa birst ljóð, smá­sögur og greinar í ýmsum tíma­ritum og sýnis­bókum heima og er­lendis. Hann hefur sent frá sér þrjár ljóða­bækur en fyrir aðra bók sína Vistar­verur hlaut hann bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­sonar árið 2018. Sú bók var einnig til­nefnd til Maí­stjörnunnar það ár.

Þá hefur hann skrifað eina skáld­sögu, Nóvember 1976, og fræði­bækurnar And­lits­drættir sam­tíðarinnar: Síðustu skáld­sögur Hall­dórs Lax­ness og Full­trúi þess besta í banda­rískri menningu: Orð­spor Willi­ams Faul­kners í ís­lensku menningar­lífi 1930-1960. Haukur rit­stýrir Skírni, tíma­riti hins ís­lenska bók­mennta­­fé­lags, á­samt Ástu Kristínu Bene­dikts­dóttur.