Haukur Ingvarsson hlýtur Maí­stjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2021, Menn sem elska menn. Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaunin sem voru afhent í sjötta sinn í gær, miðvikudag.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir meðal annars: „Með snjöllu myndmáli skyggnist skáldið um heim allan frá myrku dýpi sjávar til óravídda himingeimsins en hugleiðingar um fótspor á örþunnri skurn yfir djúpinu vekur grun um yfirborð sem getur brostið hvenær sem er. Í ljóðunum birtist þéttur vefur tilvísana til íslenskra bókmennta gegnum aldirnar sem víkkar út merkingarsvið þeirra … Menn sem elska menn er bók sem kallar á endurtekinn lestur og launar þeim sem sinna því kalli ríkulega.“

Eftir Hauk hafa birst ljóð, smásögur og greinar í ýmsum tímaritum og sýnisbókum heima og erlendis. Hann hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur en fyrir aðra bók sína, Vistarverur, hlaut hann bókmennta­verðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2018. Sú bók var einnig tilnefnd til Maístjörnunnar það ár. Þá hefur hann skrifað eina skáldsögu, Nóvember 1976, og fræðibækurnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness og Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930–1960. Haukur ritstýrir Skírni, tímariti hins íslenska bókmennta­félags, ásamt Ástu Kristínu Benediktsdóttur