Ef við erum ekki sameinuð og reynum ekki að koma á friði mun hatrið hafa betur,“ sagði Klemens Hannigan þegar hann var spurður hver boðskapur lagsins væri á rauða dreglinum í gær. Stundum er sagt að Íslendingar hafi slegið í gegn í þessu partíi eða hinu í Eurovision en miðað við áhugann á Hatara má með sanni segja að hljómsveitin hafi slegið í gegn.

Slegist var um viðtöl við kappana og stoppuðu þeir í örlitla stund hjá fulltrúum íslenskra miðla sem voru samankomnir í örlitlu plássi.

Matthías byrjaði að segja að allt gengi samkvæmt áætlun en eins og venjulega voru þeir ekki málglöðustu menn í heimi. „Við reynum að blanda ekki okkar persónulegu tilfinningum í málið en áætlunin gengur smurt.“

Klemens bætti strax við: „Við fáum allt okkar sent frá Svikamyllu.ehf. daglega og við fylgjum því af miklu stolti og hjarta.“

Það er nóg um að vera hjá íslenska teyminu.
Fréttablaðið/Ingólfur Grétarsson

Aðspurðir sögðust þeir félagar viðbúnir flestum spurningum frá fjölmiðlamönnum, sama frá hvaða landi þeir væru. „Þetta eru spurningar sem við bjuggumst við um okkar eigin líðan og persónulega líf. Við reynum að svara sem fæstu á þeim nótum. Þetta hefur verið viðburðasnauður fréttatími fyrir flesta fjölmiðlamenn, tel ég,“ sagði Matthías.

Að lokum sagðist hann vera alveg til í að sleppa því að vera bundinn þagnareiði þegar talið barst að Vesturbakkanum. „Við værum alveg til í að segja frá af frjálsum hug en getum það ekki vegna pólitískra aðstæðna.“

Svo gengu þeir burt og héldu áfram út rauða dregilinn.

Íslensku listamennirnir voru þeir þrettándu út á dregilinn og sagði kynnirinn að börn og vegan fólk ættu kannski að líta undan í örlitla stund – því að Hatari væri hrifinn af leðri og BDSM, þegar hópurinn var kynntur til leiks.

Á undan Hatara komu Hvít-Rússar og Finnar meðal annars. Vöktu þeir litla kátínu og fengu söngvarar og dansarar þeirra að mestu frið fyrir fjölmiðlum.